Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi. Starfsleyfi.

(Mál nr. 12166/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hafnað var kröfum um ógildingu ákvarðana Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) annars vegar um þátttöku í námskeiði til löggildingar hönnuða og hins vegar um starfsleyfi byggingarstjóra. Hvorki hefði verið gætt að rannsóknarskyldu stjórnvalda né horft til málefnalegra sjónarmiða við túlkun á ákvæðum laga um mannvirki og auk þess hefði meðalhófs ekki verið gætt.  

Umboðsmaður benti á að skv. lögum um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum og lögum um mannvirki sé það gert að skilyrði að námi sé lokið í þeirri sérfræðigrein sem um ræðir hverju sinni áður en komið geti til þess að litið sé til starfsreynslu. Í orðalaginu felist ekki svigrúm til annarrar túlkunar en að viðkomandi þurfi að hafa lokið námi með viðurkenndri prófgráðu eða lokaprófi í greininni. Nefndin byggði úrskurð sinn á að viðkomandi uppfyllti ekki ótvíræð skilyrði ákvæða um starfsreynslu og því yrði að hafna kröfu hans um ógildingu ákvarðana HMS. Taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugsemdir við þá niðurstöðu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. júlí 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 26. apríl sl., fyrir hönd A, sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 14. október 2022 í máli nr. 27/2022 og 69/2022. Með úrskurðinum hafnaði nefndin kröfum A um ógildingu ákvarðana Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, frá annars vegar 1. mars 2022 um að synja honum um þátttöku á námskeiði til löggildingar hönnuða og hins vegar 1. júlí 2022 um að synja honum um starfsleyfi byggingarstjóra, á þeim grundvelli að kröfur um starfsreynslutíma sem kveðið væri á um í c-lið 1. mgr. 26. gr. og 3. mgr. 28. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki, hefðu ekki verið uppfylltar.

Í kvörtun yðar eru gerðar athugasemdir við meðferð og úrlausn málsins hjá stjórnvöldum, og þeirri afstöðu m.a. lýst að við mat á starfsreynslu A hafi hvorki verið gætt að rannsóknarskyldu stjórnvalda né horft til málefnalegra sjónarmiða við túlkun á ákvæðum laga nr. 160/2010. Auk þess hafi ekki verið gætt að meðalhófi við meðferð málsins.

Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ritað bréf, 10. maí sl., þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust 11. maí sl.

  

II

1

Í lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, kemur í 2. gr. fram að rétt til að nota starfsheiti þau sem lögin taka til eða orð sem fela í sér þau heiti hafi þeir einir sem fengið hafi til þess leyfi eða staðfestingu ráðherra. Samkvæmt 1. gr. laganna taka lögin m.a. til starfsheitisins verkfræðingur, og í 3. gr. þeirra kemur fram að engum megi veita leyfi það er um ræðir í 2. gr. nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein. Samkvæmt 4. gr. reglna nr. 1105/2015, um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig verkfræðing, þarf m.a. það skilyrði að vera uppfyllt að námi sé lokið með prófgráðu sem skuli að námslengd og samsetningu vera sambærileg meistaraprófi í verkfræði.

Í V. kafla laga nr. 160/2010, um mannvirki, er fjallað um hönnun mannvirkja. Þar kemur fram í 25. gr. að rétt til að leggja fram uppdrætti vegna byggingarleyfis hafi þeir sem til þess hafa hlotið löggildingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Löggildingin skiptist í tiltekin svið, en þar á meðal geta verkfræðingar með viðkomandi sérmenntun fengið löggildingu til að hanna og gera séruppdrætti að burðarvirkjum, boðveitum, rafkerfum og raflögnum í mannvirkjum, vatns-, hita- og fráveitukerfum, loftræsikerfum og lýsingarkerfum, sbr. b-lið 1. mgr. 25. gr. laganna. Skilyrði fyrir löggildingu hönnuða eru rakin í 1. mgr. 26. gr. laganna. Samkvæmt a- og b- lið 1. mgr. þarf umsækjandi að hafa hlotið heimild ráðherra til starfsheitis samkvæmt framangreindum lögum nr. 8/1996, auk þess sem umsækjandi þarf að hafa staðist próf sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur fyrir að undangengnu námskeiði um gildandi lög og reglur á sviði mannvirkjagerðar. Umsækjandi þarf þá, samkvæmt c-lið 1. mgr., að hafa sérhæft sig á viðkomandi löggildingarsviði og öðlast starfsreynslu hjá löggiltum fagmanni á sviðinu. Tekið er fram að starfsreynslutími skuli ekki vera skemmri en þrjú ár eftir að námi í viðkomandi sérfræðigrein lýkur, þar af minnst eitt ár við mannvirkjagerð á Íslandi. Í vottorði um starfsreynslu skuli gerð grein fyrir þeim verkefnum sem umsækjandi hafi unnið að á starfsreynslutímanum og honum skuli lokið áður en námskeið og próf samkvæmt b-lið séu sótt.

Það leiðir af framangreindu að löggjafinn hefur gert það að skilyrði að námi sé lokið í þeirri sérfræðigrein sem um ræðir hverju sinni, þ. á m. verkfræði, áður en komið geti til þess að litið sé til starfsreynslu umsækjanda. Verður ekki talið að í orðalaginu felist svigrúm til annarrar túlkunar en þeirrar að viðkomandi þurfi að hafa lokið námi með viðurkenndri prófgráðu eða lokaprófi í greininni.

Um byggingarstjóra er fjallað í VI. kafla laga nr. 160/2010. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laganna skal byggingarstjóri hafa starfsleyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. geta m.a. verkfræðingar öðlast starfsleyfi til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir 1. og 3. tölulið 4. mgr. 27. gr. laganna. Er tiltekið það skilyrði að þeir skuli hafa a.m.k. fimm ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir, hönnun bygginga, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 160/2010 kemur fram að ekki sé gerð krafa um að þessir aðilar hafi löggildingu sem hönnuðir en þeir þurfi að hafa a.m.k. fimm ára reynslu af störfum sem verkfræðingar við byggingarframkvæmdir, hönnun bygginga, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir (þskj. 82 á 139. löggjafarþingi 2010-2011, bls. 56). Samkvæmt orðanna hljóðan getur starfsreynslutími því ekki hafist fyrr en viðkomandi aðili hefur fengið leyfi ráðherra til að nota starfsheitið verkfræðingur, sbr. 2. gr. laga nr. 8/1996, enda getur viðkomandi ekki starfað sem slíkur fyrir það tímamark.

  

2

Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála var rakið að A hefði stundað meistaranám í verkfræði á árunum 2009 til 2011 og skilað lokaritgerð í ágúst 2021. Brautskráning hefði því ekki farið fram fyrr en áratug eftir að tilskildum áföngum hefði verið lokið. Hann hefði í kjölfarið öðlast heimild til að kalla sig verkfræðing 5. nóvember 2021. Rakti nefndin m.a. téð skilyrði fyrir löggildingu hönnuða, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 160/2010, og fyrir útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra, sbr. 3. mgr. 28. gr. sömu laga. Tók nefndin fram að A uppfyllti ekki ótvíræð skilyrði ákvæðanna um starfsreynslu, þ.e. annars vegar um þriggja ára starfsreynslu á löggildingarsviði sínu eftir lok náms og hins vegar fimm ára starfsreynslu sem verkfræðingur eftir að hafa öðlast rétt til starfsheitisins. Því yrði ekki hjá því komist að hafna kröfu hans um ógildingu hinna kærðu ákvarðana.

Af gögnum málsins er ljóst að A lauk ekki námi í verkfræði fyrr en eftir að hafa skilað lokaritgerð í ágúst 2021 og hafi hann þá í nóvember sama ár fengið leyfi ráðherra til að nota starfsheitið verkfræðingur. Er því ljóst að tímaskilyrði þau sem kveðið er á um í c-lið 1. mgr. 26. gr. og 3. mgr. 28. gr. laga nr. 160/2010 eru ekki uppfyllt. Ég tel því ekki forsendur til að gera athugasemd við fyrrgreinda niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli A.

  

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.