Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Lögreglu- og sakamál. Niðurfelling máls.

(Mál nr. 12242/2023)

Kvartað var yfir afgreiðslu ríkissaksóknara á beiðni um að hann endurskoðaði afstöðu sína til framhalds lögreglurannsóknar í tilefni af kæru vegna fjársvika og fjárdráttar í tengslum við skipti á dánarbúi. Ríkissaksóknari hafi ekki fylgt tilmælum í áliti umboðsmanns í máli nr. 11368/2021.  

Umboðsmaður benti á að hann hefði ekki talið sig hafa forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu ríkissaksóknara til þess hvort rannsókn málsins yrði haldið áfram. Hann hefði aftur á móti beint tilmælum til ríkissaksóknara um að taka beiðni um aðgang að gögnum til efnislegrar meðferðar. Þar sem ríkissaksóknari hafði gert það taldi umboðsmaður að farið hefði verið að tilmælunum. Hvorki væri því tilefni til að taka málið til frekari athugunar né endurskoða fyrri afstöðu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. júlí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 12. júní sl., vegna afgreiðslu ríkis­saksóknara 8. maí sl. á beiðni yðar 21. mars þess árs, þar sem þér óskuðuð eftir því að ríkissaksóknari endurskoðaði afstöðu sína til beiðni yðar um að snúa við ákvörðun héraðssaksóknara í máli nr. 300-2020-84 frá 8. júlí 2020, um að hætta rannsókn í tilefni af kæru yðar á hendur þremur systkinum yðar og lögmanni fyrir fjársvik og fjárdrátt í tengslum við einkaskipti á dánarbúi föður yðar. Var umrædd beiðni ítrekun á kröfu sem þér höfðuð áður sett fram í bréfi til ríkissaksóknara 31. október 2022 vegna sama máls. Teljið þér að með framangreindri niðurstöðu hafi ríkissaksóknari ekki fylgt tilmælum í áliti umboðsmanns Alþingis frá 2. júní 2022 í máli nr. 11368/2021.

Af framangreindu tilefni skal tekið fram að með bréfi til yðar 25. júní 2021 í máli nr. 10941/2021 var yður tilkynnt að að virtum gögnum málsins, atvikum þess og því svigrúmi sem handhafi ákæruvalds hefur til ákvörðunartöku af þessu tagi teldi  umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við afstöðu ríkissaksóknara til þess hvort rannsókn málsins yrði framhaldið. Í því máli var engum tilmælum til ríkis­sak­sóknara og var þessi niðurstaða áréttuð með bréfi 1. nóvember þess árs í tilefni af athugasemdum sem þér komuð á framfæri 3. september og 14. október þess árs.

Eins og kemur skýrt fram í téðu áliti í máli nr. 11368/2021 var athugun umboðsmanns í því máli afmörkuð við ákvörðun ríkissaksóknara 28. júlí 2021 um að vísa frá kæru yðar á ákvörðun héraðssaksóknara 20. júlí 2020 um að synja beiðni yðar um aðgang að gögnum málsins. Varð niðurstaðan að sú ákvörðun hefði ekki verið í samræmi við lög. Af því tilefni beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ríkis­saksóknara að taka þennan þátt máls yðar til meðferðar að nýju og leysa úr því í samræmi við þau sjónarmið sem gerð var grein fyrir í álitinu kæmi fram beiðni þess efnis frá yður.

Nú liggur fyrir að ríkissaksóknari tók beiðni yðar um aðgang að gögnum til efnislegrar meðferðar og hefur afhent yður nánar tilgreind rannsóknargögn, sbr. bréf ríkis­saksóknara til yðar 17. ágúst 2022. Ég lít því svo á að ríkissaksóknari hafi farið að þeim tilmælum sem beint var til hans í álitinu. Eftir að hafa kynnt mér erindi yðar nú tel ég hvorki tilefni til að taka það til frekari athugunar né heldur að endurskoða fyrri niðurstöðu mína í málum yðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.