Fullnusta refsinga. Reynslulausn.

(Mál nr. 12258/2023)

Kvartað var yfir ákvörðunum Fangelsismálastofnunar um synjun á reynslulausn að liðnum helmingi refsitíma. 

Fram kom að ákvörðunin hafði verið kærð til dómsmálaráðuneytisins og því var ekki ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. júlí 2023.

  

   

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis sem var móttekið 26. júní sl. og lýtur að ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að synja yður um reynslulausn að liðnum helmingi refsitíma. Samkvæmt því sem þar kemur fram hafið þér nú kært þá ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins. 

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af því leiðir að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Í ljósi þess að mál yðar er til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til athugunar að svo stöddu. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á ný kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.