Menntamál. Háskólar.

(Mál nr. 12264/2023)

Kvartað var yfir því að Háskólinn á Bifröst hefði ekki fallist á að endurútgefa brautskráningarskírteini.  

Þar sem Háskólinn á Bifröst er ekki opinber háskóli sem lýtur yfirstjórn mennta- og menningarmálaráðherra heldur sjálfseignarstofnun voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Var viðkomandi bent á áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. júlí 2023.

   

   

Ég vísa til kvörtunar yðar 27. júní sl. sem beinist að Háskólanum á Bifröst og lýstur að því að skólinn hafi ekki fallist á að endurútgefa brautskráningarskírteini yðar.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Starfssvið umboðsmanns tekur einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993 og þeirra sem falla undir 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis eins og það er afmarkað í lögum.

Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er sú að Háskólinn á Bifröst er ekki opinber háskóli sem lýtur yfir­stjórn mennta- og menningarmálaráðherra samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, heldur sjálfseignarstofnun sem hlotið hefur viðurkenningu menntamálaráðherra á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla. Það fellur því utan starfssviðs míns að fjalla um kvörtun yðar. Ég bendi yður á að samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, og reglum nr. 550/2020, um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, geta námsmenn í háskólum, sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra, skotið málum til nefndarinnar ef þeir telja brotið gegn rétti sínum. Með þeirri ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort skilyrði séu uppfyllt til að nefndin tæki mál til meðferðar eða hver niðurstaða hennar yrði.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.