Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Landbúnaður. Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 12269/2023)

Kvartað var yfir því að matvælaráðuneytið hefði ekki svarað erindi.  

Fram kom að viðkomandi hafði ekki ítrekað erindi sitt við ráðuneytið og benti umboðsmaður honum á að gera það áður en kvörtunin gæti komið til umfjöllunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. júlí 2023.

  

   

Ég vísa til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþlingis 7. júlí sl. sem beinist að matvælaráðuneytinu og lýtur að því að ráðuneytið hafi ekki svarað erindi yðar frá 12. apríl sl. sem varðaði m.a. eftirlit með sauðfé á riðuveikisvæðum í Húnavatnssýslum og í Skagafirði.

Stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, sbr. eftir atvikum meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Þá hef ég einnig litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram kvörtun vegna þess að dráttur hafi orðið á að stjórnvald svari erindi leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við áður en leitað er til mín með kvörtun. Í samskiptum yðar við skrifstofu umboðsmanns hefur komið fram að þér hafið ekki ítrekað erindi yðar til matvælaráðuneytisins.

Í samræmi við framangreint er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek fram að þér getið leitað til mín á nýjan leik verði óhóflegur dráttur á svörum matvælaráðuneytisins að undangengngum ítrekunum.