Persónuréttindi. Nauðungarvistun á sjúkrahúsi. Leiðbeiningarskylda. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 3513/2002)

A kvartaði yfir því að hann hefði verið vistaður gegn vilja sínum á geðdeild X samkvæmt 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Taldi A að ekki hefði verið tilefni til slíkrar vistunar, auk þess sem hún hefði staðið of lengi. Þá beindist kvörtun A að því að honum hefði ekki verið leiðbeint um rétt sinn til að bera ákvörðun um vistunina undir dómstóla.

Umboðsmaður rakti ákvæði 2. mgr. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga en samkvæmt þeim er heimilt að vista mann nauðugan í sjúkrahúsi ef viðkomandi er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi að mati læknis eða verulegar líkur eru á því að svo sé. Umboðsmaður benti á að við mat á því hvort skilyrðum umræddra lagaákvæða væri fullnægt þyrfti að afla ýmissa sönnunargagna um heilsufar A og leggja dóm á gildi þeirra. Taldi umboðsmaður þennan þátt kvörtunarinnar varða réttarágreining sem heyrði undir dómstóla og eðlilegt væri að þeir leystu úr. Væri því ekki tilefni þess að umboðsmaður fjallaði frekar um það, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður ákvað því að takmarka athugun sína við það hvort og þá með hvaða hætti gætt hafi verið að því að leiðbeina A um rétt hans til að bera ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að vista hann á sjúkrahúsi undir dómstóla.

Í áliti sínu rakti umboðsmaður 1. mgr. 30. gr. lögræðislaga þar sem kveðið er á um rétt nauðungarvistaðs manns til þess að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla. Þá vísaði umboðsmaður til þess að samkvæmt e-lið 1. mgr. 26. gr. lögræðislaga skyldi vakthafandi sjúkrahúslæknir skrá í sjúkraskrá nauðungarvistaðs manns svo fljótt sem verða mætti hvenær honum var kynntur réttur sinn til að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla. Benti umboðsmaður í því sambandi á að aðstæður þeirra sem vistaðir væru nauðugir í sjúkrahúsi hlytu oft að vera með þeim hætti að viðkomandi ættu örðugt með að gera sér grein fyrir hvaða úrræði þeir hefðu til að leita endurskoðunar á slíkri ákvörðun. Þá taldi umboðsmaður að lagafyrirmæli um skráningu upplýsinga í sjúkraskrá þegar teknar væru íþyngjandi ákvarðanir samkvæmt heimild í lögræðislögum miðuðu að því að tryggja sönnun þess að þolanda slíkrar ákvörðunar hefði verið leiðbeint um rétt sinn til að leita endurskoðunar dómstóla á ákvörðuninni. Að baki slíkri skyldu byggju því réttaröryggissjónarmið og vanræksla á henni kynni enn fremur að torvelda athugun á atvikum málsins af hálfu dómstóla eða umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður taldi hvorki hægt að ráða af gögnum málsins né þeim skýringum sem yfirlæknir geðdeildarinnar hefði látið honum í té að þess hefði verið gætt að leiðbeina A með fullnægjandi og sannanlegum hætti um rétt hans til að bera ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um nauðungarvistun hans undir dómstóla. Umboðsmaður benti á að með þessari niðurstöðu væri ekki fullyrt af hans hálfu að á það hefði skort í raun að A hefði verið kynntur réttur sinn í þessum efnum. Umboðsmaður gæti hins vegar ekki staðreynt það af gögnum málsins hvort og þá með hvaða hætti það var gert enda fengi hann ekki séð að skráningu í sjúkraskrá A hefði verið hagað í samræmi við fyrirmæli e-liðar 1. mgr. 26. gr. lögræðislaga. Beindi umboðsmaður í kjölfarið þeim tilmælum til yfirlæknis geðdeildar X að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í áliti umboðsmanns þegar teknar væru ákvarðanir um vistun samkvæmt 2. eða 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga.

I.

Hinn 10. maí 2002 leitaði A til mín og kvartaði yfir ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðu-neytisins frá 12. apríl 2002, þar sem samþykkt var beiðni ættingja um áframhaldandi nauðungarvistun A á sjúkrahúsi samkvæmt 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sbr. einnig 3. mgr. 19. gr. sömu laga.

Í kvörtuninni kemur fram að A hafi ekki áttað sig á því að hann „gæti kært ákvörðunina til dómstóla meðan hann væri vistaður á geðdeildinni“. Hafi ráðgjafi hans „ekki leiðbeint honum um þessa kæruleið“. Þá kemur þar fram að A sé mjög ósáttur við tímalengd vistunarinnar, þ.e. 19 daga.

Athugun mín á kvörtun A hefur ekki beinst sérstaklega að ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um nauðungarvistun sem var tilefni kvörtunar hans. Eins og nánar er rakið í kafla IV.1 ákvað ég að takmarka athugun mína á máli þessu við það hvort og þá með hvaða hætti gætt var að því af hálfu yfirlæknis geðdeildar X að leiðbeina A um rétt hans samkvæmt lögum nr. 71/1997 til að bera ákvörðun ráðuneytisins um að vista hann á sjúkrahúsi, sbr. 3. mgr. 19. gr. sömu laga, undir dómstóla.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 26. nóvember 2002.

II.

Í gögnum málsins er atvikum lýst á þann veg að A hafi komið í lögreglufylgd á geðdeild Landspítalans aðfaranótt 11. apríl 2002. Í skýrslu sem gerð var við komu hans á geðdeild segir að lögregluþjónar hafi sótt hann heim í kjölfar þess að nágrannar kvörtuðu yfir hávaða. Þá segir svo í skýrslunni:

„Hann er mjög óánægður með hvernig lögreglan var í framkomu við hann þegar þeir heimsóttu hann og fóru með hann hingað á móti vilja sínum og að hans mati beittu óþarfa valdi. Þegar við tilkynnum honum að hann þurfi að vera hér í nótt til þess að hægt sé að tala við hann aftur í fyrramálið, þá mótmælir hann að vísu, en samþykkir þó í raun að vera hér, ef það er alveg nauðsynlegt. Hann neitar þó lyfjameðferð […].“

Samkvæmt beiðni, dags. 11. apríl 2002, óskuðu tvö barna A og systir hans eftir því við dóms- og kirkjumálaráðuneytið að hann yrði vistaður í sjúkrahúsi samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997. Með ákvörðun, dags. 12. apríl 2002, samþykkti ráðuneytið að A yrði vistaður í sjúkrahúsi samkvæmt heimild í „3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga“ enda væri það mat ráðuneytisins að skilyrðum tilvitnaðra lagaákvæða væri fullnægt. Í úrskurðinum segir enn fremur:

„Vekja ber athygli sjúklings á því með viðeigandi hætti, að hann á rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings ráðgjafa vegna sjúkrahússdvalarinnar og meðferðar þar, sbr. 27. gr. laganna, og enn fremur að honum er heimilt að leita úrlausnar dómstóla um ákvörðun ráðuneytisins um vistun, sbr. 30. gr. laganna.“

III.

Ég ritaði yfirlækni á geðdeild X á Landspítala-háskólasjúkrahúsi bréf, dags. 21 maí 2002, og óskaði eftir því með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að upplýst yrði hvort A hefði verið leiðbeint um rétt hans til að leita úrlausnar dómstóla um þá ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að vista hann nauðugan á sjúkrahúsi, sbr. 30. gr. laga nr. 71/1997. Óskaði ég þess jafnframt að mér yrðu látin í té gögn sem staðfestu að svo væri, ef slík gögn væru til staðar.

Í svarbréfi yfirlæknisins, dags. 4. júní 2002, komu ekki fram þær upplýsingar sem ég hafði óskað eftir og ítrekaði ég því framangreinda ósk mína í bréfi, dags. 18. júní 2002. Auk þess óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, að yfirlæknirinn lýsti viðhorfi sínu til kvörtunar A og að mér yrðu veittar skýringar á því af hverju honum hefði ekki verið leiðbeint um framangreindan rétt sinn ef á það hefði skort. Svarbréf yfirlæknisins, dags. 21. júní 2002, barst mér 28. júní 2002. Þar segir meðal annars svo:

„Hjálagt er ljósrit af bréfi ráðuneytisins. [A] fékk sjálfur afrit af því bréfi strax og það barst til deildarinnar.

Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins eiga slíkir einstaklingar rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings ráðgjafa vegna sjúkrahússdvalarinnar og meðferðar þar, sbr. 27. gr. lögræðislaga, og enn fremur er einstaklingunum heimilt að leita úrlausnar dómstóla um ákvörðun ráðuneytisins um vistun, sbr. 30. gr. laganna. [A] var gerð skýr grein fyrir þessum rétti sínum og eins og fram kemur í fyrra bréfi undirritaðs, dags. 4. júní 2002, ræddi ráðgjafi við [A] hinn 15. og 17. apríl.

Í viðtali [A] við [B], geðlækni, hinn 11. 04. 2002, kemur skýrt fram að [A] var meðvitaður um rétt sinn. Þetta er skráð í sjúkraskrá og undirritaður ræddi þessi mál við [B] geðlækni hinn 21. júní sl. [B] mundi mjög vel eftir málinu og sagði það engum vafa undirorpið að [A] hefði verði vel upplýstur um allan sinn rétt og greinilegt hefði verið að [A] hefði skilið stöðu sína.“

Þann 1. júlí 2002 ritaði ég yfirlækni geðdeildar bréf á ný en þar segir meðal annars svo:

„Í bréfi yðar til mín, dags. 21. júní sl., kemur fram að í viðtali [A] við [B], geðlækni, sem fram fór 11. apríl 2002, hafi komið skýrt fram að hann hefði verið meðvitaður um umræddan rétt sinn til að leita með mál sitt til dómstóla. Þá segir að þetta hafi verið „skráð í sjúkraskrá“. Með bréfi yðar fylgdi ekki afrit af þeirri færslu eða hluta sjúkraskrár [A], þar sem þetta kemur fram, en ég minni á að í framangreindum bréfum mínum til yðar hafði ég óskað eftir slíkum upplýsingum á grundvelli 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt þessu óska ég þess að þér sendið mér afrit af framangreindri skráningu í sjúkraskrá [A].“

Með bréfi, dags. 8. júlí 2002, bárust mér afrit af athugasemdum lækna sem skrifaðar voru meðan á vistun A á geðdeild Landsspítala-háskólasjúkrahúss stóð. Var í bréfinu sérstaklega bent á athugasemdir B, geðlæknis, frá 11. apríl 2002 þar sem meðal annars kemur fram að A hafi verið „meðvitaður um rétt sinn“. Hinn 29. júlí sl. átti starfsmaður minn fund með A þar sem honum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við svarbréf yfirlæknis geðdeildar X til mín. Kvaðst A ekki hafa verið upplýstur um rétt sinn og mótmælti því sem fram kæmi á komunótu, dags. 11. apríl 2002, um að svo hefði verið.

IV.

1.

Áður er rakið að kvörtun A beinist einkum að því að honum hafi ekki verið leiðbeint um rétt hans til að bera ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 12 apríl 2002, undir dómstóla. Af kvörtun A og því sem fram hefur komið í samtölum hans við starfsfólk mitt verður þó ráðið að kvörtun hans beinist einnig að því að ekki hafi verið tilefni til þess að vista hann nauðugan í sjúkrahúsi og að sú vistun hafi staðið lengur en nauðsynlegt var.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur umboðsmaður hafnað því að taka mál, í heild eða að hluta, til meðferðar varði það réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr. Með 1. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1997 er þeim, sem vistaður hefur verið nauðugur í sjúkrahúsi samkvæmt 2. eða 3. mgr. 19. gr., veitt heimild til að bera slíka ákvörðun undir dómstóla. Þetta lagaákvæði endurspeglar þann rétt nauðungarvistaðs manns sem einnig nýtur stjórnarskrárverndar, sbr. fyrri málsl. 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá tek ég fram að samkvæmt 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 verða ákvarðanir um að vista mann nauðugan í sjúkrahúsi ávallt að vera byggðar á mati læknis á því hvort viðkomandi sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur séu taldar á því að svo sé, sbr. ákvæði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997, eða að slík vistun teljist að mati læknis óhjákvæmileg, sbr. 3. mgr. 19. gr. Ætla verður að við mat á því hvort skilyrðum laga nr. 71/1997 hafi verið fullnægt í máli A þurfi að afla ýmissa sönnunargagna um heilsufar hans og leggja dóm á gildi þeirra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið tel ég að sá þáttur kvörtunar A sem beinist að tilefni umræddrar nauðungarvistunar hans í sjúkrahúsi og tímalengd hennar varði réttarágreining sem heyri undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr. Hef ég því ákveðið að fjalla ekki frekar um athugasemdir hans um þau atriði. Athugun mín á kvörtun A er því takmörkuð við það hvort og þá með hvaða hætti gætt var að því að leiðbeina honum um rétt hans til að bera ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að vista hann á sjúkrahúsi, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997, undir dómstóla.

2.

Um efnisskilyrði nauðungarvistunar og málsmeðferð af því tilefni gilda eins og fyrr greinir lögræðislög nr. 71/1997. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. getur læknir ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Í sömu grein segir að slíka ákvörðun taki vakthafandi sjúkrahúslæknir en þá ákvörðun hans skuli þó bera undir yfirlækni svo fljótt sem verða má. Í ákvæðinu er mælt fyrir um það að frelsisskerðing á þessum grundvelli megi ekki standa lengur en 48 klukkustundir.

Ég tek fram að af kvörtun málsins verður ráðið að athugasemdir A beinast ekki sérstaklega að veru hans á sjúkrahúsinu 11. apríl 2002. Ég minni á að í skýrslu sem gerð var við komu hans á geðdeild aðfaranótt 11. apríl 2002 segir meðal annars að þegar honum hafi verið tilkynnt að hann þyrfti að vera á sjúkrahúsinu um nóttina „til þess að hægt [væri] að tala við hann aftur í fyrramálið“ þá hafi hann „mótmælt [...] að vísu“ en þó samþykkt „í raun“ að vera þar áfram væri það „alveg nauðsynlegt“ en neitað lyfjameðferð. Þá segir í skýringarbréfi yfirlæknis á geðdeild sjúkrahússins til mín, dags. 21. júní 2002, að samkvæmt sjúkraskrá hafi A fallist á að vera á deildinni aðfaranótt 11. apríl 2002 meðan mál hans væru könnuð frekar. Í ljósi þessa tel ég ekki tilefni til þess að ég fjalli sérstaklega um framkvæmd vistunar A frá og með innlögn hans aðfaranótt 11. apríl 2002 og fram að því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið tók þá ákvörðun 12. s.m. að fallast á beiðni ættingja hans um að vista hann á sjúkrahúsinu samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997. Ég tek þó fram að þau sjónarmið sem rakin verða hér á eftir um leiðbeiningar til nauðungarvistaðs manns um rétt hans til að bera mál sitt undir dómstóla og um skráningu slíkra upplýsinga í sjúkraskrá í tilefni af ákvörðun ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 eiga einnig við þegar aðeins liggur fyrir ákvörðun læknis samkvæmt 2. mgr. 19. gr. sömu laga.

3.

Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 er dóms- og kirkjumálaráðuneytinu heimilt að vista sjálfráða mann í sjúkrahúsi í allt að 21 sólarhring að beiðni ættingja eða félagsmálastofnunar, sbr. 20. gr., ef slík nauðungarvistun er óhjákvæmileg að mati læknis. Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 71/1997 segir þó að nauðungarvistun í sjúkrahúsi megi aldrei haldast lengur en yfirlæknir telur hennar þörf.

Í 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar segir að hver sá, sem sviptur er frelsi af öðrum ástæðum en vegna gruns um refsiverða háttsemi, eigi rétt á því að bera lögmæti þess undir dómstóla svo fljótt sem verða má. Áréttingu á þessum stjórnarskrárvarða rétti í tilviki nauðungarvistaðs manns er að finna í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1997. Á sú heimild við hvort sem maður hefur verið vistaður í sjúkrahúsi samkvæmt 2. eða 3. mgr. 19. gr. laganna, sbr. athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 71/1997.(Alþt. 1996-97, A-deild, bls. 3713). Ákvörðun um nauðungarvistun á sjúkrahúsi felur í sér afar íþyngjandi íhlutun í persónuréttindi manna en samkvæmt meginreglu 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 má engan svipta frelsi sínu nema samkvæmt heimild í lögum. Verður því að gera ríkar kröfur til þess að málsmeðferð við ákvörðun um nauðungarvistun sé vönduð þannig að þeim sem ákvörðunin beinist að sé meðal annars leiðbeint með skýrum og glöggum hætti um réttarstöðu sína.

Samkvæmt c- og d-liðum 1. mgr. 25. gr. laga nr. 71/1997 skal vakthafandi sjúkrahúslæknir tilkynna nauðungarvistuðum manni án tafar um tiltekin atriði nema slíkt sé bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands hans. Í fyrsta lagi ber að tilkynna um ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins samkvæmt 3. mgr. 19. gr. ef því er að skipta og í öðru lagi um rétt til að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla samkvæmt 30. gr. laga nr. 71/1997. Ákvæði 26. gr. sömu laga mælir fyrir um skyldu vakthafandi sjúkrahúslæknis til að skrá tiltekin atriði í sjúkraskrá nauðungarvistaðs manns. Í e-lið 1. mgr. 26. gr. er mælt fyrir um að vakthafandi sjúkrahúslæknir skuli svo fljótt sem verða má skrá í sjúkraskrá manns sem hefur verið vistaður nauðugur hvenær honum var kynntur réttur hans til að bera ákvörðun um nauðungarvistun undir dómstóla. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 71/1997 hefur yfirlæknir eftirlit með og ber ábyrgð á að ákvæði 1. mgr. sé framfylgt.

4.

Aðstæður og líkamlegt ástand manna sem vistaðir eru nauðugir í sjúkrahúsi hlýtur oft að vera með þeim hætti að viðkomandi á erfitt með að gera sér nægjanlega grein fyrir eðli nauðungarvistunar og hvaða úrræði hann hefur að lögum til að leita endurskoðunar á slíkri ákvörðun. Haga verður fyrirkomulagi við veitingu leiðbeininga um lögbundin réttindi til nauðungarvistaðra manna með þessar aðstæður í huga og þá einnig skráningu upplýsinga af því tilefni. Ég tek í því efni fram að til þess að leiðbeiningar um rétt nauðungarvistaðra manna nái tilgangi sínum þarf meðal annars að gera viðkomandi grein fyrir því hvernig hann þarf að bera sig að vilji hann nýta lögbundinn rétt sinn, m.a. um skriflega kröfugerð sem beina þarf til viðkomandi dómstóls, sbr. fyrri málsl. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1997, og um að hann geti notið aðstoðar ráðgjafa síns í því efni, sbr. þriðja málsl. sama ákvæðis.

Þá bendi ég á að lagafyrirmæli um skráningu upplýsinga um íþyngjandi ákvarðanir samkvæmt heimild í lögræðislögum nr. 71/1997 miða að því að tryggja sönnun þess að þolendum slíkra ákvarðana hafi verið leiðbeint með nægjanlegum hætti um réttarstöðu sína og úrræði til að leita endurskoðunar á slíkum ákvörðunum. Að baki slíkri skyldu búa því réttaröryggissjónar-mið. Vanræksla á því að skrá upplýsingar með réttum hætti í sjúkraskrá við nauðungarvistun kann enn fremur að torvelda síðari athugun á atvikum málsins af hálfu eftirlitsaðila á borð við dómstóla eða eftir atvikum umboðsmann Alþingis. Með hliðsjón af framangreindu tel ég það varða miklu að vandað sé til skráningar í sjúkraskrá í slíkum tilvikum og að gætt sé fyrirmæla 26. gr. lögræðislaga.

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 12. apríl 2002 til yfirlækna á geðdeild X á Landspítala-háskólasjúkrahúss, þar sem samþykkt var sú ákvörðun að vista A á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 7/1997, er meðal annars vakin athygli á framangreindum rétti hans samkvæmt 30. gr. laga nr. 71/1997 til að leita úrlausnar dómstóla um ákvörðun ráðuneytisins. Ég vek athygli á því að þar kemur ekki fram lýsing á því hvernig nauðungarvistaður maður á að bera sig að ef hann vill nýta málskotsrétt sinn. Í svari yfirlæknis geðdeildar X til mín, dags. 21. júní 2002, segir að A hafi verið gerð grein fyrir rétti sínum til að leita úrlausnar dómstóla um ákvörðun ráðuneytisins um vistun. Í bréfinu er því til stuðnings vísað til viðtals A við B, geðlækni, 11. apríl 2002, og því lýst að þar komi skýrt fram að A hafi verið „meðvitaður um rétt sinn“. Í bréfi yfirlæknis geðdeildar X til mín, dags. 8. júlí 2002, er þar að auki sérstaklega bent á athugasemdir B, geðlæknis, frá 11. apríl 2002, en þar komi meðal annars fram að A hafi verið „meðvitaður um rétt sinn“. Í „komunótu“ B, dags. 11. apríl 2002, segir orðrétt um þetta atriði:

„Í heilsufarsögu kemur fram að hann hefur verið óvinnufær í 15 ár, hefur ekki nein próf, en virðist hafa áhuga á tölvum og ýmsu svoleiðis. Er meðvitaður um rétt sinn, en vill helst ákæra alla og er reiður út í lögregluna og fleiri aðila.“

Í umræddri komunótu er hvergi vikið að því að A hafi verið leiðbeint sérstaklega um rétt sinn til að leita úrlausnar dómstóla um þá ákvörðun að vista hann nauðugan í sjúkrahúsi. Þá hefur mér ekki verið sýnt fram á að í sjúkraskrá eða öðrum gögnum hafi verið skráð, sbr. sbr. e-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 71/1997, hvort og þá hvenær honum var kynntur sá réttur. Ég tek fram að í svörum yfirlæknis geðdeildar X til mín er því ekki haldið fram að það hafi verið bersýnilega þýðingarlaust að kynna A réttindi sín vegna ástands hans, sbr. upphafsákvæði 1. mgr. 25. gr. laga nr. 71/1997. Þá verður slík afstaða ekki heldur ráðin af öðrum gögnum málsins.

Ég tel rétt að taka fram að í svari yfirlæknisins til mín kemur fram að A hafi verið afhent framangreint bréf ráðuneytisins um umrædda ákvörðun en þar kemur eins og áður segir fram að leiðbeina skuli um rétt hans til að bera úrlausn ráðuneytisins undir dómstóla. Ekki er því þó haldið fram af hálfu yfirlæknisins að með þeirri afhendingu hafi verið fullnægt leiðbeiningarskyldu um það atriði. Ég legg á það áherslu að í bréfi ráðuneytisins er því sérstaklega beint til yfirlækna geðdeildar að vekja beri athygli A á rétti hans til að „njóta ráðgjafar og stuðnings ráðgjafa vegna sjúkrahússdvalarinnar og meðferðar þar, sbr. 27. gr. [laga nr. 71/1997], og enn fremur að honum [sé] heimilt að leita úrlausnar dómstóla um ákvörðun ráðuneytisins um vistun, sbr. 30. gr. laganna“. Í bréfinu er ekki að finna frekari leiðbeiningar um málsókn.

Samkvæmt framangreindu fæ ég ekki ráðið af gögnum málsins eða af skýringum þeim sem yfirlæknir geðdeildar X hefur látið mér í té að gætt hafi verið að því að tilkynna A með fullnægjandi og sannanlegum hætti um rétt hans til að bera ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 12. apríl 2002 um nauðungarvistun hans undir dómstóla. Ég tek fram að með þessari niðurstöðu er af minni hálfu ekki verið að fullyrða að á hafi skort í raun að A hafi með einhverjum hætti verið kynntur réttur sinn, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1997. Ég get hins vegar ekki staðreynt það af gögnum málsins hvort og þá með hvaða hætti það var gert enda fæ ég ekki séð að skráningu í sjúkraskrá A hafi verið hagað í samræmi við fyrirmæli e-liðar 1. mgr. 26. gr. lögræðislaga en ég minni á að samkvæmt 2. mgr. 26. gr. sömu laga hefur yfirlæknir eftirlit með þessu atriði og ber lagalega ábyrgð á því að skráningu sé hagað í samræmi við lög. Á það skorti í þessu máli.

V.

Niðurstaða

Samkvæmt framangreindu fæ ég ekki ráðið af gögnum málsins eða af skýringum þeim sem yfirlæknir geðdeildar X hefur látið mér í té að gætt hafi verið að því með fullnægjandi og sannanlegum hætti að leiðbeina A um rétt hans til að bera ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 12. apríl 2002 um nauðungarvistun hans undir dómstóla. Það er niðurstaða mín að ekki hafi verið gætt ákvæðis e-liðar 1. mgr. 26. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 um að skrá í sjúkraskrá hvort A voru veittar upplýsingar um þau úrræði sem hann hafði til að skjóta ákvörðun um nauðungarvistun til dómstóla. Beini ég þeim tilmælum til yfirlæknis geðdeildar X, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 71/1997, að á deildinni verði framvegis tekið mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í áliti þessu þegar ákvarðanir um vistun samkvæmt 2. eða 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 eru teknar.

VI.

Ég ritaði yfirlækni geðdeildar X bréf, dags. 14. febrúar 2003, og óskaði eftir upplýsingum um hvort framangreint álit mitt hefði gefið honum tilefni til viðbragða og þá í hverju þau hefðu falist. Í svarbréfi yfirlæknisins, dags. 28. sama mánaðar, kemur fram að álit mitt hafi verið rætt á fundum yfirlækna geðdeildarinnar í desember 2002. Gerðar hafi verið tillögur til úrbóta og þær sendar lögfræðingi sjúkrahússins og lækningaforstjóra þess til umsagnar. Það var mat þeirra að með eyðublaði því sem læknarnir lögðu til að notað yrði væri komið til móts við tilmæli mín. Með bréfi yfirlæknisins fylgdi afrit eyðublaðsins.