Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Heilbrigðismál. Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 12270/2023)

Kvartað var yfir afgreiðslutíma landlæknis í kvörtunarmálum.  

Ekki varð betur séð en málið væri í farvegi hjá embættinu. Tafir þar væru almennar og þegar til athugunar hjá umboðsmanni og því ekki ástæða til að aðhafast sérstaklega vegna þessa máls.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. júlí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 28. júní sl. sem beinist að embætti landlæknis og lýtur að afgreiðslutíma embættisins í kvörtunarmálum. Kvörtuninni fylgdi bréf landlæknisembættisins til lögmanns yðar 26. sama mánaðar, í tilefni af kvörtunarmáli sem hann rekur fyrir yðar hönd, þar sem í niðurlagi kemur fram að umtalsverðar tafir séu á málsmeðferð kvörtunarmála hjá landlækni og að hún geti því tekið allt að fjögur ár, eftir umfangi máls.

Samkvæmt framangreindu verður ekki annað séð en að mál yðar sé í farvegi hjá landlæknisembættinu og ekki liggi fyrir hvenær því ljúki. Upplýsingar um þær tafir sem eru á afgreiðslu mála hjá embættinu eru hins vegar almennar og veittar í samræmi við áskilnað 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kvörtun yðar verður því að skilja á þann hátt að hún beinist að almennum málsmeðferðartíma landlæknisembættisins í kvörtunarmálum.

Af framangreindu tilefni tel ég rétt að upplýsa að málsmeðferðartími landlæknisembættisins í kvörtunarmálum er nú þegar til almennrar athugunar hjá umboðsmanni á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, m.a. í ljósi kvartana og ábendinga sem hafa borist. Upplýsinga hefur verið aflað frá heilbrigðisráðherra, auk þess sem umboðsmaður hefur verið í samskiptum við landlæknisembættið. Að virtu efni kvörtunar yðar tel ég því ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega í tilefni af henni en mun hafa athugasemdir yðar í huga og  bendi á að þegar niðurstaða í framangreindrar athugunar liggur verður tilkynnt um hana á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.