Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi. Sjávarútvegur. Hvalveiðar.

(Mál nr. 12279/2023)

Kvartað var yfir matvælaráðherra og reglugerð um hvalveiðar sem hefði íþyngjandi afleiðingar fyrir starfsfólks Hvals hf.  

Taldi umboðsmaður ekki hægt að líta svo á að reglugerðin hefði beinst að viðkomandi eða snert hagsmuni hans með beinum hætti. Því væru ekki skilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. júlí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 3. júlí sl. sem beinist efnislega að matvælaráðherra og setningu reglugerðar nr. 642/2023, um (12.) breytingu á reglugerð nr. 163/1973 um hvalveiðar, þar sem í 1. gr. er mælt fyrir um að á árinu 2023 skuli veiðar á langreyðum ekki hefjast fyrr en 1. september. Í kvörtuninni kemur fram að hún sé send fyrir hönd starfsmanna Hvals hf. Er vísað til þess að með setningu reglugerðarinnar hafi veiðar fyrirtækisins í reynd verið stöðvaðar og hafi þetta haft íþyngjandi afleiðingar fyrir yður og aðra starfsmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Umboðsmanni Alþingis er þannig ætlað að hafa eftirlit með því að borgararnir fái notið þeirra efnislegu réttinda sem löggjafinn hefur kveðið á um og meðferð mála þeirra sé í samræmi við lög.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis getur kvartað af því tilefni til hans, sbr. 2. mgr. 4. gr. fyrrnefndra laga. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögunum segir um umrætt ákvæði að ekki geti aðrir borið fram kvörtun en þeir sem halda því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329). Af þessu leiðir að kvörtun til umboðsmanns Alþingis verður að lúta að tilteknum athöfnum eða ákvörðunum stjórnvalda sem beinast að þeim sem leggur fram kvörtun eða snerta beinlínis lögverndaða hagsmuni hans.

Samkvæmt lögum nr. 26/1949, um hvalveiðar, hafa þeir einir rétt til að stunda slíkar veiðar sem fengið hafa til þess leyfi matvælaráðuneytisins, en slík leyfi má aðeins veita aðilum sem fullnægja skilyrðum til að mega stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands að undangenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar. Vinnuveitandi yðar, Hvalur hf., mun vera handhafi slíks leyfis og hefur komið fram í fjölmiðlum að fyrirtækið hafi nýlega lagt fram kvörtun til umboðsmanns vegna fyrrgreindrar reglugerðarsetningar matvælaráðherra. Lagaleg staða yðar sem starfsmanns ræðst af nánara réttarsambandi yðar við Hval hf. Gildir það einnig við þær aðstæður sem leiða af setningu fyrrgreindrar reglugerðar. Að öllu virtu get ég því ekki litið svo á að téð reglugerð matvælaráðherra hafi beinst að yður eða snert hagsmuni yðar með beinum hætti.

Samkvæmt framangreindu brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er athugun á henni því lokið. Ég tek þó fram að þau sjónarmið sem fram koma í erindi yðar verða höfð til hliðsjónar við athugun á fyrrnefndri kvörtun Hvals hf.