Skattar og gjöld. Innheimta. Fullnustugerðir og skuldaskil. Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 12287/2023)

Kvartað var yfir Skattinum. Annars vegar vegna aðfararbeiðnar og hins vegar að ekki hefði verið orðið við beiðni um leiðréttingu á skattframtali. Þá beindist kvörtunin líka að Reykjavíkurborg og skerðingu sérstaks húsnæðisstuðnings sem áfrýjunarnefnd velferðarráðs borgarinnar hafði staðfest.  

Ekki varð ráðið að afstaða Skattsins til beiðni um leiðréttingu á skattframtali lægi fyrir í málinu. Þá var bent á að kæra mætti ákvörðun borgarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Að svo stöddu væru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að því leyti. Þá taldi umboðsmaður ekki efni til að taka til frekari athugunar athugasemdir sem lutu að því að lögð hefði verið fram aðfararbeiðni vegna skattskuldar viðkomandi enda hafði verið leiðbeint um möguleika á að gera greiðsluáætlun.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. júlí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 6. júlí sl. sem beinist að Skattinum og lýtur annars vegar að því að lögð hafi verið fram aðfararbeiðni vegna skattskuldar sem er tilkomin vegna álagningar útvarpsgjalds og gjalds í framkvæmdasjóð aldraðra og hins vegar að því að ekki hafi verið orðið við beiðni yðar 12. júní sl. um leiðréttingu á skattframtali vegna skattskuldar sem hafi stofnast vegna þess hvernig staðið var að uppgjöri á láni sem þér fenguð frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Kvörtunin beinist einnig að Reykjavíkurborg og lýtur að því leyti að ákvörðun um að skerða greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings til yðar, en þá ákvörðun staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs sveitarfélagsins 5. júlí sl.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en það hefur endanlega verið til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að af kvörtun yðar verður ekki ráðið að afstaða Skattsins til beiðni yðar 12. júní sl. liggi fyrir og að hún sé því enn til meðferðar. Þá er heimilt að kæra ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 5. júlí sl. til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og verður niðurstaða hennar að liggja fyrir áður en umboðsmaður getur tekið erindi til athugunar á grundvelli kvörtunar. Kæra skal berast úrskurðarnefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála. Af framangreindum sökum brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu að því er téðar ákvarðanir varðar. Ef þér teljið yður beittan rangsleitni að fengnum niðurstöðum þessara stjórnvalda, annars eða beggja, getið þér leitað til mín á ný. Í því sambandi er athygli vakin á því að kvörtun skal bera fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Hvað varðar þá ákvörðun Skattsins, sem innheimtumanns ríkissjóðs, að leggja fram aðfararbeiðni vegna skattskuldar yðar, þá verður ekki ráðið af kvörtun yðar eða gögnum sem henni fylgdu að þér gerið athugasemdir við álagninguna sem lá til grundvallar innheimtunni heldur að þér teljið framgangsmáta embættisins úr hófi með tilliti til fjárhæðar skuldarinnar og skráningar yðar á vanskilaskrá í kjölfar beiðninnar. Í ljósi þess að í tölvubréfi Skattsins 27. janúar sl. var yður leiðbeint um möguleikann á að gera greiðsluáætlun sem myndi þá hafa í för með sér að innheimtuaðgerðum yrði frestað og eftir atvikum yrðuð þér ekki færðir á vanskilaskrá tel ég ekki tilefni til að taka þetta atriði í kvörtun yðar til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörðun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.