Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir. Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Húsnæðismál.

(Mál nr. 12288/2023)

Kvartað var yfir innviðaráðuneytinu og framsali valds til úrskurðarnefndar velferðarmála. Farið hafði verið fram á að ráðuneytið legði fyrir nefndina að taka kæru á ákvörðun um húsnæðisbætur til efnislegrar meðferðar en því verið hafnað með vísan til þess að úrskurðir og ákvarðanir nefndarinnar yrðu ekki bornar undir ráðuneytið.  

Þar sem kvörtunin beindist fyrst og fremst að almennu fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið afstöðu til með lögum voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. júlí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 6. júlí sl. sem beinist að innviðaráðuneytinu og lýtur að framsali valds til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kvörtuninni fylgdi bréf ráðuneytisins til yðar 4. júlí sl. sem mun hafa verið sent í tilefni af erindi yðar vegna frávísunar nefndarinnar á kæru á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um húsnæðisbætur. Í bréfinu kemur fram að af erindi yðar verði ráðið að þess sé krafist að lagt verði fyrir nefndina að taka kæru yðar til efnislegrar meðferðar en því sé hafnað með vísan til þess að úrskurðir og ákvarðanir nefndarinnar séu endanlegir á kærustigi og verði ekki bornir undir ráðuneytið, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 75/2016, um húsnæðisbætur. Önnur gögn, s.s. ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í máli yðar og frávísun úrskurðarnefndar velferðarmála fylgdu ekki.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 75/2016 er heimilt að kæra ákvarðanir þess aðila sem annast framkvæmd húsnæðisbóta samkvæmt lögunum, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. lög nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála. Um málsmeðferð hjá nefndinni gilda ákvæði síðarnefndu laganna og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að úrskurðir nefndarinnar séu endanlegir á stjórnsýslustigi og verði ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Af þessu tilefni tek ég fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis getur kvartað af því tilefni til embættisins, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Í 3. gr. laganna er síðan kveðið á um starfssvið umboðsmanns Alþingis. Þar segir í a-lið 4. mgr. að starfs­svið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett.

Eins og ég fæ skilið kvörtun yðar beinist hún fyrst og fremst almennt að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefur tekið afstöðu til með lögum nr. 75/2016. Ég tek fram að þótt umboðsmaður Alþingis hafi sérstaka heimild samkvæmt 11. gr. laga nr. 85/1997 til að fjalla um meinbugi á lögum er ekki gert ráð fyrir því í lögunum að hægt sé að leggja fram kvörtun yfir slíku til umboðsmanns Alþingis. Eru því ekki skilyrði samkvæmt lögum nr. 85/1997 til að ég geti tekið erindi yðar, eins og það er fram sett, til frekari meðferðar sem kvörtun. Ég tel þó rétt að benda yður á að í íslenskum rétti hefur það verið talin stjórnskipunarvenja að löggjafanum sé heimilt að ákveða með lögum að tiltekin starfsemi, t.d. stofnun eða stjórnsýslunefnd, skuli vera sjálfstæð og þar með undanskilin yfirstjórn ráðherra. Slíkt felur í sér frávík frá þeirri meginreglu 14. gr. stjórnarskrár að ráðherrar fari með yfirstjórn stjórnarmálefna en stjórnskipuleg heimild til löggjafar af þessu tagi er nú talin ótvíræð.

Að lokum tel ég rétt að benda á að ef fyrir liggur úrlausn úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar, sem þér teljið að feli í sér rangsleitni í yðar garð, getið þér leitað til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi. Kvörtun skal bera fram innan árs frá því að niðurstaða nefndarinnar lá fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds læt ég ég athugun minni á erindi yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.