Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 12184/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar  um upplýsingamál sem staðfesti ákvörðun Garðabæjar um að synja um aðgang að gögnum um samskipti tiltekinna starfsmanna skóla við Kennarasamband Íslands og Skólastjórafélag Íslands. Vísað var til að í gögnunum væru upplýsingar um viðkomandi og hefðu verið afhentar utanaðkomandi. 

Úrskurður nefndarinnar byggði á að gögnin hefðu líka að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra og að hagsmunir sem mæltu með að halda þeim leyndum vægju þyngra en hagsmunir viðkomandi af að fá gögnin. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. júlí 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 10. maí sl. sem beinist að úrskurðarnefnd um upplýsingamál og lýtur að niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði 28. apríl sl. nr. 1140/2023 í máli ÚNU 22050005. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun sveitarfélagsins Garðabæjar 2. maí 2022 um að synja yður um aðgang að gögnum sem varða samskipti tiltekinna starfsmanna (skóla X) við Kennarasamband Ísland og Skólastjórafélag Íslands. Í kvörtuninni vísið þér m.a. til þess að umræddar upplýsingar séu um yður og hafi verið afhentar utanaðkomandi aðilum. Því geti ekki verið um trúnaðargögn að ræða. Þá teljið þér að nefndin hafi ekki litið til þeirra athugasemda sem þér færðuð fram  við meðferð málsins.

Óskað var eftir afriti af gögnum málsins með bréfi til nefndarinnar 16. júní sl. og bárust þau 30. þess mánaðar.

Beiðni yðar um aðgang að umræddum gögnum er byggð á því að þau hafi að geyma upplýsingar um yður sjálfan og því sé skylt að veita yður aðgang að þeim eftir ósk yðar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurður nefndarinnar er aftur á móti byggður á því að gögnin hafi jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni viðkomandi starfsmanna og að hagsmunir sem mæla með því að þeim sé haldið leyndum vegi þyngra en hagsmunir yðar af aðgangi að þeim, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar. Um það segir eftirfarandi í úrskurðinum:

Í skjalinu koma fram lýsingar starfsmannanna á persónulegri upplifun þeirra úr starfi sínu sem verða að teljast viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni starfsmannanna eða eftir atvikum upplýsingar um málefni starfsmanna sem eru undanþegin upplýsingarétti kæranda, sbr. 1. tölul. 2. [mgr.] 14. gr. upplýsingalaga. Eins og atvikum málsins er háttað er það mat úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir starfsmannanna af því að ekki sé heimilaður aðgangur að skjalinu vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að því, sbr. ákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Þá kemur aðgangur að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, ekki til álita þar sem umræddar lýsingar starfsmanna koma svo víða fram og eru svo samofnar öðru efni skjalsins að ekki verður með góðu móti skilið þar á milli. Verður því ákvörðun Garðabæjar að synja kæranda um aðgang að skjalinu staðfest.

Með hliðsjón af framangreindu og eftir að hafa kynnt mér umrætt gagn tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að staðfesta ákvörðun Garðabæjar, að virtum þeim sjónarmiðum sem þér hafið fært fram í málinu, enda er ljóst að tilfinningalíf manna nýtur ríkrar verndar, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 9. október 2014 í máli nr. 46/2014. Ég fæ ekki séð að afhending gagnsins til annarra aðila breyti þar neinu um. Ég tel því ekki tilefni til að taka úrskurð nefndarinnar í máli yðar til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.