Almannatryggingar. Ekkjulífeyrir. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda. Umsókn um bætur skilyrði bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.

(Mál nr. 1058/1994)

Máli lokið með áliti, dags. 25. júlí 1994.

A kvartaði yfir því að tryggingaráð hefði með úrskurði synjað um greiðslu ekkjulífeyris lengra aftur í tímann en tvö ár. A varð ekkja 34 ára gömul og fékk greiddar ekkjubætur í 6 mánuði og barnalífeyri og mæðralaun til 53 ára aldurs, er yngsta barn hennar varð 18 ára. Frá þeim tíma liðu 5 ár þar til A sótti um ekkjulífeyri. Taldi A að skýra bæri ákvæði laga um almannatryggingar svo, að greiðsla ekkjulífeyris skyldi hefjast er skilyrði laganna um greiðslu bóta væru uppfyllt, án tillits til þess hvort umsókn hefði borist eða ekki. Með vísan til 55. og 56. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar voru A hins vegar ákveðnar bætur frá og með umsókn hennar, og í tvö ár aftur í tímann.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga um almannatryggingar þar sem fram kemur með hverjum hætti skuli sækja um bótagreiðslur samkvæmt lögunum. Var tekið fram í áliti hans að ákvæði hefðu verið í lögum um tilhögun umsókna allt frá árinu 1946, og að í lögum nr. 50/1946 væri beinlínis tekið fram að sækja skyldi til Tryggingastofnunar um allar bætur. Taldi umboðsmaður það ekki verða ráðið af lögum um almannatryggingar að Tryggingastofnun skyldi hafa frumkvæði að því að A fengi greiddan ekkjulífeyri samkvæmt lögunum eða að stofnunin hefði átt að tilkynna henni um rétt hennar. Var það niðurstaða umboðsmanns að umsókn um bætur hefði verið nauðsynlegt skilyrði þess að bætur yrðu ákveðnar og að úrskurður tryggingaráðs hefði því verið í samræmi við lög.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 17. mars 1994 leitaði til mín A og kvartaði yfir þeim úrskurði tryggingaráðs frá 28. janúar 1994, að hafna beiðni hennar um greiðslu ekkjulífeyris lengra aftur í tímann en tvö ár.

Í úrskurði tryggingaráðs 28. janúar 1994 eru málavextir raktir með þeim hætti, að A hafi misst eiginmann sinn 1969, þá 34 ára. Hafi hún þá fengið ekkjubætur í 6 mánuði og auk þess barnalífeyri og mæðralaun til 53 ára aldurs, er yngsti sonur hennar varð 18 ára. A sótti um ekkjulífeyri 29. september 1993 og fékk greiddan ekkjulífeyri tvö ár aftur í tímann. Í kæru sinni til tryggingaráðs 9. nóvember 1993 lýsti A þeirri skoðun, að óumdeilt væri, að hún hefði átt rétt til ekkjulífeyris a.m.k. frá því að hún varð 53 ára og yngsta barn hennar varð 18 ára. Taldi A, að þannig bæri að skýra 18. og 19. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, sbr. b-lið 3. gr. laga nr. 79/1991, að henni hefði átt að greiða ekkjulífeyri án sérstakrar umsóknar, þegar skilyrðin fyrir greiðslu ekkjulífeyris voru uppfyllt. Yrði ákvæði 56. gr. laga nr. 67/1971 ekki skilið öðruvísi en svo, að áður hefði borið að tilkynna þeim, sem uppfylltu skilyrði um greiðslu ekkjulífeyris, um rétt þeirra til lífeyris. Óskaði A því eftir því, að tryggingaráð tæki til endurskoðunar þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að greiða henni einungis tvö ár aftur í tímann.

Með bréfi tryggingaráðs 18. nóvember 1993 óskaði ráðið eftir greinargerð lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar um málið. Í greinargerð lífeyrisdeildarinnar frá 17. desember 1993 segir meðal annars:

"Spurningin í máli þessu er sú, hver beri ábyrgð á því, að 5 ár liðu frá því, að greiðsla barnalífeyris og mæðralauna féll, þar til [A] sækir um ekkjulífeyri.

Lífeyrisdeildin telur, að [A] verði að bera hallann af því og bera ábyrgð á því, að hún sótti ekki um ekkjulífeyri. Hún hafði, sem viðskiptavinur Tryggingastofnunar, kynnt sér reglur um ekkjubætur, þegar hún varð ekkja 1969. Hún hlaut því að vita það, að þegar greiðslur stöðvuðust til hennar árið 1978, kynni hún að eiga rétt á ekkjulífeyri.

[A] hefur því sýnt tómlæti um réttindi sín. Tryggingastofnun ríkisins hefur ekki aðstöðu til að leita uppi fólk, varðandi allan bótarétt eða kanna aðstöðu fólks, sem ekki sækir um bætur. [A] hefði t.d. getað gifst á tímabilinu og þar með útilokast frá rétti til ekkjulífeyris.

Það er grundvallarregla, að sækja þarf um allar bætur. Viðskiptavinir lífeyrisdeildarinnar skipta tugum þúsunda. Upplýsingadeild kynnir rétt manna með auglýsingum á allan hátt. Spurningin er því sú, hve langt stofnunin getur gengið í kynningum og upplýsingastarfsemi sinni.

Niðurstaða lífeyrisdeildarinnar er sú, að [A] verði að bera hallann af þessu enda lét hún 5 ár líða, frá því að bótagreiðslur hennar féllu niður, þar til hún sótti um ekkjulífeyri."

Í úrskurði tryggingaráðs 28. janúar 1994 segir síðan:

"Upplýsingaskylda hvílir á Tryggingastofnun ríkisins. Svo virðist sem upplýsingar hafi e.t.v. ekki skilað sér hér. Það breytir þó ekki stöðu máls. Til þess að ekkjulífeyrir skv. 19. gr. laga nr. 67/1971 greiðist þarf að liggja fyrir umsókn sbr. 55. gr. s.l. Um bætur verður að sækja til þess að greiðsla eigi sér stað.

Í máli því sem hér er til úrlausnar lá fyrst fyrir umsókn hinn 29. september 1993. Skv. 56. gr. l. nr. 76/1971 skal ekkjulífeyrir aldrei úrskurðaður lengra aftur í tímann en tvö ár. Ekkjulífeyrir var því greiddur frá og með 01.09.1991, þ.e. reiknaður frá þeim tíma, þegar umsókn lá fyrir. Heimild til greiðslu lengra aftur í tímann er ekki fyrir hendi.

Því úrskurðast:

ÚRSKURÐARORÐ:

Beiðni [A] um greiðslu ekkjulífeyris lengra aftur í tímann en tvö ár er hafnað."

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Með tilvísun til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis óskaði ég eftir því með bréfi, dags. 28. mars 1994, að tryggingaráð skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Gögn málsins bárust mér með bréfi tryggingaráðs 12. apríl 1994. Á fundi, er ég átti með lögfræðingi tryggingaráðs á skrifstofu minni 25. apríl 1994, kom fram, að tryggingaráð teldi að viðhorf þess til kvörtunar A kæmu nægilega fram í úrskurði þess frá 28. janúar 1994.

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Niðurstöður álits míns, dags. 25. júlí 1994, voru svohljóðandi:

"1.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar segir, að sá, sem á lögheimili hér á landi og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs, eigi rétt á bótum sex mánuði eftir lát maka. Þá segir í 1. og 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971:

"Þegar niður falla bætur samkvæmt 17. gr., á hver sú kona, sem lögheimili á hér á landi og orðin var 50 ára við lát mannsins rétt á ekkjulífeyri til 67 ára aldurs, enda hafi hún átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin, áður en umsókn er lögð fram, eða hinn látni hafði átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin, áður en hann lést.

Ákvæði 1. mgr. skulu, eftir því sem við getur átt einnig gilda um ekkjur, fráskildar konur og ógiftar mæður, ef þær eru orðnar 50 ára, þegar þær hætta að taka barnalífeyri eða meðlög."

Kvörtun A lýtur að því, hvort greiða hafi átt henni ekkjulífeyri frá þeim tíma, er hún uppfyllti skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 67/1971. Samkvæmt gögnum málsins verður við það að miða, að A hafi sótt um greiðslu ekkjulífeyris með umsókn sinni 29. september 1993 eða rétt rúmum fimm árum eftir að greiðslu barnalífeyris og mæðralauna lauk. Í 1. málslið 1. mgr. 56. gr. laga nr. 67/1991 er tekið fram, að allar umsóknir skuli "... úrskurðaðar svo fljótt sem kostur er á, og skulu bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hefur uppfyllt skilyrðin til bótanna". Í 2. mgr. sama lagaákvæðis segir síðan, að bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkratryggingar, skuli "...aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en 2 ár". Í kvörtun sinni heldur A því fram, að Tryggingastofnun ríkisins hafi borið, án þess að hún legði fram sérstaka umsókn, að sjá til þess að hún fengi upplýsingar um rétt sinn, er greiðslu barnalífeyris og mæðralauna lauk.

2.

Tekið er fram í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 67/1971, að umsóknir um bætur skuli "... ritaðar á eyðublöð, er Tryggingastofnunin lætur gera". Í 2. mgr. ákvæðisins segir, að umsækjendum sé skylt að láta af hendi nauðsynlegar upplýsingar og gögn, "...svo hægt sé að úrskurða bætur eða endurskoða bótarétt". Loks er í 4. mgr. sama ákvæðis mælt fyrir, að starfsfólk Tryggingastofnunar skuli "... kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega, og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkv. lögum þessum, reglugerðum og starfsreglum..." Fyrirmæli, efnislega samhljóða 1. mgr. 55. gr. laga nr. 67/1971, hafa verið í eldri lögum um almannatryggingar. Er ákvæðið fyrst að finna í 60. gr. laga nr. 50/1946, en þar segir:

"Sækja skal til Tryggingastofnunarinnar um allar bætur. Umsóknir séu ritaðar á sérstök eyðublöð...

Umsækjendum er skylt að svara öllum spurningum og gefa allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að úrskurða bætur."

Á grundvelli þess, sem að framan hefur verið rakið, er það álit mitt, að fallast verði á þá niðurstöðu tryggingaráðs, að umsókn frá A hafi verið nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að hún fengi ekkjulífeyri greiddan. Ekki verður ráðið af almannatryggingalögum, að Tryggingastofnun ríkisins hafi átt að hafa frumkvæði að því, að A fengi greiddan umræddan ekkjulífeyri, er greiðslu barnalífeyris og mæðralauna lauk, eða að stofnunin hafi átt að tilkynna henni um rétt hennar. Verður því að líta svo á, að úrskurður tryggingaráðs frá 28. janúar 1994 hafi verið í samræmi við lög."