Heilbrigðismál. Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 12248/2023)

Kvartað var yfir vinnubrögðum lögreglu og fordómum í garð þeirra sem nota THC og CBD efni og að heilbrigðisráðherra hafi ekki skilgreint neysluskammt fíkniefna.  

Þar sem erindið hafði ekki verið borið undir nefnd um eftirlit með lögreglu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt málsins. Viðvíkjandi heilbrigðisráðherra þá laut umkvörtunarefnið að pólitískri stefnumótun og því utan starfssviðs umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. júlí 2023.

  

   

I

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis 16. júní sl. vegna vinnubragða lögreglu og fordóma í garð þeirra sem nota THC og CBD. Kvörtunin beinist jafnframt að því að heilbrigðisráðherra hafi ekki skilgreint neysluskammt fíkniefna. Í kvörtuninni er m.a. rakið atvik þar sem lögregla hafði afskipti af yður í íbúð yðar vegna tilkynningar um kannabislykt.

  

II

Í 35. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996 er fjallað um hlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu, en meðal hlutverka hennar samkvæmt b-lið 1. mgr. lagagreinarinnar er að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Í 2. og 3. mgr. lagagreinarinnar segir að nefndin skuli taka rökstudda afstöðu til hinnar ætluðu aðfinnsluverðu starfsaðferðar eða framkomu og senda viðeigandi embætti kvörtun til frekari meðferðar ef tilefni er til. Nefndin skuli fylgjast með meðferð viðkomandi embættis á erindum sem stafa frá henni og embætti sem fá til meðferðar kvartanir sem heyra undir nefndina skulu tilkynna henni um niðurstöður þeirra. Nefndin skuli einnig senda viðeigandi embætti eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum athugasemdir sínar við afgreiðslu einstakra mála eða tilmæli um aðrar aðgerðir ef henni þykir tilefni til.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar. 

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til nefndar um eftirlit með lögreglu með athugasemdir yðar. Lagaskilyrði brestur því til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu. Ef þér kjósið að leita til nefndarinnar en teljið yður en beittan rangsleitni að lokinni framangreindri málsmeðferð er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

III

Viðvíkjandi athugasemdir yðar við að heilbrigðisráðherra hafi ekki skilgreint neysluskammta fíkniefna tek ég fram að ljóst er að þær eru settar fram í samhengi við umræðu viðvíkjandi laga- og reglusetningu um afnám refsingar vegna vörslu á neysluskömmtum.

Það leiðir af stjórnarskrá og þeim hefðum sem fylgt hefur verið hér á landi að verkefni ráðherra er annars vegar að móta stefnu og leggja fram tillögur um hvernig bregðast skuli við þeim aðstæðum sem upp koma í þjóðfélaginu. Hins vegar fara þeir með framkvæmdarvald og koma þannig fram sem æðstu handhafar stjórnsýslu þeirra ráðuneyta sem þeir fara með.

Lögbundið hlutverk umboðs­manns Alþingis er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga með þeim hætti sem nánar er fjallað um í lögum nr. 85/1997, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í samræmi við það fellur það utan við hlutverk hans að lögum að taka afstöðu til athafna ráðherra sem einungis verða taldar liður í stjórnmálastarfi hans eða störfum á Alþingi. Erindi yðar lýtur að pólitískri stefnumótun heilbrigðisráðherra og hugsanlegum breytingum á lögum og reglum í þeim efnum. Þetta atriði í kvörtun yðar fellur því utan starfssviðs umboðsmanns.

  

IV

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.