Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Barnaverndarmál.

(Mál nr. 12286/2023)

Kvartað var yfir fyrirhuguðum afgreiðslutíma Reykjanesbæjar á beiðni um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli.  

Í svari sveitarfélagsins kom fram að tiltekin gögn hefðu verið afhent og leiðbeint um kæruleiðir vegna takmörkunar á aðgangi. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. júlí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 6. júlí sl. sem beinist að Reykjanesbæ og lýtur að fyrirhuguðum afgreiðslutíma á beiðni sem þér lögðuð fram hjá sveitarfélaginu 2. júní sl. um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli sem varðar uppkomna dóttur yður. Í kvörtuninni kemur fram að yður hafi verið tjáð að afhending gagnanna gæti ekki farið fram fyrr en eftir tvo mánuði. Jafnframt gerið þér athugasemdir við takmarkanir á aðgengi yðar að gögnunum.

Í tilefni af kvörtun yðar var Reykjanesbæ ritað bréf 10. júlí sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort beiðni yðar væri til meðferðar hjá sveitarfélaginu og þá hvort rétt væri að yður hefði verið tjáð að gögnin fengjust ekki afhent fyrr en að liðnum tveimur mánuðum frá beiðninni. Væri það rétt var einnig óskað eftir upplýsingum um ástæður þess. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort yður hefði verið synjað um aðgang að gögnum í heild eða hluta síðastliðið ár frá móttöku kvörtunarinnar.

Mér hafa nú borist svör Reykjanesbæjar með bréfi 25. júlí sl. sem fylgir hjálagt í ljósriti. Þar er gerð grein fyrir samskiptum starfsmanns sveitarfélagsins við yður auk þess sem fram kemur að þér hafið fengið tiltekin gögn afhent 24. júlí sl. en verið leiðbeint um kæruleiðir vegna takmörkunar á aðgangi að gögnunum. Svörunum fylgdi afrit af staðfestingu yðar á móttöku gagna.

Þar sem kvörtun yðar laut einkum að fyrirhuguðum afgreiðslutíma á erindi yðar, sem þér tölduð úr hófi, og þar sem þér hafið nú fengið afhent þau gögn sem sveitarfélagið telur sér heimilt að afhenda yður tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Ég tek þó fram að ef þér farið þá leið að bera ákvörðun Reykjanesbæjar um að takmarka aðgang yðar að gögnum málsins undir æðra stjórnvald getið þér leitað til mín að nýju ef þér teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess. Í því sambandi minni ég þó á niðurstöður umboðsmanns í eldri málum yðar af sama toga.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.