Almannatryggingar. Örorkustyrkur.

(Mál nr. 12298/2023)

Kvartað var yfir Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála vegna synjunar um greiðslu viðbótar við örorkustyrk.  

Þar sem kvörtunin laut að ákvörðun Tryggingastofnunar sem hafði verið staðfest af nefndinni snemma árs 2021 barst hún utan þess ársfrests sem áskilinn er til að kvarta til umboðsmanns.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. júlí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 13. júlí sl. f.h. A sem beinist að Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála og lýtur að því að A hafi verið synjað um greiðslu viðbótar við örorkustyrk.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórn­sýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Kvörtun yðar lýtur samkvæmt framangreindu að ákvörðun Tryggingastofnunar sem staðfest var með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 16. febrúar 2021. Ég fæ því ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt.

Í kvörtun yðar kemur raunar fram að yður sé ljóst að kvörtunin sé lögð fram utan framangreinds frests en að sú stjórnsýsluframkvæmd sem athugasemdir yðar beinast að sé enn viðhöfð. Ég lít því svo á að í erindi yðar felist jafnframt ábending um að taka stjórnsýslu Tryggingastofnunar til almennrar athugunar að þessu leyti á grundvelli þeirrar heimildar sem umboðsmanni er fengin með 5. gr. laga nr. 85/1997.

Af framangreindu tilefni tek ég fram að þegar umboðsmanni berast ábendingar á borð við þær, sem þér færið fram í kvörtun yðar, eru þær yfirfarnar með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka þau atriði sem koma fram í þeim til sérstakrar athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns. Við mat á því hvort téð heimild umboðsmanns er nýtt er m.a. litið til starfssviðs og áherslna embættisins, hagsmuna er tengjast umræddu málefni, svo og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefni tekið til athugunar er sá sem hefur komið ábendingu á framfæri að jafnaði ekki upplýstur sérstaklega um það heldur er tilkynnt um athugunina á vef embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtunar yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.