Samningar. Endurskoðendur.

(Mál nr. 12301/2023)

Kvartað var yfir endurskoðendaskrifstofu og uppsögn á þjónustusamningi.  

Þar sem skrifstofan er einkaréttarlegur aðili féll það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. júlí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A sem beinist að endurskoðendaskrifstofunni B og lýtur að uppsögn á þjónustusamningi og kostnaði sem félagið varð fyrir í tengslum við það. 

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórn­sýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af 3. gr. sömu laga leiðir að starfssvið umboðs­manns nær einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993, svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir, eða falla undir 3. mgr. 3. gr.

Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er að B er einkahlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 138/1994, um einka­hluta­félög. Félagið telst því einkaréttarlegur aðili og fellur sem slíkur að jafnaði utan starfssviðs umboðsmanns í samræmi við ofangreind ákvæði laga nr. 85/1997. Sú háttsemi sem kvörtun yðar beinist að felur ekki í sér stjórnsýslu í ofangreindum skilningi enda er ekki í henni fólgin beiting opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunar­taka á þeim grundvelli. Það fellur því utan starfssviðs míns að fjalla um þá starfsemi félagsins sem kvörtun yðar lýtur að.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið.