Áfengismál. Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 12308/2023)

Kvartað var yfir að opinberir aðilar aðhafist ekki vegna smásölu einkaaðila á tollafgreiddu áfengi einstaklinga.  

Þar sem kvörtunarnefnið snerti ekki hagsmuni viðkomandi umfram aðra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. júlí 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 18. júlí sl. sem lýtur að því að þar til bærir opinberir aðilar aðhafist ekki vegna smásölu einkaaðila á tollafgreiddu áfengi til einstaklinga.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Umboðsmanni Alþingis er þannig ætlað að hafa eftirlit með því að borgararnir fái notið þeirra efnislegu réttinda sem löggjafinn hefur kveðið á um og meðferð mála þeirra sé í samræmi við lög.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis getur kvartað af því tilefni til hans, sbr. 2. mgr. 4. gr. fyrrnefndra laga. Af þessu leiðir að kvörtun til umboðsmanns Alþingis að lúta að tilteknum athöfnum eða ákvörðunum stjórnvalda sem beinast að þeim sem leggur fram kvörtun eða snerta beinlínis lögverndaða hagsmuni hans eða réttindi.

Af kvörtun yðar, eins og hún er sett fram, verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sm snertir hagsmuni yðar umfram aðra. Brestur því lagaskilyrði til að hún verði tekin til frekari meðferðar. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er athugun á henni því lokið.