Samgöngumál. Skráning bifreiða.

(Mál nr. 12064/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð og niðurstöðu innviðaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Samgöngustofu að synja um forskráningu tveggja fólksbifreiða sem fluttar voru inn frá Kína.  

Afgreiðsla Samgöngustofu byggðist m.a. á að ekki hefðu fylgt fullnægjandi frumrit upprunavottorða eða samræmingarvottorð og taldi umboðsamaður ekki efni til að gera athugsemd við niðurstöðu stjórnvaldanna. Samgöngustofa hefði sinnt rannsóknarskyldu sinni og ekki væri ástæða til aðgerða.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 22. febrúar sl., sem lýtur að málsmeðferð og niðurstöðu úrskurðar innviðaráðu­neytisins í máli yðar nr. IRN22040139, dags. 28. september 2022. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Samgöngustofu frá 25. mars sama árs um að synja yður um forskráningu tveggja fólksbifreiða. Af gögnum málsins verður ráðið að þér hafið flutt umræddar bifreiðar til landsins frá Kína en vegna framangreindrar synjunar um forskráningu getið þér ekki tekið þær til notkunar.

  

II

Niðurstaða Samgöngustofu í málinu byggðist m.a. á því að með umsókn yðar um forskráningu ökutækjanna hefðu ekki fylgt fullnægjandi frumrit upprunavottorða eða samræmingarvottorð eins og skylt væri samkvæmt 03.04(4) gr. reglugerðar nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum. Nánar tiltekið bæru vottorðin sem fylgdu umsókn yðar ekki með sér að hafa verið gefin út af EES-ríki þar sem gerðarviðurkenningarnúmer á vottorðinu samrýmdist ekki númerakerfi fyrir ESB-gerðarviðurkenningarvottorð. Auk þess væri vísað til þess að ökutækin fullnægðu kröfum reglugerðar ESB nr. 168/2013, um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og fjórhólum, en féllu ekki undir þá reglugerð, og að ekki kæmi fram um hvers konar ökutæki væri að ræða.

Í úrskurði innviðaráðuneytisins 28. september 2022 er tekið undir þessi sjónarmið Samgöngu­stofu og niðurstaða hennar staðfest. Einnig var vísað til þess að ekki virtist vera neinni gerðarviðurkenningu til að dreifa fyrir umrædda tegund bifreiða í Evrópu.

  

III

Í tilefni af kvörtun yðar var innviðaráðuneytinu ritað bréf 28. febrúar sl. þar sem óskað var eftir afriti af öllum gögnum málsins. Gögnin bárust umboðsmanni 3. mars sl. Með bréfi 27. mars sl. var þess því næst óskað að innviðaráðuneytið veitti umboðsmanni upplýsingar og skýringar á nánar tilgreindum atriðum. Þar sem þér fenguð afrit þessara bréfaskipta tel ég óþarft að gera grein fyrir þeim að öðru leyti en á eftir greinir.

Svör ráðuneytisins bárust umboðsmanni með bréfi 19. maí sl. Þar kemur m.a. fram að gerðarviðurkenning geti ekki komið í stað frumrits upprunavottorðs eða samræmingarvottorðs þar sem hún sé aðeins staðfesting þess að tiltekin gerð ökutækja samræmist kröfum innan EES-ríkja eða ákveðins ríkis. Án samræmingarvottorðs framleiðanda eða vottorðs viðurkenndrar tækniþjónustu liggi ekki fyrir að ökutækið, sem skráningarviðurkenningar hafi verið óskað fyrir, sé ekki í grundvallaratriðum frábrugðið þeirri gerð ökutækja sem þegar hafi hlotið viðurkenningu. Ekki sé því unnt að viðurkenna nýtt ökutæki til skráningar án frumrits upprunavottorðs eða samræmingarvottorðs.

Einnig kemur fram að eftir að Samgöngustofu berst umsókn um forskráningu ökutækja séu meðfylgjandi gögn skoðuð. Í tilfelli yðar hafi þau ekki borið með sér að ökutækin hafi hlotið viðurkenningu innan EES. Ásamt því leiti Samgöngustofa í þeim skráningargrunnum og skráningarviðurkenningargrunnum sem stofnunin hafi aðgang að. Í ljósi þeirrar skoðunar hafi ekki fengist séð að ökutæki sömu gerðar hafi áður verið viðurkennd eða skráð innan EES-ríkis. Af því hafi verið dregin sú ályktun að gerðarviðurkenningu virtist ekki til að dreifa. Þó skuli tekið fram að á grundvelli fullnægjandi gagna geti Samgöngustofa framkvæmt ýtarlegri skoðun, ásamt því að ekki séu aðgengilegar upplýsingar frá öllum EES-ríkjum í þeim gagnagrunnum sem stofnunin hafi aðgang að.

  

IV

Í a-lið 4. mgr. 69. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 segir að ráðherra skuli setja reglugerð sem fjalli m.a. um kröfur á grundvelli heildargerðarviðurkenningar ökutækis varðandi gerð, búnað og íhluti þess til að tryggja að einungis séu sett á markað ökutæki hér á landi sem uppfylla kröfur um öryggi og um verndun umhverfis. Á grundvelli ákvæðisins hefur innviðaráðherra sett reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum. Í 26. gr. reglugerðarinnar kemur fram að hún sé sett til innleiðingar á gerðum I. og II. kafla II. viðauka og 17. töluliðar XIII. viðauka við EES-samninginn, eins og tilgreint sé í viðauka IV reglugerðarinnar. 

Um skráningarviðurkenningu nýrra ökutækja er fjallað í grein 03.04 reglugerðar nr. 822/2004, með síðari breytingum. Samkvæmt lið (2) í greininni skal sækja um skráningarviðurkenningu til Samgöngustofu eða aðila í umboði hennar, sem meta skal hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu séu fullnægjandi. Í 03.04(4) gr. reglugerðarinnar er kveðið á um þau gögn sem fylgja skulu umsókn um skráningarviðurkenningu nýrra ökutækja og er í a-lið hennar gerð krafa um frumrit upprunavottorðs frá framleiðanda ökutækisins. Samkvæmt framangreindri ákvörðun Samgöngustofu eru samræmingarvottorð einnig tekin gild við forskráningu ökutækja hérlendis, þ.e. skjöl sem tilgreind eru í IX. viðauka tilskipunar 2007/46/EB, gefin út af framleiðanda og votta að ökutæki úr framleiðsluröð af gerð sem hefur verið viðurkennd í samræmi við tilskipun 2007/46/EB uppfylli allar kröfur stjórnvaldsfyrirmæla á framleiðslutíma, sbr. 03.00(1) gr. reglugerðar nr. 822/2004.

Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að við mat á því hvort ökutækin sem þér fluttuð inn fullnægi kröfum til skráningar­viðurkenningar hafi Samgöngustofu borið að meta þau gögn sem þér lögðuð fram með umsókn yðar og hvort þau fullnægðu kröfum sem settar eru fram í ákvæði 03.04(4)reglugerðarinnar. Ég fæ jafnframt ráðið að Samgöngustofa hafi lagt mat á efni téðra vottorða og komist að þeirri niðurstöðu að þau gerðarviðurkenninganúmer sem þar komi fram fullnægi ekki kröfu framkvæmdarreglugerðar nr. 901/2014 til forms slíkra númera. Þar með hafi ökutækin ekki uppfyllt kröfur til skráningarviðurkenningar. Innviðaráðuneytið hafi í úrskurði sínum tekið undir það mat.

Eftir að hafa farið yfir kvörtun yðar og gögn málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við að ráðuneytið hafi tekið undir mat Samgöngustofu. Ég hef þá í huga að gerð er skýr krafa í reglugerðinni um frumrit upprunavottorðs frá framleiðanda ökutækis, eða samræmingarvottorð samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu, og fyrir liggur að númer gerðarviðurkenninganna í samræmingarvottorðum þeim sem fylgdu umsókn yðar uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til samræmingarvottorða.

Þá verður ekki annað ráðið af framangreindum svörum ráðuneytisins og gögnum málsins en að Samgöngustofa hafi litið til sjónarmiða yðar um að sams konar ökutæki væru þegar á markaði í Evrópu og kannað hvort ökutæki sömu gerðar hefðu áður verið viðurkennd eða skráð innan EES-ríkis. Í því samhengi hefur ráðuneytið jafnframt bent á að á grundvelli fullnægjandi gagna sé unnt að framkvæma ýtarlegri skoðun hvað þetta varðar. Tel ég því að Samgöngustofa hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvað þennan þátt málsins varðar.

Með vísan til framangreinds tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að staðfesta ákvörðun Samgöngustofu um að synja umsókn yðar um forskráningu á umræddum ökutækjum.

Að því er varðar þann hluta kvörtunar yðar sem snýr að því að ekki sé talið mögulegt að veita tækniþjónustu til öflunar fullnægjandi vottorða hérlendis tek ég fram að samkvæmt 03.00(1) gr. reglugerðar nr. 822/2004 er tækniþjónusta stofnun eða aðili sem er tilnefndur sem prófunarstofa til að annast prófanir eða sem samræmismatsaðili fyrir hönd viðurkenningaryfirvalds, eða viðurkenningaryfirvald, ef það á við. Ég fé ekki séð að í lögum sé gerð krafa til þess að viðurkennd tækniþjónusta sé til staðar í hverju EES-ríki. Með hliðsjón af því og atvikum að öðru leyti tel ég ekki tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu að því er þetta atriði varðar.

  

V

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.