Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Húsnæðismál. Húsaleiga.

(Mál nr. 12080/2023)

Kvartað var yfir gjöldum sem Félagsbústaðir lögðu á í tengslum við milliflutning.  

Þar sem Félagsbústaðir eru hlutafélag og því einkaréttarlegur aðili voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um ágreining um greiðslu á húsaleigu og milliflutningsgjald. Var viðkomandi bent á að hugsanlega gæti hann leitað til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna þessa.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 6. mars sl. yfir gjöldum sem lögð voru á yður af hálfu Félagsbústaða hf. að fjárhæð 18.580 kr. í tengslum við milliflutning sem samþykktur var 18. janúar sl. af Reykjavíkurborg. Í greiðsluseðli sem fylgdi kvörtun yðar var gjaldið merkt sem „Milliflutningsgjald/Daggjald“. Fyrir liggur að Félagsbústaðir ehf. hafi boðist til að fella niður daggjöld að fjárhæð 8.580 kr. vegna veðuraðstæðna við flutning yðar á milli íbúða.

Í tilefni af kvörtun yðar var Reykjavíkurborg ritað bréf 11. apríl sl. þar sem þess var óskað að embættinu yrðu látnar í té frekari upplýsingar um eðli umræddra gjalda og á hvaða grundvelli þau væru innheimt. Svarbréf barst frá Reykjavíkurborg 2. júní sl. en með því fylgdi bréf Félagsbústaða hf. til Reykjavíkurborgar 1. júní sl.

Í bréfi Félagsbústaða hf., sem fylgir hjálagt í ljósriti, kemur fram að milliflutningsgjald skiptist í einskiptisgjald að fjárhæð 10.000 kr. og daggjald að fjárhæð 2.860 kr. fyrir hvern dag sem leigjandi er með fyrri íbúð og þar til henni er skilað. Einskiptisgjaldið sé skráningar- og umsýslugjald vegna vinnu í tengslum við flutning á milli íbúða og gerð nýs leigusamnings. Gjaldtakan byggist á 4. mgr. 19. gr. laga nr. 52/2016, um almennar íbúðir, sem kveði á um að eigandi almennrar íbúðar geti krafist skráningargjalds vegna kostnaðar við skráningu umsækjenda um almennar íbúðir. Þá segir í bréfinu að daggjöld reiknist frá öðrum degi og komi í stað þess að leigutaki greiði fyrir umráð tveggja íbúða á sama tíma. Um sé að ræða gjöld sem ætlað er að mæta kostnaði við móttöku og skráningu nýs leigusamnings sem og ætlað að vera hvetjandi og ívilnandi fyrir leigutaka að afhenda eldri íbúðir á umsömdum tíma.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað og nær það einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða falla undir 3. mgr. 3. gr. Að öðru leyti tekur starfssvið umboðsmanns ekki til einkaaðila.

Félagsbústaðir hf. eru hlutafélag og telst því til einkaréttarlegs aðila. Um samskipti félagsins og leigjenda fer samkvæmt ákvæðum leigusamnings, húsaleigulaga, laga um fjöleignarhús og annarra viðeigandi laga, svo sem um almennar íbúðir. Þótt Reykjavíkurborg hafi falið félaginu að annast útleigu félagslegra leiguíbúða og þar með rækja sum þeirra verkefna sem annars myndu hvíla á herðum sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, leiðir það ekki til þess að aðrir þættir í starfsemi félagsins, sem ekki teljast til stjórnsýslu í efnismerkingu, s.s. ágreiningur sem lýtur að greiðslu á húsaleigu eða gjaldi vegna milliflutnings, heyri undir eftirlit umboðsmanns.

Samkvæmt því sem að framan er rakið beinist kvörtun yðar að athöfn einkaréttarlegs aðila sem felur ekki í sér stjórnsýslu í skilningi 3. gr. laga nr. 85/1997 enda er ekki í henni fólgin beiting opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörðunartaka á þeim grundvelli. Þar breytir eignarhald félagsins engu. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um ágreining yðar við Félagsbústaði hf. um greiðslu milliflutningsgjalds og daggjalds. Öðru máli kynni hins vegar að gegna hefði ágreiningurinn leitt til riftunar eða uppsagnar á húsaleigusamningi þannig umrædd þjónusta stæði yður ekki lengur til boða, sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 13. júní 2016 í máli nr. 5544/2008. Ég bendi yður aftur á móti á að samkvæmt 23. gr. laga nr. 52/2016 hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eftirlit með eigendum almennra íbúða, þ.m.t. með almennum íbúðum í eigu sveitarfélaga. Ef Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur að rekstur almennra íbúða sé ekki í samræmi við ákvæði laganna getur stofnunin beint tilmælum um úrbætur til eiganda íbúðanna og er honum þá skylt að hlíta þeim tilmælum, sbr. 4. mgr. fyrrgreindar lagagreinar. Þótt í lögunum sé ekki sérstaklega gert ráð fyrir að stofnunin taki til meðferðar kvartanir einstaklinga vegna aðila sem falla undir eftirlit hennar getið þér því freistað þess að koma athugasemdum yðar á framfæri við stofnunin sem kann þá eftir atvikum að taka til skoðunar hvort ástæða sé til að aðhafast af því tilefni á grundvelli lögbundinna valdheimilda sinna. Ég tek fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hver viðbrögð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ættu að vera við erindi frá yður. 

Með vísan til alls framangreinds lýk ég hér með umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.