Fullnusta refsinga. Reynslulausn. Samfélagsþjónusta.

(Mál nr. 12175/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð Fangelsismálastofnunar. Annars vegar ákvörðun um að synja umsóknum um reynslulausn og afplánun á áfangaheimili og að hins vegar hefði ekki gefist færi á að afplána fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu.  

Í ljósi þess að meira en ár var liðið frá umsóknum um reynslulausn og afplánun á áfangaheimili var synjað voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þennan þátt kvörtunarinnar. Hvað samfélagsþjónustuna snerti hafði sá liður ekki verið borinn undir fangelsisyfirvöld og þannig fengin afstaða æðri stjórnvalda. Því voru ekki heldur skilyrði til að fjalla um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 4. maí sl. yfir málsmeðferð Fangelsismálastofnunar ríkisins. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti annars vegar að ákvörðunum stofnunarinnar um að synja umsóknum yðar um reynslulausn og ljúka afplánun á áfangaheimilinu Vernd meðan á afplánun yðar stóð á árunum 2021 til 2022 en hins vegar að yður hafi ekki gefist færi á að afplána fangelsisrefsingu, sem þér sætið nú, með samfélagsþjónustu. 

Þar sem kvörtun yðar fylgdu engin gögn var Fangelsismálastofnun ritað bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum og gögnum sem gætu varpað ljósi á stöðu mála yðar. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni sóttuð þér tvívegis um reynslulausn eftir helming refsitímans meðan þér afplánuðuð fangelsisrefsingu á tímabilinu 16. desember 2021 til 12. september 2022 og var báðum umsóknunum synjað þann 10. mars 2022. Meðan á sömu afplánun stóð sóttuð þér jafnframt í tvígang um að ljúka afplánun á áfangaheimilinu Vernd og var fyrri umsókninni synjað þann 27. desember 2021 og síðari umsókninni þann 2. febrúar 2022.

  

II

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um skilyrði þess að umboðsmaður geti tekið kvörtun til meðferðar. Skal slík kvörtun borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr., og ef unnt er að skjóta máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Ársfrestur hefst þá frá þeim tíma.

Í ljósi þess að meira en ár er liðið frá því að Fangelsismálastofnun synjaði áðurnefndum umsóknum um reynslulausn og afplánun á áfangaheimilinu Vernd, og af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að þér hafið borið þær ákvarðanir undir dómsmálaráðuneytið, brestur lagaskilyrði fyrir að unnt sé að taka þennan þátt kvörtunarinnar til umfjöllunar, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

  

III

Að því er þann hluta kvörtunar yðar varðar, sem lýtur að því að yður hafi ekki gefist færi á að afplána síðari fangelsisrefsinguna með samfélagsþjónustu, fengust þær upplýsingar frá Fangelsismálastofnun að yður hefði borist boðunarbréf frá stofnuninni 28. nóvember 2022 þar sem þér voruð boðaðar í fangelsi að fjórum vikum liðnum frá birtingu bréfsins. Í bréfinu var tekið fram að þér gætuð sótt um að afplána refsinguna með samfélagsþjónustu og slík umsókn þyrfti að berast eigi síðar en viku áður en afplánun ætti að hefjast. Af gögnum málsins má ráða að yður hafi borist annað boðunarbréf þann 30. janúar 2023 þar sem yður var tilkynnt um að stofnunin hefði ákveðið að þér mynduð hefja afplánun þegar í stað vegna ítrekaðra afskipta lögreglu og hófst afplánun yðar strax daginn eftir.

Þar sem ekki varð ráðið af gögnum málsins hvort þér hefðuð sótt um að afplána framangreinda refsingu með samfélagsþjónustu hafði starfsmaður umboðsmanns samband símleiðis við Fangelsismálastofnun til þess að afla frekari vitneskju um þetta atriði. Þær upplýsingar fengust að þér hefðuð hvorki sótt um að afplána refsinguna með samfélagsþjónustu eftir að boðunarbréf frá Fangelsismálastofnun barst yður þann 28. nóvember 2022 né óskað eftir frestun afplánunar á grundvelli 1. mgr. 16. gr. laga um fullnustu refsinga.

Eins og fyrr greinir er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Samkvæmt því sem fram hefur komið hafið þér ekki borið ofangreint umkvörtunarefni yðar undir fangelsisyfirvöld og þannig fengið afstöðu til þess af hálfu hlutaðeigandi stjórnvalda, og þá eftir atvikum af hálfu æðra stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru. Meðan afstaða þessara stjórnvalda liggur ekki fyrir brestur lagaskilyrði til að ég taki kvörtun yðar til frekari meðferðar. Ég tek þó fram að ef þér leitið til ofangreindra stjórnvalda og teljið yðar beitta rangsleitni með niðurstöðu þeirra eigið þér þann kost að leita til mín á ný.

  

IV

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þörf er á nánari útskýringum er bent á að hægt er að hafa samband við embætti umboðsmanns Alþingis í síma 510-6700.