Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Útlendingar .

(Mál nr. 12176/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn um útgáfu ferðaskírteinis.  

Í svörum stofnunarinnar til umboðsmanns kom fram að misbrestur hefði orðið í samskiptum sem bætt yrði úr. Í ljósi þeirra áforma var ekki ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 4. maí sl. sem beinist að Útlendingastofnun og lýtur að töfum á afgreiðslu umsóknar yðar um útgáfu ferðaskírteinis á grundvelli 46. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga.

Í tilefni af kvörtun yðar var Útlendingastofnun ritað bréf 31. maí sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Nú hafa borist svör frá stofnuninni 26. júní sl. þar sem fram kemur að afla hafi þurft afstöðu lögreglu til gagna frá yður um auðkenni og að þér gætuð ekki aflað vegabréfs sem bárust stofnuninni 27. og 28. júní og 13. júlí 2022. Niðurstaða lögreglu hafi borist Útlendingastofnun 16. desember sama árs og lögfræðingur stofnunarinnar hafi talið að óska þyrfti frekari upplýsinga um auðkenni yðar. Fyrir mistök hafi bréf þess efnis hins vegar ekki verið sent þá þegar og yður verði sent slíkt bréf á næstu dögum. Þá kemur einnig fram af hálfu stofnunarinnar að í kjölfar bréfs umboðsmanns hafi komið í ljós að tölvubréf frá yður hafi ekki borist á rétta staði þar sem verklag hafi ekki verið uppfært með fullnægjandi hætti þegar verkefnið hafi verið flutt milli sviða stofnunarinnar á síðasta ári. Brugðist hafi verið við þessu og unnið að breyttu verklagi.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu máls og í ljósi áforma stofnunarinnar um að senda yður bréf um áframhald þess tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni að svo stöddu. Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.