Styrkveitingar. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 12224/2023)

Kvartað var yfir úthlutun Vaxtarstyrks Tækniþróunarsjóðs til verkefnis sem m.a. var stofnað til af opinberum aðilum.  

Þar sem erindið hafði ekki verið borið undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis 5. júní sl. vegna úthlutunar Vaxtarstyrks Tækniþróunarsjóðs til verkefnis í eigu X ses. sem m.a. var stofnað af opinberum aðilum. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni teljið þér að opinberar stofnanir hafi ekki heimild til að sækja um styrk í sjóðinn. Kvörtunin beinist jafnframt að því að yður hafi verið synjað um tiltekin gögn með vísan til þess að umsóknir flokkist sem trúnaðargögn. Þá gerið þér athugsemd við að þér hafið ekki fengið upplýsingar um hverjir sátu stjórnarfundinn þar sem styrkveitingar voru ákveðnar en yður hafi verið tjáð að bæði settur formaður og varaformaður hafi verið fjarverandi. 

Tækniþróunarsjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, sbr. 1. gr. laga nr. 26/2021. Í 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að ráðherra skipi fimm menn í stjórn Tækniþróunarsjóðs samkvæmt tilnefningu og einn án tilnefningar. Þá velur ráðherra jafnframt formann og varaformann sjóðstjórnar úr hópi stjórnarmanna. Hlutverk stjórnar er að ákveða áherslur sjóðsins og tekur stjórnin ákvarðanir um fjárveitingar úr sjóðnum að fengnum umsögnum fagráða sem eru ráðgefandi um fagleg málefni við úthlutanir, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Ákvarðanir sem teknar eru um að veita styrki úr sjóðnum eru endanlegar á stjórnsýslustigi, sbr. 5. mgr. lagagreinarinnar, og sæta þær því ekki kæru til ráðherra. Samkvæmt 5. gr. laganna setur stjórnin jafnframt reglur um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð. Á grundvelli 5. gr. hefur stjórnin sett reglur þar sem m.a. er kveðið á um hverjir geti sótt um Vaxtarstyrk, hvaða gögn flokkist sem trúnaðargögn og matsferli umsókna að öðru leyti.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við þetta sjónarmið hef ég fylgt þeirri starfsvenju að áður en ég tek mál til meðferðar sé rétt að æðra stjórnvald sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði hafi fengið tæki­færi til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að beita þeim heimildum sínum.

Svo sem áður greinir eru ákvarðanir um styrkveitingar endanlegar á stjórnsýslustigi og af þeim sökum er ekki hægt að kæra þær til ráðuneytisins. Þrátt fyrir það tel ég, með hliðsjón af því sem að framan er rakið um hlutverk háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra og þeim sjónarmiðum sem liggja ákvæðum 3. mgr. 6. gr. laga um umboðsmann Alþingis til grundvallar, að rétt sé að þér freistið þess fyrsta kastið að leita til hennar með athugasemdir yðar viðvíkjandi þeim atriðum er kvörtun yðar lýtur að, enda á ráðherra þá eftir atvikum kost á að taka afstöðu til þess hvort erindið heyri undir starfssvið ráðuneytisins og gera þær ráðstafanir sem það telur erindið gefa tilefni til. Ef þér kjósið að leita til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu ráðuneytis hennar er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. 

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.