Fullnusta refsinga. Agaviðurlög. Reynslulausn.

(Mál nr. 12227/2023 og 12245/2023)

Kvartað var vegna afplánunar á refsivist. Nánar tiltekið að ranglega væri skráð í afplánunarbréfi gegn hvaða hegningarlagaákvæði hefði verið brotið, í öðru lagi að viðkomandi væri ósáttur við agaviðurlög sem beitt var og í þriðja lagi vegna beiðni um reynslulausn.

Eftir samskipti við umboðsmann leiðrétti Fangelsismálastofnun skráninguna. Þar sem ekki var ljót hvort ákvörðun um agaviðurlög hefði verið kærð voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það. Þá hafði synjun um reynslulausn verið kærð til dómsmálaráðuneytisins þar sem hún var til meðferðar. Ekki voru því heldur skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann lið kvörtunarinnar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

I

Vísað er til tveggja erinda yðar til umboðsmanns Alþingis sem bárust 6. og 14. júní sl. Í símtali yðar við starfsmann á skrifstofu umboðsmanns 21. júní sl. veittuð þér nánari skýringar á efni þeirra og kom þar fram að í þeim fælist kvörtun vegna þriggja tilgreindra atriða varðandi afplánun yðar á refsivist. Í fyrsta lagi væri ranglega tilgreint á afplánunarbréfi yðar að þér hefðuð gerst brotlegur við ákvæði 218. gr. b í almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Í öðru lagi væruð þér ósáttir við agaviðurlög sem þér voruð beittir í afplánuninni. Í þriðja lagi beindist kvörtun yðar að synjun bið beiðni yðar um reynslulausn.

   

II

Í fyrrgreindu símtali yðar við starfsmann umboðsmanns kom fram að lögmaður yðar hefði óskað eftir leiðréttingu á skráningu brots á afplánunarbréf yðar en ekki fengið svör um langa hríð. Af því tilefni var þess óskað með bréfi 7. júlí sl. að Fangelsismálstofnun veitti upplýsingar um hvort erindi lögmannsins þar að lútandi hefði borist og hvað liði þá meðferð þess og afgreiðslu. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem gætu varpað ljósi á málið.

Umbeðin svör Fangelsismálastofnunar bárust með bréfi 12. júlí og kom þar fram að stofnuninni hefði ekki borist erindi frá lögmanni vegna þess efnis sem þér greinið í kvörtun yðar. Frekari samskipti við Fangelsismálastofnun leiddu þó í ljós að við meðferð dómsmáls, sem lauk með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2022 í máli S-7723/2020, var fallið frá ákærulið sem laut að broti gegn 218. gr. b í lögum nr. 19/1940. Samkvæmt því sem fram kemur í tölvubréfi stofnunarinnar til umboðsmanns 26. júlí sl. hefur skráning hjá henni nú verið leiðrétt til samræmis við það.

   

III

Í 78. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, kemur fram að ákvarðanir um agaviðurlög sæti kæru til dómsmálaráðuneytisins. Skal skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Það skal kveða upp úrskurð innan fjögurra virkra daga frá því að kæra barst, ella fellur hin kærða ákvörðun úr gildi, nema kæra berist eftir að gildistími agaviðurlaga hefur liðið undir lok eða ef agaviðurlög felast í áminningu.

Fjallað er um reynslulausn í VIII. kafla laga nr. 15/2016 og nánar um skilyrði hennar í 80. gr. þeirra. Ákvarðanir um reynslulausn eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins á grundvelli 95. gr. laganna.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreind lagaákvæði er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af því leiðir jafnframt að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Í fyrrgreindu símtali yðar við starfsmann umboðsmanns kom fram að þér hygðust kanna hvort þér hefðuð kært ákvörðun um agaviðurlög, sem kvörtun yðar beinist m.a. að. Þar sem engar frekari upplýsingar eða gögn hafa borist frá yður um það lít ég svo á að þér hafið ákveðið að falla frá þessum hluta kvörtunar yðar.

Einnig kom fram að þér hefðuð þegar kært synjun Fangelsismálastofnunar á beiðni yðar um reynslulausn. Í ljósi þess að það mál er til meðferðar hjá dómsmálaráðuneytinu brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun, að því leyti sem hún beinist að synjun við beiðni yðar um reynslulausn, verði tekin til athugunar að svo stöddu. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á ný kvörtun þar að lútandi.

  

IV

Með vísan til alls framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.