Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 12262/2023)

Félag kvartað var yfir Þjóðleikhúsinu vegna ábendinga og kvartana um starfsmannamál þar.

Eins og erindið var sett fram virtist það fela í sér ósk um að tiltekinn þáttur í starfsemi Þjóðleikhússins yrði tekinn til almennrar athugunar. Þar sem að öllu jöfnu er ekki gert ráð fyrir að málsmeðferð stjórnvalda verði tekin til almennrar athugunar á grundvelli kvörtunar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður aðhefðist frekar. Bent var á að starfsfólk leikhússins sem teldi sig beitt rangsleitni af hálfu þess gæti leitað til umboðsmanns með kvartanir þar að lútandi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 26. júní sl. f.h. A sem beinist að Þjóðleikhúsinu og lýtur að ábendingum og kvörtunum sem félaginu hafa borist um starfsmannamál leikhússins. Tekið er fram að séu lagaskilyrði ekki talin vera fyrir hendi til að taka erindið til meðferðar sem kvörtun sé þess óskað að atriði, sem tilgreind eru í því, verði eftir sem áður tekin til athugunar að frumkvæði umboðsmanns. Viðbótarathugasemdir bárust jafnframt fyrir yðar hönd með tölvubréfi 1. ágúst sl.

Í kvörtun yðar er m.a. vísað til þess að Þjóðleikhúsið ráði leikara í ótímabundin störf án auglýsingar, að tímabundnar ráðningar séu framlengdar úr hófi, auk þess sem athugasemdir eru gerðar við forsendur uppsagna á ráðningarsamningum fastráðinna starfsmanna og tengd atriði og því haldið fram að starfsmönnum sé mismunað, t.d. í tengslum við kröfu um vinnuframlag og launuð eða ólaunuð leyfi.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem starfssvið umboðsmanns tekur til, kvartað af því tilefni til hans. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Í erindi yðar er sérstaklega vísað til málefna tveggja starfsmanna leikhússins en ég legg þó ekki þann skilning í kvörtunina að hún sé borin fram í umboði þeirra. Aðrar athugasemdir yðar eru almenns eðlis. Eftir að hafa kynnt mér erindi yðar, eins og það er sett fram, og þau gögn sem því fylgdu verður því ekki annað ráðið en að í reynd sé þess óskað að tiltekinn þáttur í starfsemi Þjóðleikhússins verði tekinn til almennrar athugunar.

Af ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalda verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar. Þegar umboðsmanni berast slíkar kvartanir eða ábendingar eru þær því yfirfarnar með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka þau atriði sem koma fram í þeim til sérstakrar athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli þeirrar heimildar sem honum er fengin með 5. gr. laga nr. 85/1997.

Við mat á því hvort téð heimild umboðsmanns er nýtt er m.a. litið til starfssviðs og áherslna embættisins, hagsmuna er tengjast umræddu málefni, svo og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefni tekið til athugunar er sá sem hefur komið ábendingu á framfæri að jafnaði ekki upplýstur sérstaklega um það heldur er tilkynnt um athugunina á vef embættisins, www.umbodsmadur.is.

Samkvæmt framangreindu brestur lagaskilyrði til þess að erindi yðar verði tekið til frekari meðferðar sem kvörtun. Ég tek þó fram að þeir starfsmenn Þjóðleikhússins sem telja sig beitta rangsleitni af hálfu þess geta að sjálfsögðu leitað til umboðsmanns með kvartanir þar að lútandi.