Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Húsnæðismál.

(Mál nr. 12263/2023)

Kvartað var yfir viðbrögðum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við erindum.  

Af svörum Reykjavíkurborgar var ljóst að þetta væri í farvegi og unnið að lausn. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 26. júní sl. yfir viðbrögðum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við erindum yðar vegna stöðu yðar á biðlista eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og beiðni yðar um nýjan félagsráðgjafa. Af erindum yðar er jafnframt ljóst að þér eruð ósáttir við að ekki hafi verið ráðin bót á húsnæðisvanda yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Reykjavíkurborg ritað bréf 13. júlí sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um viðbrögð sveitarfélagsins við erindum yðar og afriti af gögnum sem gætu varpað ljósi á þau. Nú hafa borist svör frá Reykjavíkurborg 31. júlí sl. Þar kemur fram að beiðni yðar um nýjan félagsráðgjafa sé til meðferðar. Af þeim er einnig ljóst að brugðist hefur við erindum yðar, m.a. með tölvubréfum 8. og 15. júní sl. og bréfi 13. júlí sl. Í þeim samskiptum hafa yður verið veittar upplýsingar um stöðu á máli yðar og yður leiðbeint um hvernig þér getið fengið þjónustu og nálgast frekari upplýsingar.

Eins og kom fram í bréfi mínu til yðar 30. maí sl. er stutt síðan umsókn yðar um félagslegt húsnæði var samþykkt á biðlista. Ég tel því ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna athugasemda yðar við að yður hafi ekki enn verið úthlutað húsnæði. Af öðru leyti tek ég fram að þegar stjórnvaldi berast fjölmörg erindi sambærilegs eða sama efnis með stuttu millibili, líkt og á við í yðar tilviki, getur eftir atvikum verið heimilt að svara þeim í einu lagi, að gættri málshraðareglu stjórnsýsluréttarins, og þá kann efni svaranna að taka mið af því hvað hefur komið fram í fyrri samskiptum. Að því virtu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum yðar.

Með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni á máli þessu lokið.