Sveitarfélög. Samningar. Orku- og auðlindamál.

(Mál nr. 12265/2023)

Kvartað var yfir sveitarstjórn Þingeyjarsveitar vegna meðferðar og afgreiðslu á erindum.  

Ekki varð betur séð en hagsmunir viðkomandi lytu fyrst og fremst að túlkun fyrirliggjandi samninga og því hlutverk dómstóla, en ekki umboðsmanns, að leysa úr þeim ágreiningi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 27. júní sl. f.h. A sem beinist að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar og lýtur að meðferð og afgreiðslu á erindum félagsins sem varða X hf. Samkvæmt því sem kemur fram í fyrirliggjandi gögnum lúta erindi A einkum að því að [...].

  

II

Í kvörtun yðar til umboðsmanns eru m.a. gerðar athugasemdir við að með ákvörðunum sveitarfélagsins í málinu séu tekjustofnar sveitarfélagsins gefnir eftir, að ekki sé gætt jafnræðis með ívilnunum til X hf. og leynd hafi ríkt um málið. Af því tilefni skal tekið fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis getur kvartað af því tilefni til hans, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Af þessu leiðir að kvörtun til umboðsmanns þarf að lúta að lögvernduðum hagsmunum eða réttindum viðkomandi umfram aðra. Ég fæ ekki séð að þau almennu sjónarmið sem þér rekið í kvörtun yðar séu þess eðlis en bendi yður þó á að ef A telur að málsmeðferð sveitarstjórnar hafi ekki verið í samræmi við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 getur félagið freistað þess að leita með erindi þar að lútandi til innviðaráðherra sem fer með stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum á grundvelli XI. kafla þeirra laga.

   

III

Að öðru leyti en að framan greinir verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að hagsmunir umbjóðanda yðar af málinu lúti fyrst og fremst að túlkun fyrirliggjandi samninga landeigenda við sveitarfélagið, annars vegar fyrrgreinds samnings [...] og hins vegar samnings um [...]. Þá gerið þér athugasemdir við viðbrögð sveitarfélagsins, sem bárust með bréfi undir lok maímánaðar, þar sem framkomnum kröfum A í málinu var hafnað.

Af lögum nr. 85/1997 verður ráðið að þau séu m.a. byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu sé að ræða milli dómstóla og umboðsmanns og að mál geti verið þannig vaxin að eðli­legra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Ég nefni í þessu sambandi c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 þar sem tekið er fram að starfs­svið umboðsmanns taki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórn­valda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þá er í c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna tekið fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dóm­­stóla og eðlilegt sé að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það

Kvörtun yðar er að rekja til ágreinings um túlkun og gildi samninga. Slíkur ágreiningur lýtur a.m.k. að mjög verulegu leyti reglum samningaréttar og eftir atvikum öðrum reglum einkaréttar. Við úrlausn þess ágreinings getur reynst nauðsynlegt að afla ýmissa sönnunargagna til að leiða í ljós forsendur að baki samningum, s.s. framburðar vitna sem að samningsgerð stóðu, og síðan að meta sönnunargildi slíkra gagna. Af hálfu umboðsmanns hefur ekki verið talið rétt að fjalla um slík mál, heldur verði það að vera hlutverk dómstóla. Ég tel að hér sé um að ræða réttarágreining sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr eftir þeim sérstökum reglum sem um það gilda takist aðilum ekki að leysa úr ágreiningi sín á milli með samkomulagi. Af því leiðir jafnframt að ég tel ekki rétt að taka sérstaklega til athugunar rökstuðning sveitarfélagsins fyrir afstöðu sinni til framkominna krafna umbjóðenda yðar.

   

IV

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.