Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Samningar. Skaðabætur.

(Mál nr. 12271/2023)

Kvartað var yfir töfum á svörum frá Vegagerðinni, Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ um tillögu að sátt í máli vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála.  

Samningaviðræður voru yfirstandandi en ágreiningur um umboð sem ekki féll undir hlutverk umboðsmanns að grípa inn í.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 29. júní sl. sem beinist að Vegagerðinni, Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ og lýtur að töfum á svörum við framkominni tillögu að sátt vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 4/2020. Með úrskurðinum felldi nefndin m.a. ákvörðun fyrrgreindra stjórnvalda 24. janúar 2020 um val á þátttakendum í forvali úr gildi og komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að þau væru skaðabótaskyld gagnvart kærendum í málinu, þ. á m. arkitektastofunni X sf., en þér munið hafa komið fram fyrir hönd hennar.

Af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður veitir, að tilteknum lögbundnum skilyrðum fullnægðum, þeim sem þess óskar álit sitt á því, eftirá, hvort stjórnsýsla hafi farið fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og þær siðareglur sem tilgreindar eru í lögunum, sbr. 2., 3., 4. og 6. gr. laganna. Almennt verður mál ekki tekið til með­ferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt.

Þegar umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála eða erinda og fyrir liggur að mál hefur verið til meðferðar í nokkurn tíma og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur almennt, þrátt fyrir áður­nefnda reglu, verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hjá stjórn­valdinu hvað líði afgreiðslu viðkomandi máls. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úr­lausn sinna mála enda hefur reyndin í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur brugðist við og afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvað hafi valdið töfunum og hvenær ráðgert er að afgreiða málið. Í þessum tilvikum lýkur umboðsmaður þá athugun sinni á málinu. Þegar niður­staða liggur ekki fyrir hefur umboðsmaður hins vegar gætt varfærni við að taka afstöðu til þess að hvort tafir sem orðnar eru á tilteknum stjórn­sýslu­málum sem enn eru til meðferðar í stjórnsýslunni séu óeðlilegar eða óréttlættar í skilningi málshraða­reglunnar, þ.e. að afgreiðsla málsins hafi dregist „óhæfilega“ að teknu tilliti til sjónarmiða um atriði eins og umfang og eðli máls og almennt álag í starfsemi við­komandi stjórnvalds.

Samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtun yðar óskaði lögmaður Vegagerðarinnar eftir því 19. maí sl. að þér senduð afrit af umboði yður til handa. Í tölvubréfi lögmannsins til yðar 1. júní sl. kom fram að fyrirliggjandi umboð þætti ekki fullnægjandi og var því jafnframt nánar lýst hvað þyrfti að mati lögmannsins að koma fram í því. Þá kom fram að sáttatillagan væri í skoðun og henni yrði svarað þegar fullnægjandi umboð hefði borist. Í reynd snýst málið því um ágreining um það hvaða heimildir fyrirliggjandi umboð yðar felur í sér í tengslum við samningaviðræður sem enn eru yfirstandandi. Ekki hefur verið litið svo á að það falli undir lögbundið hlutverk umboðsmanns að grípa inn í slík samskipti.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér teljið tilefni til getið þér leitað til mín á ný þegar málið hefur verið leitt til endanlegra lykta og yrði þá tekin afstaða til þess að hvaða marki það getur komið til athugunar umboðsmanns.