Fjármála- og tryggingastarfsemi. Lagaheimild stjórnvaldsfyrirmæla.

(Mál nr. 12272/2023)

Kvartað var yfir reglum Seðlabanka Íslands um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga og ákvörðun bankans sem byggðist á þeim.

Þar sem athugasemdirnar höfðu ekki verið bornar undir bankaráð voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023. 

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 30. júní sl. f.h. A hf. sem beinist að Seðlabanka Íslands og lýtur að reglum bankans nr. 1644/2022, um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga, og ákvörðun bankans 15. júní sl. sem byggð er á þeim reglum. Með ákvörðuninni var A hf. veitt undanþága frá tilteknum skilyrðum 2. gr. reglnanna fyrir stofnun og notkun viðskiptareikninga hjá bankanum fram til 31. desember 2023, með vissum takmörkunum. Kvörtunin er byggð á því á því að 2. gr. reglna nr. 1644/2022 eigi sér ekki fullnægjandi stoð í lögum eða sé í andstöðu við lög og ákvörðun Seðlabankans frá 15. júní sl. sé þar af leiðandi ólögmæt, en auk þess hafi hún verið bundin íþyngjandi skilyrðum sem ekki sér lagastoð.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leita sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, hefur bankaráð Seðlabankans eftirlit með því að hann starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Þótt eftirlit bankaráðs taki ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum, sbr. 2. málsl. ákvæðisins, er kvörtun yðar byggð á því að almenn stjórnvaldsfyrirmæli Seðlabankans, reglur nr. 1644/2022, séu ekki í samræmi við lög. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og í ljósi þess hlutverks sem bankaráði Seðlabanka Íslands er ætlað að hafa með höndum tel ég því rétt að afstaða ráðsins liggi fyrir áður en kvörtun yðar getur komið til skoðunar af hálfu embættis umboðsmanns. Er þá haft í huga að bankaráði gefist kostur á að taka afstöðu til þess hvort erindið heyri undir starfssvið þess og eftir atvikum bregðast við með þeim hætti sem það telur tilefni til.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að A hf. hafi freistað þess að bera athugasemdir félagsins undir bankaráð eða að afstaða þess liggi fyrir með öðrum hætti. Í ljósi þessa og með vísan til þess sem rakið er hér að framan tel ég ekki rétt að taka kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu. Ég tek hins vegar fram að freisti félagið þess að leita til bankaráðs Seðlabankans og telji það sig enn beitt rangsleitni að fenginni niðurstöðu er unnt að leita til mín á ný innan eins árs frá því er afstaða ráðsins liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.