Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Barnaverndarmál.

(Mál nr. 12275/2023 – 12276/2023 – 12285/2023)

Kvartað var yfir viðbrögðum Barnaverndar Reykjavíkur við beiðni um aðgang að gögnum og fleiru.  

Ekki var tímabært að fjalla um þann þátt er laut að aðgangi að gögnum og upplýsingum. Hvað annað snerti var það í farvegi og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til þriggja kvartana yðar til umboðsmanns Alþingis 30. júní og 6. júlí sl. sem allar beinast að Barnavernd Reykjavíkur og lúta að viðbrögðum við beiðni yðar 14. júní sl. um aðgang að gögnum, að því að málið sé þar til meðferðar þótt báðir foreldrar eigi skráð lögheimili í umdæmum annarra barnaverndarþjónusta og ákvörðunum þjónustunnar um að hafa samráð við sýslumann og lögreglu um [...].

Samkvæmt gögnum sem fylgdu með þeirri kvörtun yðar er laut að viðbrögðum Barnaverndar Reykjavíkur við beiðni yðar um aðgang að gögnum var yður tilkynnt með tölvubréfi 23. júní sl. að yður yrðu væntanlega afhent gögnin viku síðar en ljóst er að það gekk ekki eftir. Í ljósi þess kvörtun yðar er lögð fram mjög skömmu eftir það tímamark og mér hafa ekki borist frekari upplýsingar frá yður tel ég þó ekki tilefni til að taka það atriði sérstaklega til athugunar. Að öðru leyti tek ég fram að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í því. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður almennt ekki um erindi sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Þar sem önnur atriði sem þér tilgreinið í kvörtunum yðar lúta að málsmeðferð Barnaverndar Reykjavíkur í barnaverndarmáli sem er til meðferðar eru þess vegna ekki fyrir hendi skilyrði að lögum til að taka kvartanir yðar til meðferðar að svo stöddu.

Ég tek fram að hafi fyrirætlanir Barnaverndar Reykjavíkur um afhendingu gagna enn ekki gengið eftir er yður að sjálfsögðu heimilt að leita til mín á ný. Jafnframt getið þér leitað til mín á ný þegar mál yðar hefur verið leitt til endanlegra lykta í stjórnsýslunni ef þér teljið yðar þá enn beitta rangsleitni.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á kvörtunum yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.