Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Lífeyrismál.

(Mál nr. 12296/2023)

Kvartað var yfir forsætisráðherra og ráðuneyti hennar hefði ekki svarað beiðnum um formleg svör og leiðbeiningar vegna beiðna um flutning á áunnum lífeyri í lífeyrissjóð starfsmanna Evrópusambandsins. 

Viðkomandi hafði verið upplýstur um að fjármála- og efnahagsráðuneytið myndi svara erindi hans og því ekki ástæða að svo stöddu til að umboðsmaður aðhefðist frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 12. júlí sl. sem beinist að forsætisráðherra og ráðuneyti hennar og lýtur að því að beiðnum yðar um formleg svör og leiðbeiningar vegna beiðna um flutning á áunnum lífeyri yðar í lífeyrissjóð starfsmanna Evrópusambandsins hafi ekki verið svarað.

Hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórn­vald á rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svara sé ekki vænst. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Í þessari reglu felst á hinn bóginn ekki að stjórnvöldum sé skylt að svara efnislega öllum erindum sem þeim berast heldur ræðst réttur aðila að þessu leyti af öðrum réttarreglum, svo sem leiðbeiningarreglu stjórnsýsluréttar, vönduðum stjórnsýsluháttum sem og af eðli erindisins. Í því sambandi athugast að berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, ber því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég tel einnig rétt að benda yður á að af reglum stjórnsýslu­réttarins leiðir almennt ekki að einstaklingar eða lögaðilar eigi fortakslausan rétt til að velja sér við hvaða starfsmenn eða embættismenn, þ. á m. ráðherra, þeir eiga samskipti við vegna umleitana sinna. Almennt er það ráðherra að meta hvort bregst sjálfur við erindi sem er til meðferðar í ráðuneyti hans eða felur starfsmanni sínum að annast það, leiði annað ekki af lögum.

Kvörtun yðar fylgdi m.a. tölvubréf skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu til yðar 6. júlí sl. Þar kemur fram að fulltrúar forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis hafi fundað vegna erindis yðar til forsætisráðherra. Niðurstaðan hafi orðið sú að fjármála- og efnahagsráðuneytið myndi svara yður þar sem það færi með mál er varða lífeyrissjóði og að yður hafi verið send svör með tölvubréfi 4. júlí sl.

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við viðbrögð forsætisráðuneytisins við erindi yðar. Þar hef ég jafnframt í huga afmörkun á málefnasviði ráðuneytisins. Að því virtu tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar, eins og hún er afmörkuð.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.