Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Heilbrigðismál. Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 12300/2023)

Kvartað var yfir töfum á meðferð kvörtunar hjá landlæknisembættinu.  

Þar tafirnar voru almennar og málið í farvegi hjá landlækni lauk umboðsmaður meðferð sinni á kvörtuninni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 13. júlí sl. sem beinist að landlæknisembættinu og lýtur að töfum á meðferð kvörtunar sem þér senduð embættinu 30. ágúst 2021 fyrir hönd föður yðar, B.

Í tilefni af kvörtuninni var embætti landlæknis ritað bréf 25. júlí sl. þar sem þess var óskað, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að veittar yrðu upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu á umræddu kvörtunarmáli. Einnig var óskað nánari upplýsinga um málsmeðferð embættisins og viðbrögð þess við fyrirspurn yðar um stöðu málsins 12. apríl sl.

Svör landlæknisembættisins bárust með bréfi 28. júlí sl. sem fylgir hjálagt í ljósriti. Þar er gerð nánari grein fyrir ferli málsins hjá embættinu, m.a. að 4. maí sl. hafi borist greinargerð frá Landspítala ásamt fylgibréfi yfirlæknis f.h. framkvæmdastjórnar sjúkrahússins. Auk þess kemur fram að fyrrgreindri fyrirspurn yðar hafi verið svarað 21. þessa mánaðar.

Af svörum landlæknisembættisins verður ekki betur séð en að mál yðar sé í farvegi hjá embættinu. Í ljósi þess tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekari í máli yðar að svo stöddu og tek fram í því sambandi að ekki liggur annað fyrir en að tafir innan málaflokksins séu almennar og stafi af að­stæðum embættisins en ekki bundnar við mál yðar sérstaklega. Ég hef því ákveðið að ljúka meðferð minni á kvörtun yðar. Ég vil þó upplýsa yður um að sú staða sem eru uppi hjá landlæknisembættinu varð mér tilefni til að óska, með bréfi 23. desember 2022 og aftur með bréfi 24. febrúar sl., eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um til hvaða aðgerða yrði gripið til að hraða meðferð kvartana hjá embættinu. Þeirra upplýsinga var óskað á grundvelli þeirrar heimildar sem umboðsmaður hefur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði. Svör hafa borist og umboðsmaður hefur jafnframt verið í samskiptum við landlæknisembættið. Málefnið er því til almennrar athugunar að fengnum umbeðnum svörum og upplýsingum. Þegar niðurstaða umboðsmanns liggur fyrir verður tilkynnt um það á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á máli yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.