Póst og fjarskiptamál. Póstþjónusta. Tollmiðlun.

(Mál nr. 12307/2023)

Kvartað var yfir viðbrögðum Byggðastofnunar við erindi vegna innheimtu Íslandspósts ohf. á umsýslugjaldi fyrir svokallað „tollkrít“ sem viðkomandi taldi óheimila.  

Stofnunin taldi erindið ekki falla undir eftirlit hennar og taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það. Benti hann viðkomandi á að leita til tollyfirvalda.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis 18. júlí sl. sem beinist að Byggðastofnun og lýtur að viðbrögðum við erindi yðar vegna innheimtu Íslandspósts ohf. á umsýslugjaldi fyrir svokallaða „tollkrít“ sem þér teljið hafa verið óheimila.

Samkvæmt gögnum sem fylgdu kvörtun yðar höfðuð þér samband við stofnunina símleiðis 24. maí sl. og fylgduð því eftir með tölvubréfi daginn eftir. Sama dag óskaði Byggðastofnun nánari upplýsinga um innheimtu umsýslugjaldsins frá Íslandspósti. Svar Íslandspósts barst Byggðastofnun 20. júní sl. og var þar lýst þeirri afstöðu að málefnið félli ekki undir eftirlit Byggðastofnunar samkvæmt lögum nr. 98/2019, um póstþjónustu, þar sem innheimta tollkrítar væri þáttur í starfsemi Íslandspósts sem tollmiðlara. Í tölvubréfi Byggðastofnunar til yðar sama dag var yður bent á að bera málið undir tollyfirvöld.

Í 3. mgr. 32. gr. laga nr. 98/2019, um póstþjónustu, er kveðið á um að telji neytendur póstþjónustu, eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta, að póstrekandi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögunum, eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í almennum heimildum, réttindum eða í rekstrarleyfi eða skilgreindum alþjónustukvöðum, geti hlutaðeigandi beint kvörtun til Byggðastofnunar um að hún láti málið til sín taka. Ákvarðanir stofnunarinnar eru svo kæranlegar til úrskurðar­nefndar fjarskipta- og póstmála, sbr. 42. gr. sömu laga.

Erindi yðar lýtur að gjaldtöku Íslands­pósts sem tollmiðlara í tengslum við tollmeðferð vöru. Sam­kvæmt tollalögum nr. 88/2005 er tollmiðlara heimilt að koma fram gagn­vart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda og hafa með höndum nánar tilgreinda þjónustu í tengslum við tollafgreiðslu vöru, þar með talið tollskýrslugerð vegna inn- og útflutnings, sbr 2. tölul. 1. mgr. 47. gr. laganna. Samkvæmt 3., 5. og 6. mgr. 23. gr. þeirra skulu inn­flytjendur afhenda tollstjóra tilteknar upplýsingar en er hins vegar heimilt að veita tollmiðlara umboð til þess að koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart tollyfirvöldum með skjala­sendingum á milli tölva. Umrætt umsýslugjald mun vera innheimt í tengslum við slíka tollskýrslugerð.

Að framangreindu virtu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu Byggðastofnunar að málið falli ekki undir eftirlit hennar samkvæmt lögum nr. 98/2019. Ef þér teljið Íslandspóst hafa brotið gegn skyldum sínum sem tollmiðlara, svo sem ef umboð hefur ekki verið fyrir hendi við gerð tollskýrslu, bendi ég á að yður kann að vera fær sú leið að leita með athugasemdir yðar til tollyfirvalda á grundvelli 50. gr. laga nr. 88/2005 og eftir atvikum til fjármála-  og efna­hagsráðuneytisins sem fer með yfirstjórn tollamála. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð málið eigi að fá hjá framan­greindum aðilum.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.