Jafnréttismál.

(Mál nr. 12319/2023)

Kvartað var yfir því að hafa hvorki fengið starf hjá Íslandsbanka né öðrum bönkum og rekja mætti það til uppruna.  

Þar sem Íslandsbanki er einkaaðili fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um ráðningar í störf þar. Benti umboðsmaður á að mögulega mætti bera erindið upp við kærunefnd jafnréttismála.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 1. ágúst sl. sem þér beinið að Íslandsbanka og öðrum bönkum og lýtur að því að þér hafið ekki fengið starf eftir útskrift úr háskólanámi. Af kvörtuninni verður ráðið að þér rekið það til uppruna yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Íslandsbanki hf. er einkaaðili sem komið er á fót með stofnsamningi samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Af þeim sökum fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um ákvarðanir bankans um ráðningar í störf, og á hið sama við um önnur fjármálafyrirtæki. Eignarhald ríkisins á hlutabréfum í Íslandsbanka hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu hvað hann varðar. Því bresta lagaskilyrði til þess að ég geti tekið erindi yðar til frekari meðferðar.

Ég vek þó athygli yðar á því, í ljósi þess sem fram kemur í kvörtun yðar, að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna nánar tilgreindra þátta, þ. á m. þjóðernisuppruna, sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11., og 12. gr. laganna. Í III. kafla laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er fjallað um kærunefnd jafnréttismála. Nefndin tekur til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, en þar undir falla m.a. lög nr. 86/2018, og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin. Erindi skulu berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020.

Teljið þér á rétt yðar hallað á grundvelli einhverra þeirra þátta sem fram koma í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 getið þér samkvæmt framangreindu freistað þess að beina erindi til kærunefndar jafnréttismála. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta hjá nefndinni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.