Samkeppnismál.

(Mál nr. 12322/2023)

Kvartað var yfir athugun Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi og upplýsingabeiðni þar að lútandi.  

Ákvörðun stjórnar Samkeppniseftirlitsins um lögmæti athugunarinnar hafði verið kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og fylgdi stjórnsýslukæran kvörtuninni. Það varð því ekki annað ráðið en athafnir Samkeppniseftirlitsins sem kvörtunin laut að væru til meðferðar í stjórnsýslunni og því ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki erindið til skoðunar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.

  

    

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A hf. til umboðsmanns Alþingis 3. ágúst sl. vegna athugunar Samkeppniseftirlitsins á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi, sbr. d-lið 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, og upplýsingabeiðni stofnunarinnar til félagsins 5. apríl sl.

Þér hafið áður leitað til umboðsmanns með kvörtun vegna málsins (mál nr. 12225/2023). Þá taldi ég ekki rétt að taka málið til frekari athugunar þar sem afstaða stjórnar Samkeppniseftirlitsins til athugasemda A hf. lá ekki fyrir en upplýsti með bréfi 12. júní að félagið gæti leitað til mín á ný teldi það sig enn beitt rangsleitni að fenginn niðurstöðu hennar. Í kvörtun yðar nú kemur fram að stjórn Samkeppniseftirlitsins hafi tekið erindi A hf. fyrir á fundi 14. júlí sl. og falið forstjóra að svara því. Í svarbréfi hans 19. þess mánaðar hafi komið fram að ekki væri efni til að efast um lögmæti athugunarinnar. Hins vegar kemur einnig fram í kvörtun yðar að sama dag hafi stofnunin ákveðið að leggja á félagið dagsektir að fjárhæð 3,5 millj. kr. á dag þar til upplýsingabeiðninni frá 5. apríl sl hefði verið svarað með fullnægjandi hætti og sú ákvörðun hafi verið kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála 1. ágúst sl.

Stjórnsýslukæra X f.h. A hf. fylgdi kvörtun yðar og af lestri hennar er ljóst að hún byggist m.a. á sömu röksemdum og sjónarmiðum um lögmæti téðrar athugunar Samkeppniseftirlitsins. Það verður því ekki annað ráðið en að þær athafnir stofnunarinnar sem kvörtun yðar lýtur að sé til meðferðar í stjórnsýslunni. Eins og rakið var í fyrra bréfi mínu til yðar 12. júní sl. er 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, byggð á því sjónarmiði að eðlilegt sé að stjórnvöld fái tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er með kvörtun til utanaðkomandi eftirlitsaðila á borð við umboðsmann Alþingis. Af því leiðir að mál koma almennt ekki til athugunar hjá umboðsmanni á grundvelli kvörtunar samhliða því sem þau eru til umfjöllunar hjá æðra stjórnvaldi eða eftirlitsaðila í stjórnsýslunni. Með vísan til þess tel ég ekki rétt að taka kvörtunina til athugunar að svo stöddu en árétta að þegar málefnið hefur verið leitt til endanlegra lykta í stjórnsýslunni getur A hf. leitað til mín á ný telji félagið sig þá enn beitt rangsleitni.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.