Fullnusta refsinga. Rökstuðningur.

(Mál nr. 12228/2023)

Kvartað var yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að synja beiðni um flutning í opið fangelsi.  

Með hliðsjón af lagagrundvelli málsins, rökstuðningi ráðuneytisins í svari til umboðsmanns og gögnum málsins umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við að rökstuðningur ráðuneytisins hefði verið takmarkaður á grundvelli stjórnsýslulaga þar sem nauðsynlegt hefði verið að takmarka aðgengi viðkomandi að upplýsingum frá Fangelsismálastofnun með vísan til laga um fullnustu refsinga og  stjórnsýslulaga. Enn fremur mátti ráða að synjunin hefði byggst á málefnalegum sjónarmiðum og tekið mið af skilyrðum í 1. mgr. 21. gr. laga um fullnustu refsinga. Ekki voru því forsendur til að gera athugasemdir niðurstöðu stjórnvalda.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 17. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 6. júní sl. yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins, kveðnum upp sama dag, þar sem staðfest var ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins um að synja beiðni yðar um flutning í opið fangelsi. Kvörtunin laut m.a. að rökstuðningi fyrir niðurstöðum ráðuneytisins og Fangelsismálastofnunar.

Í tilefni af kvörtuninni var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 28. júní sl. þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti nánari skýringar á mati þess að skilyrðum 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 17. gr. sömu laga og 3. mgr. 95. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, um takmörkun á efni rökstuðnings, væri fullnægt í málinu. Svar ráðuneytisins og gögn málsins bárust umboðsmanni 28. júní sl.

Í 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um heimild til að takmarka efni rökstuðnings að því leyti sem vísa þarf til gagna sem aðila máls er ekki heimill aðgangur að, sbr. 16. og 17. gr. laganna. Heimild til að takmarka efni rökstuðnings samkvæmt ákvæðinu ræðst því af þeim atriðum er upp eru talin í 16. og 17. gr. stjórnsýslulaga sem og sérlögum ef við á. Í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 15/2016 er sérstaklega kveðið á um heimild til að halda gögnum og upplýsingum frá fanga teljist slíkt nauðsynlegt með tilliti til öryggis fangelsis, brotaþola, vitna eða annarra sem tengjast máli fanga, annarra fanga eða annarra sérstakra ástæðna. Ákvæði laga nr. 15/2016 er því í meginatriðum ætlað að verja svipaða hagsmuni og 17. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem um undantekningar frá rökstuðningsskyldunni er að ræða ber að skýra þær þröngt og verða stjórnvöld að sýna fram á að hagsmunir aðilans annars vegar og aðrir hagsmunir sem undir eru í málinu hins vegar hafi verið metnir áður en ákvörðun er tekin um að takmarka rétt aðila til aðgangs að gögnum málsins.

Með hliðsjón af lagagrundvelli málsins sem og rökstuðningi ráðuneytisins í svari til umboðsmanns, og að virtum þeim gögnum málsins sem mér hafa borist, tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við að rökstuðningur ráðuneytisins hafi verið takmarkaður á grundvelli 3. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga þar sem nauðsynlegt hafi verið að takmarka aðgengi yðar að upplýsingum frá Fangelsismálastofnun með vísan til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 15/2016 og 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af svörum ráðuneytisins og gögnum málsins má enn fremur ráða að synjun á beiðni yðar um flutning í opið fangelsi hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og tekið mið af þeim skilyrðum sem upp eru talin í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 15/2016. Að því virtu tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat sem liggur ákvörðuninni til grundvallar, enda staða umboðsmanns önnur en fangelsisyfirvalda í því tilliti. Tilvísun yðar til þess að ekki hafi verið gætt jafnræðis er almenn og kemur þ.a.l. ekki til nánari athugunar. Að virtri niðurstöðu minni í málinu tel ég enn fremur ekki tilefni til að taka málsmeðferðartíma dómsmálaráðuneytisins í kærumáli yðar til sérstakrar athugunar.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.