Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12252/2023)

Kvartað var yfir á svokölluðu vangreiðslugjaldi í tengslum við notkun á stöðureit við Landspítalann og gerðar athugasemdir við lögmæti gjaldsins. 

Í tilefni af kvörtuninni var óskað eftir afstöðu frá  innviðaráðuneytinu til þess hvort það álitaefni sem fjallað væri um í henni gagnvart Landspítala væri  þess eðlis að málið heyrði undir eftirlit ráðu­neytisins. Væri það afstaða ráðuneytisins að það kynni að taka málið til meðferðar, leituðu viðkomandi  til þess með málið, myndi umboðsmaður ljúka málinu af sinni hálfu en leiðbeina um að leita til ráðuneytisins. Í framhaldinu lýsti ráðuneytið þeirri afstöðu að það kynni að taka málið til meðferðar ef leitað yrði eftir því. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 20. júní sl. vegna innheimtu Green Parking ehf., f.h. Landspítala, á svokölluðu „vangreiðslugjaldi“ í tengslum við notkun á stöðureit við spítalann. Í kvörtuninni gerið þér athugasemdir við lögmæti gjaldsins.

Á grundvelli 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 hefur Landspítala verið falin heimild til gjaldtöku fyrir notkun stöðureita sem stofnunin hefur umsjón með, sbr. auglýsing samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 27. október 2021 nr. 1292/2021, um heimild Landspítala til innheimtu gjalds fyrir notkun stöðureita. Fyrir liggur að Landspítali hefur falið Green Parking ehf. að innheimta gjöld fyrir notkun stöðureita á grundvelli þjónustusamnings 8. júní 2022.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skuli hafa tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Í tilefni af kvörtuninni var innviðaráðherra, sem fer með framkvæmd umferðarlaga, ritað bréf 31. júlí sl. þar sem þess var óskað að ráðuneyti hans lýsti afstöðu sinni til þess hvort það teldi það álitaefni sem fjallað er um í kvörtuninni gagnvart Landspítala sé þess eðlis að málið heyri undir eftirlit ráðu­neytisins. Væri það afstaða ráðuneytisins að það kynni að taka málið til meðferðar, leituðuð þér til þess með málið, myndi umboðsmaður ljúka málinu af sinni hálfu en leiðbeina yður um að leita til ráðuneytisins, sbr. framangreind 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Í svari ráðuneytisins 14. ágúst sl. var upplýst um þá afstöðu þess að það kynni að taka málið til meðferðar, leituðuð þér til þess með málið. Að því gættu, og með hliðsjón af framangreindu, er ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að ég geti tekið kvörtun yðar til frekari meðferðar. Læt ég því athugun minni vegna kvörtunar yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Fari svo að þér leitið til ráðuneytisins vegna málsins og teljið yður enn beittan rangleitni að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.