Málefni fatlaðs fólks. Sveitarfélög. Akstursþjónusta.

(Mál nr. 12266/2023)

Kvartað var yfir því að akstursþjónusta fatlaðs fólks í Kópavogi væri aðeins í boði eftir klukkan 11 á sunnudögum. Ekki hefði borið árangur að kvarta símleiðis við skrifstofu bæjarins. 

Hvorki lágu fyrir formleg viðbrögð velferðarráðs Kópavogs né verið leitað til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 27. júní sl., sem lýtur að því að akstursþjónusta fatlaðs fólks í Kópavogi standi notendum þjónustunnar aðeins til boða eftir klukkan 11:00 á sunnudögum. Í kvörtuninni greinið þér frá því að hafa komið athugasemdum á framfæri símleiðis við starfsmann á skrifstofu bæjarins, en það hafi ekki borið árangur.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórnvöldum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. laganna að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrir en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra.

Af framangreindum ákvæðum leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra. Af kvörtun yðar, en henni fylgdu engin gögn, verður ekki ráðið að fyrir liggi formleg viðbrögð velferðarráðs Kópavogs við athugasemdum yðar við þjónustutíma akstursþjónustu fatlaðs fólks í sveitarfélaginu, en meðal verkefna ráðsins er að leitast við að veita velferðarþjónustu sem taki mið af þörfum íbúa bæjarins á hverjum tíma og í samræmi við gildandi lög, reglur og samþykktir. Ráðið fer þá með nánar tiltekin verkefni, en til þess er t.a.m. hægt að áfrýja ákvörðun um úthlutun á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk í Kópavogi, sbr. 7. gr. reglna bæjarstjórnar Kópavogs um þjónustuna sem settar hafa verið á grundvelli 29. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, en í ákvæðinu er fjallað um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

Í ljósi þess hlutverks sem ráðið hefur tel ég rétt að þér óskið eftir afstöðu þess til athugasemda yðar. Ég tel þá jafnframt rétt að benda yður á að félags- og vinnumarkaðsráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög nr. 40/1991 taka til. Yður kann því að vera fært að leita til ráðuneytisins með athugasemdir yðar. Að fenginni afstöðu velferðarráðs sveitarfélagsins og eftir atvikum annarra þar til bærra aðila stjórnvalda getið þér leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið tilefni til þess.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.