Orku- og auðlindamál. Virkunarleyfi. Rökstuðningur.

(Mál nr. 12292/2023)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi úr gildi ákvörðun Orksstofnunar um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Nefndin hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni og vinnubrögðin ekki samræmst vönduðum stjórnsýsluháttum.

Umboðsmaður benti á að úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri ítarlegur og fjallaði um lagagrundvöll og aðdraganda ákvörðunar Orkustofnunar. Var þar m.a. vikið að umhverfismati framkvæmdarinnar og matsskýrslu Landsvirkjunar m.t.t. vatnalífs og mótvægisaðgerða. Þar var jafnframt tekin afstaða til þess hvort gætt hefði verið að þátttökurétti almennings við umhverfismat framkvæmdarinnar og þýðingu laga um stjórn vatnamála. Af forsendum nefndarinnar yrði ekki annað ráðið en að hún hefði tekið afstöðu til þeirra meginmálsástæðna sem taldar voru hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Að því virtu og í ljósi þess að niðurstaða nefndarinnar hefði verið samræmi við kröfur viðkomandi taldi umboðsmaður ekki nægilegt tilefni til að taka úrskurð nefndarinnar til frekari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. ágúst 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 10. júlí sl. fyrir hönd A er lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 15. júní sl. í máli nr. 3/2023. Með úrskurðinum felldi nefndin úr gildi ákvörðun Orkustofnunar 6. desember sl. um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi fyrir 95 MW Hvammsvirkjun. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við að nefndin hafi ekki fjallað um þau sjónarmið og málsástæður sem fram komu í kæru A til nefndarinnar með fullnægjandi hætti. Með því hafi nefndin brotið gegn rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem slíkir starfshættir samræmist ekki vönduðum stjórnsýsluháttum.

A hefur áður leitað til umboðsmanns með kvörtun í tengslum við ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar og var henni lokið með bréfi 23. júní sl. í máli nr. 12246/2023. Í bréfinu kom m.a. fram að þar sem ekki yrði annað ráðið en að niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefði verið í samræmi við kröfur hennar væri ekki talið nægilegt tilefni til frekari athugunar á málinu.

   

II

Í máli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 3/2023 var málið sameinað níu öðrum kærumálum sem lutu að ákvörðun Orkustofnunar um veitingu téðs virkjunarleyfis til Landsvirkjunar og kröfðust allir kærendur ógildingar á þeirri ákvörðun. Í kæru A er m.a. á því byggt að umhverfismat á vatnalífi og mótvægisaðgerðir hafi ekki verið lögð fram í samræmi við lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og þá einkum m.t.t. þátttökuréttar almennings. Þá hafi málsmeðferð Orkustofnunar ekki tekið fullnægjandi tillit til laga nr. 36/2011, um stjórn vatnamála, auk þess sem þar voru gerðar athugasemdir við þær staðreyndir sem lágu til grundvallar því mati að færa Hvammsvirkjun í orkunýtingarflokk í rammaáætlun.

Reglur stjórnsýsluréttar koma ekki í veg fyrir að meðferð á stjórnsýslukærum sem lúta að sömu atvikum og þar sem kröfugerð er sambærileg sé sameinuð svo lengi sem hagsmunir aðila máls standa því ekki í vegi. Að baki sameiningu mála kunna að búa ýmis rök, m.a. hagræðis- og skilvirknissjónarmið. Í 5. málslið 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er auk þess sérstaklega vísað til þess að nefndinni sé heimilt að sameina mál þegar kærur eru samkynja. Þá hefur í íslenskum stjórnsýslurétti ekki verið talið að á stjórnvöldum hvíli fortakslaus skylda til að taka sérhverja málsástæðu sem aðili hefur fært fram til rökstuddrar úrlausnar. Á hinn bóginn hefur verið talið að almennt verði að gera þær kröfur að a.m.k. sé tekin afstaða til meginmálsástæðna sem aðilar færa fram og hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. 

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er ítarlegur og er þar að finna umfjöllun um lagagrundvöll og aðdraganda ákvörðunar Orkustofnunar. Var þar m.a. vikið að umhverfismati framkvæmdarinnar og matsskýrslu Landsvirkjunar m.t.t. vatnalífs og mótvægisaðgerða. Þar var jafnframt tekin afstaða til þess hvort gætt hefði verið að þátttökurétti almennings við umhverfismat framkvæmdarinnar og þýðingu laga nr. 36/2011.

Af forsendum úrskurðarnefndarinnar verður ekki annað ráðið en að hún hafi tekið afstöðu til þeirra meginmálsástæðna A sem taldar voru hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Að því virtu og í ljósi þess að niðurstaða nefndarinnar var, líkt og áður greinir, í samræmi við kröfur A tel ég ekki nægilegt tilefni til að taka úrskurð nefndarinnar til frekari athugunar.

   

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.