Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 12309/2023)

Kvartað var yfir viðbrögðum fangelsisins að Sogni við því að fangi hefði veist að samfanga. 

Í svari frá Fangelsismálastofnun kom fram að það hefði verið mat forstöðumanns fangelsisins að ekki væri tilefni til að flytja fangann sem átti í hlut úr fangelsinu vegna þessa. Út frá gögnum málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við skoðun eða niðurstöðu forstöðumannsins.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. ágúst 2023.

  

  

Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis sem var móttekið 19. júlí sl. og lýtur að viðbrögðum fangelsisins að Sogni vegna atviks sem átti sér stað þar þann 9. júlí sl. Í kvörtuninni segir að samfangi yðar hafi veist að yður í matsal fangelsisins og þér séuð ósáttir við að umræddur fangi hafi ekki verið fluttur úr fangelsinu.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu.

Í tilefni af kvörtuninni var Fangelsismálastofnun ritað bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum og gögnum sem gætu varpað ljósi á atvikið og, eftir atvikum, úrvinnslu þess af hálfu stofnunarinnar. Í svarbréfi stofnunarinnar 8. ágúst sl. segir að  málið hafi verið skoðað af starfsmönnum fangelsisins að Sogni. Hafi það verið mat forstöðumanns fangelsisins að ekki væri tilefni til að flytja fangann sem átti í hlut úr fangelsinu vegna þessa. Hann hafi hins vegar verið minntur á að fara eftir reglum fangelsisins. Málið hafi ekki komið sérstaklega til umfjöllunar hjá stofnuninni enda séu ákvarðanir um agaviðurlög teknar af forstöðumönnum fangelsa. Svarinu fylgdi myndbandsupptaka af atvikinu og afrit skýrslna sem ritaðar voru vegna atviksins og yfirheyrslna yðar og samfanga yðar í kjölfar þess.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég ekki líkur á því að frekari athugun mín á málinu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemdir við skoðun og niðurstöðu forstöðumanns fangelsisins að Sogni vegna atviksins. Hef ég þá jafnframt í huga þá áminningu um reglur fangelsisins sem samfanga yðar var veitt. Lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.