Börn. Umgengni.

(Mál nr. 12327/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð sýslumannsins á Suðurnesjum í máli vegna umgengni við son.  

Þar sem úrskurður sýslumanns hafði ekki verið kærður til dómsmálaráðherra og niðurstaða ráðuneytisins fengin voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 10. ágúst sl. en af henni verður ráðið að hún lúti að málsmeðferð sýslumannsins á Suðurnesjum í máli um umgengni yðar við son yðar. Þá komuð þér því á framfæri með tölvubréfi 15. ágúst sl. að sýslumaður hefði kveðið upp úrskurð 14. sama mánaðar þar sem kröfu yðar um að kveðið yrði á um umgengni til bráðabirgða hefði verið hafnað.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að ekki verður annað ráðið af kvörtun yðar en að umgengnismál yðar sé enn til meðferðar hjá sýslumanni. Þá leiðir af 4. mgr. 47. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 að heimilt er að kæra úrskurð sýslumanns um umgengni til bráðabirgða til dómsmálaráðherra innan tveggja vikna frá dagsetningu hans. Endanlegur úrskurður sýslumanns um umgengni er svo kæranlegur til dómsmálaráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 76/2003.

Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið kært úrskurð sýslumanns um umgengni til bráðabirgða til dómsmálaráðherra brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar. Ef þér ákveðið að bera úrskurð sýslumanns undir dómsmálaráðherra og teljið þér yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hans getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.