Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12333/2023)

Kvartað var yfir viðbrögðum yfirvalda við fyrirspurn viðkomandi um afdrif eigna hans erlendis í kjölfar handtöku þar að beiðni danskra yfirvalda.  

Það fellur utan starfssviðs umboðsmanns að taka afstöðu til viðbragða erlendra yfirvalda við erindum en viðkomandi var bent að að ef tafir yrðu á erindi hans til sendiráðs Íslands í Danmörku gæti gæti hann leitað til umboðsmanns vegna þess. Þá gæti hann mögulega leitað til utanríkisþjónustunnar sem ætti að veita ríkisborgurum vernd og aðstoð gagnvart erlendum stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. ágúst 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 5. ágúst sl. þar sem þér óskið eftir afstöðu umboðsmanns Alþingis til máls yðar. Af kvörtuninni fæ ég ráðið að hún lúti að viðbrögðum yfirvalda við fyrirspurnum yðar um afdrif eigna yðar á [...] í kjölfar handtöku yðar þar í landi að beiðni danskra yfirvalda. Samkvæmt kvörtuninni hafið þér átt í samskiptum við dönsk yfirvöld vegna þessa og mun danska sendiráðið hafa leiðbeint þér um að leita til sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Það munuð þér hafa þér gert og bíðið þér nú eftir svari þess við erindi yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis getur kvartað af því tilefni til hans, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Af þessu leiðir að kvörtun til umboðsmanns Alþingis verður að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórnvalda sem beinast að þeim sem leggur fram kvörtun eða snerta beinlínis lögverndaða hagsmuni hans eða réttindi. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum.

Að því leyti sem kvörtun yðar lýtur að viðbrögðum erlendra yfirvalda við erindum yðar fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að taka afstöðu til þeirra enda tilheyra þau ekki stjórnsýslu íslenska ríkisins eða sveitarfélögum landsins. Þá verður ekki ráðið að gagnvart yður liggi fyrir tiltekin athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds sem fellur undir starfssvið umboðsmanns. Brestur því lagaskilyrði til þess að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar. Ég tek þó fram að verði óhæfilegur dráttur á því að sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn svari erindi yðar getið þér leitað til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi og þá að undangengnum skriflegum ítrekunum af yðar hálfu á erindinu.

Þá vek ég athygli yðar á því að samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, skal utanríkisþjónustan veita ríkisborgurum vernd og aðstoð gagnvart erlendum stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum. Samkvæmt framangreindu kann yður að vera fært að leita til utanríkisráðuneytisins með erindi yðar. Með þessu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvaða meðferð og afgreiðslu slíkt erindi ætti að hljóta hjá ráðuneytinu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.