Samgöngumál. Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 12334/2023)

Kvartað var yfir ákvörðun Samgöngustofu frá því í nóvember 2021 vegna ámælisverðra vinnubragða við skoðun á ökutæki. 

Í ljósi þess hve langt var um liðið frá ákvörðuninni og það féll utan þess ársfrests sem áskilinn er til að kvarta til umboðsmanns voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. ágúst 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 16. ágúst sl. yfir ákvörðun Samgöngustofu 2. nóvember 2021 vegna ámælisverðra vinnubragða við skoðun á ökutækinu [...].

Í ákvörðun Samgöngustofu segir að hún sé kæranleg til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, nú innviðaráðuneytið, innan þriggja mánaða frá tilkynningu. Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar hjá umboðsmanni að hún sé borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Jafnframt segir í 3. mgr. greinarinnar að sé unnt að skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Síðastnefnda ákvæðið er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Umboðsmaður hefur túlkað ákvæðið svo að honum sé vegna þess ekki heimilt að taka mál til athugunar á grundvelli kvörtunar þegar sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra málið til æðra stjórnvalds en kærufrestur hefur liðið án þess að kæra hafi komið fram.

Kvörtunin lýtur, líkt og áður greinir, að ákvörðun Samgöngustofu á árinu 2021. Er því ljóst að að hún fellur utan ársfrestsins. Þá verður ekki annað ráðið en að ákvörðunin sem um ræðir var ekki kærð til æðra stjórnvalds. Eru því ekki skilyrði að lögum til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar.

Kvörtun yðar fylgdi jafnframt bréf lögmanns yðar til X ehf. þar sem gerð er krafa um bætur vegna ámælisverðra vinnubragða við skoðun ökutækisins sem varð tilefni ákvörðunar Samgöngustofu. Að þessu leyti skal tekið fram að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er almennt ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður taki afstöðu til bótaskyldu eða fjárhæðar bóta. Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur því almennt verið farin sú leið að ljúka málum þar sem uppi eru álitamál um skaðabótaskyldu með vísan til þess að þar sé um að ræða ágreining sem eðlilegt er að dómstólar leysi úr enda er yfirleitt þörf á sönnunarfærslu fyrir dómstólum ef ágreiningur er um hana.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.