Félög. Eftirlit stjórnsýsluaðila. Stjórnvaldsákvörðun.

(Mál nr. 12140/2023)

Kvartað var yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra um að skrá tilkynningu um breytingu á stjórn í sjóðaskrá sýslumanns. Gerðar voru athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins er lutu einkum að hlutverki sýslumanns við skráningu upplýsinga um stjórnarmenn í sjóðaskrá samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa skv. staðfestri skipulagsskrá.  

Út frá gögnum málsins og forsendum ráðuneytisins tel umboðsmaður ekki líkur til þess að áframhaldandi athugun á málinu myndi leiða til þess að forsendur væru til að gera athugasemd við þá niðurstöðu þess að sýslumanni hefði verið rétt að skrá tilkynningu um stjórnarmennina í sjóðaskrá umrætt sinn. Ekki yrði dregin sú ályktun af ákvæðum laga um sjóði og stofnanir sem starfa skv. staðfestri skipulagsskrá, að sýslumanni væri á grundvelli þeirra falið að skera úr um ágreining um skipun stjórnarmanna sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Líta yrði svo á að skráning stjórnarmanna í sjóðaskrá sýslumanns væri þáttur í almennu eftirliti hans með starfsemi sjóða sem starfi á grundvelli laganna. Ákvæði þeirra bæru þannig ekki með sér að sérstök réttindi eða skyldur væru bundnar við skráninguna sem slíka. Réttindi og skyldur stjórnarmanna leiddi af skipun þeirra í samræmi við ákvæði skipulagsskrár viðkomandi sjóðs eða stofnunar. Í þessu ljósi taldi umboðsmaður ekki fært að líta svo á að með ákvörðun sýslumanns um skráningu nýrra stjórnarmanna hefði verið tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. ágúst 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A, B, C og D, yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins 25. janúar 2023 í máli nr. [...] þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra frá 17. febrúar 2022 að skrá tilkynningu um breytingu á stjórn X, í sjóðaskrá sýslumanns. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins er lúta einkum að hlutverki sýslumanns við skráningu upplýsinga um stjórnarmenn í sjóðaskrá samkvæmt lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Í 3. mgr. 2. gr. áðurnefndra laga kemur fram að sýslumaður skuli halda skrá um alla sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og nefnist hún sjóðaskrá. Enn fremur segir í 2. mgr. 3. gr. laganna að stjórn sjóðs eða stofnunar skuli tilkynna sjóðaskrá SShverjir skipi stjórn hverju sinni. Skýringar við framangreind ákvæði í frumvarpi því er varð að lögum nr. 19/1988 eru fáorðar en í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að því sé fyrst og fremst ætlaður tvenns konar tilgangur. Annars vegar sé ætlunin að móta reglur um það hvernig fá megi betri yfirsýn yfir sjóði og bjóða fram heimildir til að endurnýja reglur um ráðstöfun sjóðseignar. Hins vegar séu í fyrstu fimm greinum frumvarpsins settar fram einfaldar reglur um staðfestingu á skipulagsskrám, um eftirlit með sjóðunum og um ráðstafanir sem gera beri ef brestir verði á lögskipuðum vinnubrögðum stjórnenda.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og forsendur ráðuneytisins tel ég ekki líkur til þess að áframhaldandi athugun mín á málinu muni leiða til þess að ég hafi forsendur til að gera athugasemd við þá niðurstöðu þess að sýslumanni hafi verið rétt að skrá tilkynningu um stjórnarmenn X í sjóðaskrá umrætt sinn. Í því sambandi tek ég fram að ekki verður dregin sú ályktun af framanröktum ákvæðum laga nr. 19/1988 að sýslumanni sé á grundvelli þeirra falið að skera úr um ágreining um skipun stjórnarmanna sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Líta verður svo á að skráning stjórnarmanna í sjóðaskrá sýslumanns sé þáttur í almennu eftirliti hans með starfsemi sjóða sem starfa á grundvelli laga nr. 19/1988. Ákvæði laganna bera þannig ekki með sér að sérstök réttindi eða skyldur séu bundnar við skráninguna sem slíka. Réttindi og skyldur stjórnarmanna leiða af skipun þeirra í samræmi við ákvæði skipulagsskrár viðkomandi sjóðs eða stofnunar. Í þessu ljósi tel ég ekki fært að líta svo á að með ákvörðun sýslumanns um skráningu nýrra stjórnarmanna í X hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun í máli umbjóðenda yðar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.