Fjölmiðlun. Eftirlit stjórnsýsluaðila. Upphaf stjórnsýslumáls.

(Mál nr. 12145/2023)

Kvartað var yfir málsmeðferð fjölmiðlanefndar í kjölfar kvörtunar til nefndarinnar vegna umfjöllunar á netmiðli um viðkomandi. Taldi nefndin ekki tilefni til að fjalla efnislega um málið.

Fjölmiðlanefnd hefur heimild samkvæmt lögum um fjölmiðla til að ákveða hvort erindi gefi nægar ástæður til að hefja meðferð máls. Það mat er ekki óheft heldur þarf að byggja ákvarðanir á málefnalegum sjónarmiðum og gæta jafnræðis í úrlausnum. Þegar stjórnvöldum er falið slíkt mat er almennt talið að ætla verði þeim nokkurt svigrúm í þeim efnum og kemur það ekki í hlut umboðsmanns að endurskoða matið nema ljóst þyki af gögnum máls og öðrum upplýsingum að stjórnvaldið hafi við mat sitt byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum, fullnægjandi upplýsingar hafi ekki verið fyrir hendi eða að mat stjórnvaldsins og ályktanir þess hafi verið óforsvaranlegar. Í þessu tilfelli taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu nefndarinnar til kvörtunarinnar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. ágúst 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 12. apríl sl. yfir málsmeðferð fjölmiðlanefndar í kjölfar þess að þér lögðuð fram kvörtun til nefndarinnar vegna umfjöllunar á vefmiðlinum X [dags] um samband yðar og eiginmanns yðar. Nánar tiltekið laut kvörtun yðar til umboðsmanns að því að fjölmiðlanefnd hefði á fundi sínum 16. janúar sl. ákveðið að ekki væri ástæða til að taka kvörtun yðar til nefndarinnar til efnislegrar meðferðar.

Í tilefni af kvörtuninni var fjölmiðlanefnd ritað bréf 19. maí sl. þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Svar fjölmiðlanefndar barst 8. júní sl.

Um fjölmiðlanefnd er fjallað í 7. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, en þar segir m.a. að fjölmiðlanefnd sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyri undir ráðherra og annist eftirlit samkvæmt lögunum. Í 10. gr. laganna er fjallað um starfssvið fjölmiðlanefndar en þar segir m.a. að nefndin fylgist með því að fjölmiðlaveitur fari að fyrirmælum laganna, taki ákvarðanir í málum samkvæmt þeim og beiti viðurlögum þegar við á, sbr. a-lið 2. mgr. Þá segir m.a. í 11. gr. laganna að fjölmiðlanefnd taki ákvörðun um það hvort erindi, sem henni berist, gefi nægar ástæður til meðferðar. Um mat á þessu atriði er fjallað í starfsreglum fjölmiðlanefndar, sem settar voru samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2011, sbr. 4. gr. reglnanna.

Í tölvubréfi starfsmanns fjölmiðlanefndar til yðar 17. janúar sl. var yður gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu nefndarinnar að taka kvörtun yðar ekki til efnislegrar meðferðar. Í tölvubréfinu var m.a. vísað til 2. mgr. 4. gr. ofangreindra starfsreglna. Í öðru tölvubréfi starfsmanns fjölmiðlanefndar 13. apríl sl. var yður gerð nánari grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar, m.a. að því leyti að niðurstaða hennar hafi einkum ráðist af a- og c-liðum 2. mgr. 4. gr. starfsreglna nefndarinnar. Þá var þess einnig getið í sama tölvubréfi að fjölmiðlanefnd hefði metið málið á þann veg að umfjöllunin, sem kvörtun yðar laut að, hefði ekki verið efnislega röng enda þótt þér hefðuð gert athugasemdir við orðalag, framsetningu og myndaval. Í niðurlagi tölvubréfsins segir að lokum að þér getið komið á framfæri nýjum gögnum í málinu, sem sjálfsagt sé að leggja fyrir nefndina á næsta fundi hennar. Í því samhengi skal þó bent á að í fyrra tölvubréfi yðar til starfsmanns nefndarinnar 4. apríl sl. lýsið þér því að þér hyggist ekki fylgja málinu frekar eftir á vettvangi hennar.

Í 4. gr. áðurnefndra starfsreglna fjölmiðlanefndar kemur fram að ef erindi frá aðila uppfyllir kröfur samkvæmt 3. gr. taki fjölmiðlanefnd ákvörðun um hvort erindið gefi nægar ástæður til að hefja málsmeðferð. Við mat á því skal fjölmiðlanefnd hafa hliðsjón af málefnalegum sjónarmiðum sem þykja skipta máli í hverju tilviki fyrir sig. Í lögum nr. 38/2011 er ekki gert ráð fyrir að fjölmiðlanefnd taki allar ábendingar sem henni kunna að berast til frekari athugunar heldur hafi stjórnvaldið í þeim efnum nokkuð svigrúm til mats, þ. á m. til að forgangsraða málum. Sem að ofan greinir var ákvörðun fjölmiðlanefndar um að taka kvörtun yðar ekki til efnislegrar meðferðar m.a. byggð á a- og c-lið 2. mgr. 4. gr. starfsreglna hennar. Í þeim stafliðum eru tilgreind atriði, sem skipt geta máli við mat nefndarinnar á því hvort hefja beri rannsókn, en a-liðurinn lýtur að því hvort meint brot virðist vera alvarlegt og c-liðurinn að því hvort meðferð málsins fari saman við þá forgangsröðun sem nefndin hafi áður ákveðið.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2011 felst, sem fyrr segir, heimild fjölmiðlanefndar til að ákveða hvort erindi gefi nægar ástæður til að hefja meðferð máls. Að því sögðu er mat nefndarinnar að þessu leyti ekki óheft enda verður hún að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og gæta jafnræðis í úrlausnum sínum. Þegar stjórnvöldum er falið mat með þeim hætti, sem hér á við, er þó almennt talið að ætla verði stjórnvaldi nokkurt svigrúm og kemur það ekki í hlut umboðsmanns Alþingis að endurskoða mat stjórnvalds að þessu leyti nema ljóst þyki af gögnum máls og öðrum upplýsingum að það hafi við mat sitt byggt á ómálefnalegum sjónarmiðum, fullnægjandi upplýsingar hafi ekki verið fyrir hendi eða að mat stjórnvaldsins og ályktanir þess hafi verið óforsvaranlegar.

Eftir að að hafa kynnt mér gögn málsins og með vísan til ofangreinds svigrúms fjölmiðlanefndar til mats á grundvelli 1. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2011 tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við framangreinda afstöðu nefndarinnar til kvörtunar yðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.