Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 12207/2023)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Garðabæjar á ósk um fund með sveitarfélaginu sem starfsmaður þess hafði upplýst að stæði til.

Í svari Garðabæjar til umboðsmanns kom fram að þess misskilnings virðist hafa gætt hjá sveitarfélaginu að málinu væri lokið. Boðað yrði til fundar við fyrsta tækifæri. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. september 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 25. maí sl. yfir töfum á afgreiðslu sveitarfélagsins Garðabæjar á ósk yðar um fund með sveitarfélaginu í kjölfar þess að starfsmaður þess hafði upplýst yður um að til stæði að boða til slíks fundar. Lýtur kvörtunin að sömu atvikum og fyrri kvörtun, sem hlaut málsnúmerið 12047/2023 í skjalaskrá embættisins, en meðferð hennar lauk með bréfi 9. mars sl. í kjölfar þess að sveitarfélagið hafði upplýst um að til stæði að boða til ofangreinds fundar.

Í tilefni af kvörtun yðar var sveitarfélaginu ritað bréf 1. júní sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði afgreiðslu og meðferð á erindum yðar svo og hvenær stæði til að boða til ofangreinds fundar. Erindi umboðsmanns var ítrekað með bréfum 28. júlí og 29. ágúst sl.

Svar sveitarfélagsins Garðabæjar barst 2. september sl. en þar kemur meðal annars fram að þess misskilnings virðist hafa gætt hjá sveitarfélaginu að máli yðar væri lokið. Þar kemur einnig fram að við fyrsta tækifæri verði boðað til fundar með yður vegna málsins.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum og í ljósi áforma sveitarfélagsins Garðabæjar um að boða til margnefnds fundar við fyrsta tækifæri, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Standist áform sveitarfélagsins ekki eða ef frekari tafir verða á meðferð málsins, getið  þér leitað til mín á nýjan leik teljið þér ástæðu til þess.