Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12235/2023)

Kvartað var yfir álagningu stöðubrotsgjalds í Reykjavík fyrir að bifreið hefði verið lagt í stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks án tilskilinna leyfa.  

Þar sem ljósmyndir báru með sér að bifreiðinni hefði sannarlega verið lagt í slíkt stæði var ekki ástæða til að gera athugsemdir við ákvörðun um að leggja stöðubrotsgjaldið á.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 9. júní sl. yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 11. apríl sl. um álagningu stöðubrotsgjalds vegna bifreiðarinnar [...] fyrir brot gegn a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 með því að hafa lagt bifreiðinni í bifreiðastæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks við Hverfisgötu í Reykjavík. Í kvörtuninni er á því byggt að umrætt stæði sé á lokuðu bifreiðastæði Þjóðleikhússins og hafi verið merkt vegna framkvæmda, sem áður stóðu í vegi fyrir notkun annarra slíkra stæða í nágrenninu, en gjaldið hafi verið lagt á eftir að framkvæmdum lauk og þar með hafi umrætt bifreiðastæði ekki lengur verið ætlað ökutækjum fatlaðs fólks.

Í tilefni af kvörtun yðar var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 4. júlí sl. þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Svör Reykjavíkurborgar bárust 3. ágúst sl. en þeirra á meðal voru samskipti, sem þér höfðuð áður afhent umboðsmanni, auk ljósmynda af umþrættri lagningu bifreiðarinnar [...].

Í a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga segir að á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks megi ekki stöðva eða leggja öðrum ökutækjum en þeim sem stæði er ætlað. Samkvæmt gögnum málsins og kvörtun yðar mun bifreiðinni [...] hafa verið lagt í bifreiðastæði aftan við hús númer 21 við Hverfisgötu, austan Þjóðleikhússins. Af þeim ljósmyndum, sem Reykjavíkurborg afhenti umboðsmanni 3. ágúst sl., verður ráðið að bifreiðastæðið, þar sem bifreiðinni [...] var lagt, sé merkt yfirborðsmerkingu er gefur til kynna að stæði sé ætlað ökutækjum fatlaðs fólks. Skoða verður ofangreinda reglu a-liðar 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga í samhengi 87. gr. sömu laga þar sem fjallað er um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða. Þar segir í 1. mgr. að eingöngu handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða sé heimilt að leggja ökutæki í bifreiðastæði sem ætlað sé fyrir fatlaða og auðkennt með þar til gerðu umferðarmerki eða þar sem á annan hátt er sannanlega gefið til kynna að um stæði fyrir ökutæki hreyfihamlaðs einstaklings sé að ræða.

Að því virtu að ákvörðunin, sem kvörtun yðar beindist að, studdist við ofangreinda reglu a-liðar 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga, og að ljósmyndir bera með sér að bifreiðinni [...] hafi sannarlega verið lagt í stæði af því tagi, sem reglan tekur til, eru ekki efni til að gera athugasemdir við ákvörðunina. 

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.