Málsmeðferð stjórnvalda. Valdmörk stjórnvalda. Andmælaréttur. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 3553/2002)

A, framkvæmdastjóri fyrirtækis, kvartaði yfir bréfi landlæknisembættisins þar sem m.a. var staðhæft að A hefði staðið fyrir því að dreifa tilteknum persónuupplýsingum til fjölmiðla. Af hálfu A var því haldið fram að með bréfinu hefði landlæknisembættið farið út fyrir valdheimildir sínar samkvæmt lögum og jafnframt brotið gegn meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. um rannsóknarreglu og andmælarétt.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga um embættis- og eftirlitsskyldur landlæknis. Þá rakti umboðsmaður ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og benti á að landlækni væri ekki falið sérstakt hlutverk á grundvelli þeirra.

Umboðsmaður minnti á þá meginreglu íslensks réttar að stjórnsýslan sé lögbundin. Af þeirri reglu leiði að stjórnvöld geti almennt ekki unnið önnur verkefni en lög mæli fyrir um að séu á verksviði þeirra. Þá hafi almennt verið litið svo á að til þess að stjórnvald geti tekið afstöðu til hátternis tiltekins einstaklings eða lögaðila, og þá meðal annars fjallað um hvort viðkomandi hafi brotið lög, verði að standa til þess skýr lagaheimild sem feli stjórnvaldinu að annast slíkt verkefni. Taldi umboðsmaður að sú ályktun yrði dregin af lagalegri afmörkun á verkefnum og valdheimildum landlæknis að honum væri ekki falið að fjalla beinlínis um athafnir annarra einstaklinga eða lögaðila en þeirra sem falla undir löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn. Umboðsmaður tók fram að ekki væri ástæða fyrir sig að fullyrða að landlæknir gæti aldrei á grundvelli almenns eftirlitshlutverks síns og réttindagæslu fyrir hönd sjúklinga vakið athygli aðila utan heilbrigðisþjónustunnar á ýmsum atriðum er varða réttindi sjúklinga, m.a. um mikilvægi þess að gætt sé trúnaðar við meðferð heilsufarsupplýsinga, og sett fram ábendingar í því sambandi. Það félli hins vegar utan lögbundins hlutverks landlæknis að tilkynna aðila á borð við A að embættið teldi hann hafa brugðist trúnaði við tiltekna sjúklinga og jafnframt að staðhæfa, án sérstakrar rannsóknar, að hann hafi staðið að því að dreifa viðkvæmum persónuupplýsingum. Það var því niðurstaða umboðsmanns að embætti landlæknis hefði gengið lengra í þessu máli en samrýmst gæti því hlutverki sem embættinu væri falið í lögum.

Þá minnti umboðsmaður á að stjórnvöld sem hafa í hyggju að gera athugasemdir við háttsemi borgaranna verði almennt að gæta að meginreglum stjórnsýsluréttar um málsmeðferð, skráðum sem óskráðum, við undirbúning slíkra aðgerða og þetta kunni einnig að eiga við í þeim tilvikum þegar embætti landlæknis telji sig hafa heimild til þess að setja fram ábendingar eða vekja athygli annarra aðila en falli beinlínis undir verksvið þess samkvæmt lögum. Þá lagði umboðsmaður áherslu á að á landlækni og starfsmönnum hans hvíldi sú skylda í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að orða ábendingar til aðila með þeim hætti að gætt væri hlutleysis, sanngirni og fyllstu kurteisi í garð þeirra sem í hlut ættu. Að mati umboðsmanns var efni og orðalag í umræddu bréfi til A gagnrýnivert.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til landlæknis að hann tæki málið til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk um það frá A, og hagaði þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Þá voru það jafnframt tilmæli umboðsmanns að þess yrði framvegis gætt að haga meðferð hliðstæðra mála hjá embætti landlæknis í samræmi við þau sjónarmið sem fram komi í álitinu.

I.

Hinn 10. júlí 2002 leitaði B, hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd fyrirtækisins X ehf. og A, framkvæmdastjóra þess, til mín og kvartaði yfir bréfi landlæknisembættisins, dags. 13. júní 2002, til A en bréf þetta er undirritað af aðstoðarlandlækni.

Í kvörtuninni er því haldið fram að umrætt bréf frá aðstoðarlandlækni feli í sér „alvarlega misnotkun opinbers embættis, til að koma fram tilefnislausum skömmum, auk þess sem lokasetning bréfsins vekji upp spurningar um hvað átt sé við“. Þá segir í kvörtuninni að „ekki þurfi heldur að fjölyrða um það að reglur stjórnsýslulaga séu að engu hafðar, svo sem rannsóknar- og andmælaregla“.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 19. desember 2002.

II.

Málsatvik eru þau að 30. maí 2002 var listi með upplýsingum um ávísanir tiltekins læknis til nafngreindra einstaklinga sendur fyrir mistök í símbréfi til fyrirtækisins X ehf. en Lyfjastofnun hafði óskað eftir að fá listann sendan frá lyfjabúð í Reykjavík. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins uppgötvuðust mistökin fljótlega og var af hálfu lyfjabúðarinnar þegar í stað haft samband við X ehf. og þess óskað að listanum yrði eytt. Framkvæmdastjóri X ehf. hafði hins vegar boðsent listann til Persónuverndar, að höfðu samráði við lögreglu og framkvæmdastjóra Persónuverndar. Umræddur listi barst síðar í hendur fjölmiðla og varð nokkur fréttaflutningur vegna málsins.

Framkvæmdastjóra X ehf. barst nokkru síðar bréf það er kvörtun þessi er sprottin af frá landlæknisembættinu. Bréfið er dagsett 13. júní 2002 og undirritað af aðstoðarlandlækni. Í bréfinu segir:

„Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins hinn 3. júní sl. heyrði undirritaður að listi yfir lyf sem læknir hafði ávísað og afgreidd höfðu verið í ákveðnu apóteki hefði borist fjölmiðlum. Daginn eftir var frétt sama efnis í Morgunblaðinu. Athugun sem undirritaður gerði í framhaldi þessa fréttaflutnings leiddi í ljós að mistök höfðu orðið við myndsendingu trúnaðarupplýsinga frá ákveðnu apóteki til Lyfjastofnunar.

Mistökin við myndsendinguna munu hafa uppgötvast mjög fljótt og í ljós komið að myndsendingin hafði borist þínu fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum apóteksins var þegar haft samband við fyrirtækið og rækilega útskýrt að um alvarleg mistök væri að ræða, trúnaðarupplýsingar höfðu verið myndsendar á rangt númer og óskað var mjög eindregið eftir því að umræddum lista yrði eytt. Var það skilningur starfsmanns apóteksins að brugðist yrði við beiðninni á þann hátt sem farið var fram á.

Það kemur síðan í ljós að ekki var orðið við þessari beiðni af þinni hálfu. Þvert á móti brást þú þeim trúnaði sem farið var fram á við þig og munt þú hafa staðið fyrir því að dreifa þessum viðkvæmu persónuupplýsingum. Umhugsunarvert er hvaða hugsunarháttur liggi að baki slíkum gjörningi, ekki síst með tilliti til þess að fyrirtæki þitt mun óbeint tengjast heilbrigðisþjónustunni.“

III.

Ég ritaði landlæknisembættinu bréf, dags. 17. júlí 2002, þar sem ég greindi honum frá kvörtuninni og gaf honum kost á því, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að tjá sig um hana og eftir atvikum að gera mér nánar grein fyrir tilefni þess að bréfið var ritað.

Skýringar landlæknis bárust mér í bréfi, dags. 26. júlí 2002. Þar segir að málið snúist um þau alvarlegu mistök sem orðið hafi í lyfjabúð hér í bæ þegar trúnaðarupplýsingar, lyfjaávísanir til nafngreindra einstaklinga, hafi borist til fyrirtækisins X ehf. í stað þess að berast Lyfjastofnun eins og til var ætlast. Þá rekur landlæknir atburðarrás málsins og vísar meðal annars til þess að í bréfi lögmanns framkvæmdastjóra X ehf. frá 10. júlí 2002 hafi komið fram að fyrirtækið hafi sent listann til Persónuverndar og að í bréfi Persónuverndar til hans frá 25. júní 2002 sé þess getið að Persónuvernd muni hefja sjálfstæða athugun á afhendingu listans til fjölmiðla. Að mati landlæknis virðist málið því vera í eðlilegum farvegi að því leyti til. Þá segir í skýringarbréfinu til mín að Persónuvernd hafi þó látið þess getið í bréfi sínu til A að hann hafi sjálfur komið listanum á framfæri við fjölmiðla undir nöfnum og kennitölum. Síðan segir í bréfi landlæknis:

„Bréf aðstoðarlandlæknis til [A] er skrifað í ljósi þessara upplýsinga. Öllum þeim sem þennan lista höfðu undir höndum á að vera ljóst hversu mikilvægar og viðkvæmar trúnaðarupplýsingar hann hafði að geyma og einnig átti fyrirtækinu eða forstjóra þess að verða mjög fljótlega ljóst að alvarleg mistök hefðu orðið í sendingu listans. Í ljósi venjulegra samfélagsgilda um siðferði og nærgætni við umgengni manna í millum er erfitt að ætlast til annars en að mönnum ætti að vera ljóst að upplýsingar af þessu tagi áttu ekkert erindi til fjölmiðla. Minna verður einnig á lög um réttindi sjúklinga og ákvæði um þagnarskyldu í meðferð heilsufarsupplýsinga. Þótt gera verði kröfur um skilning á þessum málum til allra, leyfa starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar sér að gera sérstakar kröfur til þeirra sem þekkja starfsemi hennar vegna starfa sinna þar eða við viðskipta við heilbrigðiskerfið og starfsmenn þess.

Í ljósi þessa taldi embættið ástæðu til að minna [A] á þessa skyldu sína og finna mjög alvarlega að framgangi fyrirtækisins í þessu máli, í ljósi þeirra upplýsinga sem lágu fyrir. Vilji hann lesa annað úr bréfinu en í því stendur er honum það að sjálfsögðu frjálst. Aðfinnslan stendur hins vegar og er mjög miður, með ítrekaðri tilvísun til grundvallarreglna í mannlegum samskiptum í heilbrigðisþjónustunni, að þessi atburður hafi orðið.“

Ég ritaði landlækni á ný bréf 23. ágúst 2002 og vísaði til þess að af bréfi hans frá 26. júlí 2002 mætti ráða að embætti hans teldi að það hafi haft heimildir til að rita X ehf. bréf það sem um ræðir í máli þessu. Af því tilefni og að því gefnu að embættið veiti þeim aðilum sem það hefur eftirlit með, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, tækifæri til að tjá sig þegar grunur vaknar um trúnaðarbrest óskaði ég í samræmi við 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir að embættið upplýsti hvort því hefði borið að veita X ehf. rétt til að tjá sig um atvik málsins áður en embættið tók ákvörðun um að rita umrætt bréf til fyrirtækisins.

Í svarbréfi sínu, dags. 29. ágúst 2002, segir landlæknir að rétt sé að rifja upp að tilefni bréfsins hafi verið það að fyrirtækið hafi farið óvarlega með trúnaðarupplýsingar um sjúklinga þrátt fyrir tilmæli um að gera slíkt ekki. Er á það bent að þessi þáttur málsins snerti verksvið embættisins. Þá segir í bréfinu:

„Hins vegar verður að minna á það að embættið hefur ekkert vald yfir fyrirtækinu [X] ehf. eða öðrum skyldum fyrirtækjum. Í bréfi embættisins til fyrirtækisins er enda ekki verið að veita því formlega áminningu, leggja fram kæru eða verið að koma fram með stjórnsýslulega íhlutun af neinu tagi enda er það hvorki á vald- né verksviði embættisins. Embættið taldi því ekki ástæðu til þess að veita fyrirtækinu sérstakan andmælarétt fyrirfram enda varla um mjög íhlutandi aðgerð embættisins að ræða. Fyrirtækið hefur hins vegar fullan rétt á að andmæla ádrepu embættisins hvenær sem því sýnist en það mun ekki breyta skoðun embættisins á því að farið var illa með trúnaðarupplýsingar um sjúklinga. Von embættisins er sú að þetta gerist ekki aftur og var það í reynd megintilgangur bréfsins.“

Með bréfi, dags. 17. september 2002, gaf ég lögmanni X ehf. kost á að gera athugasemdir við svarbréf landlæknis. Í bréfi sínu, dags. 30. september 2002, segir lögmaðurinn meðal annars svo:

„Í bréfinu endurtekur landlæknir fullyrðingu aðstoðarlandlæknis, um að umbjóðendur mínir hafi farið öðruvísi með bréf sem barst á faxtæki X ehf., en ætlast mátti til. Hið rétta er að haft var samband við [...], lögfræðing hjá embætti ríkislögreglustjóra, sem vísaði umbjóðanda mínum á að snúa sér til Persónuverndar. Umbjóðandi minn telur þetta hafa verið fullkomlega eðlilega og ábyrga meðferð á bréfinu. Um frekari dreifingu var ekki að ræða af hálfu umbjóðenda minna.

Ítrekuð er ósk um að gerðar verði alvarlegar athugasemdir við embættisfærslu bréfritara, sem og að gerð verði athugasemd við þá staðreynd að landlæknir sjálfur heldur fast við fullyrðingu aðstoðarlandlæknis, en fyrir henni er ekki fótur.“

IV.

1.

Af gögnum málsins og skýringum landlæknisembættisins til mín verður ráðið að umrætt bréf aðstoðarlandlæknis, dags. 13. júní 2002, til A var að mati embættisins liður í því hlutverki þess að „minna“ hann á skyldu hans og fyrirtækisins X ehf. um að gæta trúnaðar við meðferð viðkvæmra heilsufarsupplýsinga. Hafi embættið í tilefni af þeim atvikum sem nánar eru rakin í kafla II hér að framan ákveðið að setja fram „aðfinnslu“/„ádrepu“ í umræddu bréfi til A.

Af hálfu X ehf. og A er því haldið fram að með bréfi landlæknisembættisins, dags. 13. júní 2002, til A hafi embættið farið út fyrir valdheimildir sínar samkvæmt lögum og jafnframt brotið gegn meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðal annars um rannsóknarreglu og andmælarétt.

2.

Almenn ákvæði um embætti landlæknis er að finna í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er landlæknir „ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt er varðar heilbrigðismál“ og annast hann „framkvæmd tiltekinna málaflokka f.h. ráðherra samkvæmt lögum, reglum og venjum, er þar um gilda“. Í sama ákvæði kemur fram að landlæknir hafi eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Þá er landlækni skylt að sinna kvörtunum eða kærum, er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar, sbr. 5. mgr. 3. gr.

Nánari útfærslu á eftirlitsskyldu landlæknis með starfi heilbrigðisstétta er að finna í reglugerð nr. 411/1973, um landlækni og landlæknisembættið, og í sérlögum um hinar ýmsu starfsstéttir heilbrigðisþjónustunnar og er þar jafnframt kveðið á um úrræði sem landlækni ber að grípa til ef hann verður þess áskynja að heilbrigðisstarfsmaður hafi brotið af sér í starfi. Þannig er t.d. mælt fyrir um eftirlitskyldu landlæknis með læknum í 18. gr. læknalaga nr. 53/1988. Í 1. mgr. 28. gr. laganna segir að landlækni beri, verði hann þess var að læknir vanræki skyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við fyrirmæli heilbrigðislaga landsins, að áminna hann. Jafnframt er kveðið á um að áminningin skuli vera skrifleg og rökstudd. Sambærileg ákvæði um eftirlit landlæknis og skyldu hans til að veita heilbrigðisstarfsmanni áminningu vegna vanrækslu eða brots í starfi má t.d. finna í 7. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974, 10. gr. laga um sjúkraþjálfun nr. 58/1976, 7. gr. laga um sjúkraliða nr. 58/1984 og 12. gr. laga um tannlækningar nr. 38/1985.

Landlækni eru einnig falin verkefni samkvæmt öðrum lögum, t.d. lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, sjá t.d. 12., 14. og 28. gr. þeirra. Markmið laga um réttindi sjúklinga er samkvæmt 1. gr. laganna m.a. að styrkja réttarstöðu sjúklinga gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Í krafti eftirlitshlutverks síns með heilbrigðisþjónustunni ber landlækni meðal annars að fylgjast með því að trúnaðar- og þagnarskylda heilbrigðisstarfsmanna gagnvart sjúklingum, sem kveðið er á um í III. kafla laganna, sé virt. Það má því að vissu leyti segja að landlæknir fari á grundvelli laganna með ákveðna réttindagæslu fyrir hönd sjúklinga. Eins og áður segir er einnig mælt fyrir um þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna í sérlögum um starfsmenn í heilbrigðisþjónustu og þar er einnig kveðið á um úrræði landlæknis í tilefni af vanrækslu eða brotum heilbrigðisstarfsmanna í starfi. Í samræmi við þetta getur brot heilbrigðisstarfsmanns á þagnarskyldu sinni leitt til þess að landlækni sé skylt að veita viðkomandi starfsmanni áminningu. Þagnarskylda samkvæmt heilbrigðislöggjöfinni, svo sem á grundvelli laga um réttindi sjúklinga, hvílir einungis á starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu og tekur aðeins til persónuupplýsinga um sjúkling sem þeir komast að í starfi sínu. Um brot á þessari þagnarskyldu getur því ekki verið að ræða af hálfu einstaklinga eða fyrirtækja sem ekki starfa í heilbrigðisþjónustunni, jafnvel þótt þeir aðilar kunni að komast yfir heilsufarsupplýsingar fyrir mistök.

Almennar reglur um meðferð persónuupplýsinga er hins vegar að finna í lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en markmið þeirra er m.a. að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, sbr. 1. gr. laganna. Lögin gilda um vinnslu upplýsinga af hálfu einkaaðila og opinberra aðila, sjá hér Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 2699. Upplýsingar um lyfjanotkun einstaklinga teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga samkvæmt c-lið 8. tölul. 2. gr. laganna og er vinnsla slíkra upplýsinga óheimil nema fyrir henni sé sérstök heimild samkvæmt 8. og 9. gr. laganna. Vinnsla í skilningi laganna getur t.d. falið í sér miðlun slíkra upplýsinga, sjá Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 2699. Ég tek fram að landlækni er ekki falið sérstakt hlutverk á grundvelli laga nr. 77/2000. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna er það Persónuvernd sem annast eftirlit með framkvæmd þeirra og reglna settra samkvæmt þeim. Samkvæmt 2. tl. 3. mgr. sömu greinar ber Persónuvernd m.a. að hafa eftirlit með því að farið sé að lögum og öðrum reglum um vinnslu persónuupplýsinga og að bætt sé úr annmörkum og mistökum. Í samræmi við þetta er í lögunum kveðið á um rúmar rannsóknarheimildir Persónuverndar og jafnframt eru stofnuninni veittar víðtækar valdheimildir til að knýja á um að farið sé að fyrirmælum laganna. Í 2. mgr. 37. gr. segir að Persónuvernd úrskurði í ágreiningsmálum sem upp kunni að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Getur stofnunin fjallað um einstök mál að eigin frumkvæði eða samkvæmt erindi þess sem telur að vinnsla persónuupplýsinga um hann hafi ekki verið í samræmi við lög.

3.

Í bréfi aðstoðarlandlæknis til framkvæmdastjóra X ehf., sem mál þetta er sprottið út af, er staðhæft að framkvæmdastjórinn hafi brugðist þeim trúnaði sem farið hafi verið fram á við hann af hálfu lyfjabúðarinnar sem fyrir mistök sendi lista með upplýsingum um lyfjaávísanir til nafngreindra einstaklinga til fyrirtækis hans. Þá er því haldið fram að framkvæmdastjórinn hafi staðið fyrir dreifingu þeirra viðkvæmu persónuupplýsinga sem listinn hafði að geyma.

Í bréfi mínu til landlæknisembættisins, dags. 17. júlí 2002, fór ég meðal annars fram á að mér yrði af hálfu embættisins gerð nánari grein fyrir tilefni þess að ofangreint bréf var ritað. Í svarbréfi landlæknis til mín, dags. 26. júlí 2002, er bent á að listinn hafi haft að geyma mikilvægar og viðkvæmar trúnaðarupplýsingar. Ennfremur er minnt á lög um réttindi sjúklinga og ákvæði um þagnarskyldu í meðferð heilsufarsupplýsinga. Þá segir að þótt gera verði kröfur um skilning á þessum málum til allra, leyfi starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar sér að gera sérstakar kröfur til þeirra sem þekkja starfsemi hennar vegna starfa sinna þar eða vegna viðskipta við heilbrigðiskerfið og starfsmenn þess. Í ljósi þessa hafi embættið talið „ástæðu til að minna A á þessa skyldu sína og finna mjög alvarlega að framgangi fyrirtækisins í þessu máli“. Landlæknir tekur hins vegar fram í bréfi sínu til mín, dags. 29. ágúst 2002, að embættið hafi ekkert vald yfir nefndu fyrirtækinu eða öðrum skyldum fyrirtækjum. Jafnframt kemur þar fram að landlæknir lítur ekki svo á að bréf embættisins til fyrirtækisins feli í sér formlega áminningu, kæru né stjórnsýslulega íhlutun af neinu tagi enda sé slíkt hvorki á vald- né verksviði embættisins. Embættið hafi því ekki talið ástæðu til þess að veita fyrirtækinu sérstakan andmælarétt fyrirfram „enda varla um mjög íhlutandi aðgerð embættisins að ræða“.

Það er meginregla íslensks réttar að stjórnsýslan er lögbundin. Af þessari reglu leiðir að stjórnvöld geta almennt ekki unnið önnur verkefni en lög mæla fyrir um að séu á verksviði þeirra. Þá hefur almennt verið litið svo á að til þess að stjórnvald geti tekið afstöðu til hátternis tiltekins einstaklings eða lögaðila, og þá meðal annars fjallað um hvort viðkomandi hafi brotið lög, verði að standa til þess skýr lagaheimild sem veitir stjórnvaldinu heimild til þess að annast slík verkefni.

Landlækni er með lögum falið að hafa að eftirlit með starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar. Í ýmsum sérlögum um heilbrigðisstarfsmenn, sem ég hef rakið hér að framan, er þannig kveðið á um sérstakar valdheimildir sem landlækni eru veittar til að bregðast við því ef hann verður þess áskynja að heilbrigðisstarfsmanni hafi orðið alvarlega á í starfi sínu. Á þetta m.a. um brot heilbrigðisstarfsmanns á þagnarskyldu sinni. Samkvæmt þessu tel ég að sú ályktun verði dregin af lagalegri afmörkun á verkefnum og valdheimildum landlæknis að honum er ekki falið að fjalla beinlínis um athafnir annarra einstaklinga eða lögaðila en þeirra sem falla undir löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn. Ég ítreka að hvorki er í lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, né öðrum lögum mælt sérstaklega fyrir um heimildir til handa landlækni til að grípa til aðgerða í tilefni af málum sem varða meint brot annarra en heilbrigðisstarfsmanna á reglum um trúnað við meðferð heilsufarsupplýsinga. Ég tek fram að með tilliti til þessa er af hálfu landlæknisembættisins viðurkennt að embættið hafi ekki haft formlegar valdheimildir til „stjórnsýslulegrar íhlutunar“ gagnvart framkvæmdastjóra X ehf. Í umræddu bréfi aðstoðarlandlæknis, dags. 13. júní 2002, sem sent var til framkvæmdastjórans er þó fullyrt að hann hafi „[brugðist] þeim trúnaði“ sem farið hafi verið fram á við hann og síðan er staðhæft að framkvæmdastjórinn hafi „staðið fyrir því að dreifa þessum viðkvæmu persónuupplýsingum“. Með þessu lét embætti landlæknis í ljós afstöðu sína um ætlaða háttsemi framkvæmdastjórans. Þá gaf þetta orðalag bréfsins til kynna þá afstöðu landlæknis að þetta hátterni framkvæmdastjórans kynni að vera andstætt lögum en ég minni á að í skýringarbréfi landlæknis til mín er rakið að með bréfinu hafi embættið verið að minna A á „skyldu“ sína og er í þessu efni vísað til laga um réttindi sjúklinga og ákvæða um þagnarskyldu í meðferð heilsufarsupplýsinga. Ég tek fram að ekki er ástæða fyrir mig til að fullyrða hér að landlæknir geti aldrei á grundvelli almenns eftirlitshlutverks síns og réttindagæslu fyrir hönd sjúklinga vakið athygli aðila utan heilbrigðisþjónustunnar á ýmsum atriðum er varða réttindi sjúklinga, m.a. um mikilvægi þess að gætt sé trúnaðar við meðferð heilsufarsupplýsinga, og sett fram ábendingar í því sambandi. Það fellur hins vegar utan lögbundins hlutverks landlæknis að tilkynna aðila á borð við framkvæmdastjóra X ehf. að embættið telji hann hafa brugðist trúnaði við tiltekna sjúklinga og jafnframt að staðhæfa, án sérstakrar rannsóknar, að hann hafi staðið að því að dreifa viðkvæmum persónuupplýsingum. Það er því niðurstaða mín að embætti landlæknis hafi gengið lengra í þessu máli en gat samrýmst því hlutverki sem embættinu er falið í lögum.

Í þessu máli verður ekki séð að embætti landlæknis hafi látið fara fram sjálfstæða rannsókn á atvikum málsins, og m.a. gefið framkvæmdastjóra X ehf. kost á því að tjá sig, áður en embættið sendi honum umrætt bréf. Ég tek af því tilefni fram að hvað sem líður því hvort landlæknir hafi haft heimild í lögum til þess að senda framkvæmdastjóranum umrætt bréf tel ég að embætti landlæknis, eins og öðrum stjórnvöldum sem hafa í hyggju að gera athugasemdir við háttsemi borgaranna, verði að gæta að meginreglum stjórnsýsluréttar um málsmeðferð, skráðum sem óskráðum, við undirbúning slíkra aðgerða. Ég tek fram að þetta kann einnig að eiga við í þeim tilvikum þegar embætti landlæknis telur sig hafa heimild til þess að setja fram ábendingar eða vekja athygli annarra aðila en falla beinlínis undir verksvið þess samkvæmt lögum. Ég bendi að andmæli aðila kunna eftir atvikum að skýra og upplýsa málið betur og jafnvel að hafa þau áhrif að stjórnvald telji ekki lengur tilefni til frekari afskipta af máli.

Ég legg áherslu á það að á landlækni og starfsmönnum hans hvílir sú skylda í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að orða ábendingar til aðila með þeim hætti að gætt sé hlutleysis, sanngirni og fyllstu kurteisi í garð þeirra sem í hlut eiga. Að mínu mati er efni og orðalag í bréfi embættis landlæknis til framkvæmdastjóra X ehf. gagnrýnivert. Það hefur að geyma órökstuddar fullyrðingar um trúnaðarbrest hans og ábyrgð framkvæmdastjórans á dreifingu viðkvæmra persónuupplýsinga. Þá eru vangaveltur í bréfinu um huglæga afstöðu A með tilvísun til tengsla fyrirtækis hans við heilbrigðisþjónustuna óheppilegar.

V.

Niðurstaða.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða mín að með bréfi embættis landlæknis, dags. 13. júní 2002, til A, framkvæmdastjóra X ehf., hafi embættið gengið lengra en því var heimilt samkvæmt lögum. Þá verði ekki séð að embættið hafi framkvæmt sjálfstæða rannsókn á atvikum málsins og gefið A kost á því að tjá sig um þau áður en það sendi bréfið.

Ég beini þeim tilmælum til landlæknis að hann taki mál þetta til meðferðar að nýju, komi fram ósk um það frá A, og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hafa verið í þessu áliti. Það eru jafnframt tilmæli mín til landlæknis að þess verði framvegis gætt að haga meðferð hliðstæðra mála hjá embættinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í álitinu.

VI.

Með bréfi til landlæknis, dags. 14. febrúar 2003, óskaði ég upplýsinga um hvort A hefði leitað til landlæknisembættisins á ný og hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða hvort málið væri enn til meðferðar. Í bréfi landlæknis, dags. 20. febrúar 2003, er það upplýst að A hafi ekki leitað til embættisins að nýju vegna kvörtunar sinnar. Því hafi engar frekari ákvarðanir verið teknar í máli hans eða fyrirtækis hans og líti embættið svo á að afskiptum þess af því sé lokið. Þetta er áréttað í bréfi aðstoðarlandlæknis til mín, dags. 18. mars 2003.