Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 12274/2023)

Ekki varð fyllilega ráðið að hverju kvörtun beindist en þó virtist hún varða sömu atvik og eldri kvörtun sem þegar hafði verið afgreidd.

Í svari sínu til viðkomandi reifaði umboðsmaður nokkur atriði til að varpa frekara ljósi á afstöðu sína og ítrekaði jafnframt fyrri niðurstöðu um að hluti umkvörtunarefna félli utan ársfrests, önnur hefðu ekki verið borin undir æðra stjórnvald og að starfssvið umboðsmanns tæki almennt ekki til starfa lögmanna.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 30. júní sl. en ekki varð fyllilega ráðið af henni að hverju hún beindist enda þótt hún virtist varða sömu atvik og fyrri kvörtun yðar til umboðsmanns 19. desember sl., sem hlaut málsnúmerið 11972/2022 í málaskrá embættisins, en meðferð hennar lauk með bréfi 22. sama mánaðar. Í þessu samhengi skal bent á að kvörtun yðar 30. júní fylgdu ýmis skjáskot af samskiptum yðar við starfsmenn Skattsins og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu auk samskipta við tilgreindan lögmann en umrædd fyrri kvörtun yðar laut einnig að þessum atriðum.

Í ljósi þess að kvörtun yðar bar ekki skýrlega með sér að hvaða athöfnum hvaða stjórnvalds hún beindist var yður skrifað bréf 31. júlí sl. þar sem þér voruð beðnir að varpa gleggra ljósi á að hvaða tiltekna eða tilteknu stjórnvöldum kvörtun yðar beindist og þá að hvaða ákvörðunum, athöfnum eða athafnaleysi þeirra svo og hvenær sú háttsemi hefði átt sér stað.

Með tölvubréfi 3. ágúst sl. upplýstuð þér umboðsmann um að þér óskuðuð eftir því að embætti hans sæi til þess að ákveðnir stjórnmálamenn létu af lögbrotum sínum en að öðru leyti vísuðuð þér til fyrra máls yðar hjá umboðsmanni, sem hlaut málsnúmerið 8720/2015 í málaskrá embættisins, svo og háttsemi tilgreinds lögmanns en kvörtun yðar 19. desember sl. til umboðsmanns laut einnig að þeirri háttsemi. Þá fylgdu tölvubréfi yðar ýmis konar viðhengi, sem meðal annars vörðuðu samskipti yðar við ríkissaksóknara árið 2009, lögregluna árið 2008 og heilbrigðisþjónustu, sem þér hafið þegið, en ekki verður séð hvaða tengsl viðhengi þessi hafa við efni kvörtunar yðar.

Viðvíkjandi framangreindri ósk yðar til umboðsmanns svo og tilvísun yðar til máls nr. 8720/2015, skal bent á að samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, skal í kvörtun lýst þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar. Telja verður umrædda hluta tölvubréfs yðar 3. ágúst sl. þannig úr garði gerða að ekki sé unnt að taka þá til skoðunar enda varð hvorki af tölvubréfinu ráðið um hvaða ákvarðanir eða athafnir væri að ræða né hver tengsl máls nr. 8720/2015 væru við kvörtunarefni yðar nú.

Í bréfi umboðsmanns til yðar 22. desember sl. var yður bent á að lungi samskipta yðar við Skattinn, sem kvörtun yðar þá laut að, hefði átt sér stað utan þess ársfrests er fram kemur í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þau samskipti, sem fylgdu kvörtun yðar nú og eru tímasett, eru einnig utan umrædds tímafrests og eru því ekki skilyrði að lögum til að sá hluti kvörtunar yðar verði tekinn til meðferðar. Þá er ekki tilefni til að fjalla frekar um þau samskipti yðar við Skattinn, sem ekki eru tímasett, enda óljóst hvort skilyrði séu að lögum til að þau atriði komi til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns.                                                                       

Sama marki eru brennd þau gögn, sem þér senduð umboðsmanni og varða ákvörðun ríkissaksóknara 15. apríl 2009, lögreglumál sýslumannsins á Selfossi 4. júlí 2008 og heilbrigðisþjónustu, sem þér þáðuð á árunum 2008 til 2018. Eru því ekki skilyrði að lögum fyrir umboðsmann til að taka þau atvik til frekari skoðunar með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Að endingu standa þá eftir nokkuð umfangsmiklar athugasemdir yðar við starfshætti tilgreinds lögmanns. Í því efni vísast til umfjöllunar í bréfi umboðsmanns til yðar 22. desember sl. um starfssvið hans og þeirrar staðreyndar að starfsemi lögmanna fellur almennt utan þess. Að því er varðar þann þátt athugasemda yðar, sem lýtur að málsmeðferð lögreglunnar í tengslum við ætlaða refsiverða háttsemi umrædds lögmanns, má einnig vísa til sama bréfs og leiðbeininga lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til yðar um að mögulegt sé að bera ákvarðanir hans um rannsóknir sakamála undir ríkissaksóknara að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ekki verður af gögnum málsins séð að þér hafið freistað þess. Í því efni vísast til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 þar sem fram kemur að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Með vísan til alls framangreinds og bréfs umboðsmanns til yðar 22. desember sl. lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.