Útlendingar. Réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Börn. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda. Þjónusta.

(Mál nr. 12323/2023)

Kvartað var yfir stjórnsýslu Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Vinnumálastofnun í tengslum við meðferð á umsókn um alþjóðlega vernd og þjónustu hér á landi.  

Þar sem hvorki hafði verið leitað til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins með málið né forstjóra Útlendingastofnunar og eftir atvikum dómsmálaráðuneytisins voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. september 2023.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar, 4. ágúst sl., fyrir hönd A, sem beint er að Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóra og Vinnumálastofnun og lýtur að stjórnsýslu téðra stofnana í tengslum við meðferð á umsókn A um alþjóðlega vernd hér á landi og þjónustu við hana og son hennar eftir að þau komu til landsins í janúar sl. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við það húsnæði og aðbúnað sem A og syni hennar stóð til boða þegar þau sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi í byrjun árs svo og skort á aðgengi sonar hennar að námi. Þá verður jafnframt ráðið að kvörtunin beinist að stjórnsýslu og upplýsingagjöf framangreindra stjórnvalda í kjölfar ákvarðana Útlendingastofnunar um frávísun A og sonar hennar 12. júní sl.

  

II

Af kvörtuninni, og þeim gögnum sem henni fylgdu, verður ráðið að A hafi komið hingað til lands í gegnum Ítalíu 21. janúar sl. ásamt syni sínum og unnusta og þau óskað eftir alþjóðlegri vernd. Áður en til ákvörðunar þar að lútandi kom hafi ítölsk stjórnvöld hins vegar viðurkennt ábyrgð sína á umsókn A og sonar hennar en í kjölfar þess hafi A dregið umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi til baka og hugðist snúa aftur til Ítalíu. Samkvæmt kvörtuninni mun ekki hafa komið til framkvæmdar á framangreindum ákvörðunum um frávísun A og sonar hennar til Ítalíu sökum aðstæðna þar í landi.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórnvöldum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í 6. gr. laganna er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Þar segir m.a. í 3. mgr. að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrir en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Af framangreindum ákvæðum leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra eða á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Í 33. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, er fjallað um réttindi umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þar kemur m.a. fram í 1. mgr. að umsækjanda skuli standa til boða húsnæði og framfærsla, sbr. a- og b-lið greinarinnar. Í 2. mgr. 33. gr. laganna segir þá að barn sem sækir um alþjóðlega vernd skuli eiga þess kost að stunda skyldunám í grunnskóla eða sambærilegt nám innan hins almenna skólakerfis eða á dvalarstað þess eins fljótt og unnt er. Nánar er þá fjallað um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd í reglugerð nr. 540/2017, um útlendinga, en þar kemur t.a.m. fram í 23. gr. að Vinnumálastofnun eða sveitarfélög og aðrir þeir aðilar sem Vinnumálastofnun hefur samið sérstaklega við um að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd þjónustu séu þjónustuaðilar umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer þá með mál er varða þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt m.a. 33. gr. laga nr. 80/2016, sbr. g-lið 2. töluliðar 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Í samræmi við framangreint, og þar sem ekki verður ráðið að afstaða stjórnvalda til þeirra atriða sem fram koma í kvörtun yðar liggi fyrir, tel ég rétt að benda yður á að þér getið freistað þess að leita með athugasemdir yðar er lúta að veittri þjónustu eða skort á henni til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins áður en umboðsmaður fjallar um þau á grundvelli kvörtunar.

Athugasemdir í kvörtun yðar lúta líkt og áður greinir jafnframt að þeim svörum og leiðbeiningum sem A fékk frá stjórnvöldum í kjölfar þess að hún dró umsókn sína um vernd til baka og í ljós kom að tafir yrðu á að hægt væri að framkvæma ákvörðun um frávísun hennar frá landinu. Á meðal þeirra gagna sem fylgdu kvörtuninni voru tölvubréfasamskipti A við starfsmann Útlendingastofnunar. Í tölvubréfi starfsmannsins til A 14. júlí sl. var henni leiðbeint um að sækja að nýju um alþjóðlega vernd vildi hún þiggja áframhaldandi þjónustu af hálfu Útlendingastofnunar. Ég tek fram að af kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum verður ekki ráðið hvort A hafi, eftir veittar leiðbeiningar frá Útlendingastofnun, sótt að nýju um vernd hér á landi og hvort mál hennar sé enn til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Af því tilefni tel ég rétt og í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að þér freistið þess að koma athugasemdum yðar á framfæri við forstjóra Útlendingastofnunar og eftir atvikum dómsmálaráðuneytið sem fer með yfirstjórn útlendingamála, þ. á m. Útlendingastofnunar, sbr. 27. tölulið 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, áður en til umboðsmanns er leitað með kvörtun. 

  

III

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt skilyrði samkvæmt lögum nr. 85/1997 til að fjalla nánar um erindi yðar. Lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.