Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 12335/2023)

Kvartað var yfir því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefði ekki brugðist við erindum um nýjan félagsráðgjafa.  

Ljóst var að kvörtunin laut að sömu atriðum og fyrri kvörtun og ekki ástæða til að endurskoða fyrri afstöðu umboðsmanns. Þá benti umboðsmaður á að gögn málsins varpi ljósi á tíð samskipti viðkomandi við borgina, að móttaka erinda hans væri reglulega staðfest og upplýst um stöðu þeirra. Ekki væri því tilefni til að aðhafast vegna athugasemda um skort á slíku.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. september 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 15. ágúst sl. yfir því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi hvorki ráðið bót á húsnæðisvanda yðar né brugðist við erindum yðar um nýjan félagsráðgjafa. Ljóst er að kvörtun yðar lýtur að sömu atriðum og fyrri kvörtun yðar, sem hlaut málsnúmerið 12263/2023, en meðferð hennar var lokið með bréfi umboðsmanns 11. ágúst sl.

Í bréfi mínu til yðar 11. ágúst sl. kemur fram að með bréfi 13. júlí sl. hafi verið óskað eftir upplýsingum um viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum yðar. Svör Reykjavíkurborgar báru með sér að beiðni um nýjan félagsráðgjafa væri til meðferðar svo og úrlausn húsnæðisvanda yðar auk þess sem erindum yðar hefði verið svarað á tilgreindum dögum í júní- og júlímánuði. Þá má einnig ráða af tölvubréfi yðar til umboðsmanns 16. ágúst sl. að þér hafið lagt fram nýja umsókn um almenna félagslega leiguíbúð 10. sama mánaðar. Þá skal og bent á að meðal gagna, sem þér hafið afhent umboðsmanni, eru tölvubréf starfsmanns Reykjavíkurborgar til yðar 16. og 17. ágúst sl. þar sem erindum yðar er svarað og yður gerð grein fyrir því að umsóknir yðar séu í vinnslu. Með tölvubréfi 25. sama mánaðar var yður og gerð grein fyrir því að úrlausn húsnæðisvanda yðar og úthlutun nýs félagsráðgjafa væru í vinnslu hjá Reykjavíkurborg. Að endingu skal þess getið að móttaka erinda frá yður til sveitarfélagsins hefur reglulega verið staðfest, meðal annars með tölvubréfum 24., 28., 29. og 31. ágúst sl. svo og 1. og 4. september sl.

Líkt og kemur fram í bréfi mínu til yðar 11. ágúst sl. er stutt síðan umsókn yðar um félagslegt leiguhúsnæði var samþykkt á biðlista en því til viðbótar virðist þér á nýjan leik hafa lagt fram slíka umsókn 10. ágúst sl. Af þessu leiðir að ekki er tilefni til að endurskoða þá afstöðu, sem fram kemur í umræddu bréfi mínu, að ekki sé tilefni til að aðhafast vegna athugasemda yðar um að ekki hafi enn verið ráðin bót á húsnæðisvanda yðar. Þá bera gögn, sem þér afhentuð umboðsmanni og varpa ljósi á tíð samskipti yðar við Reykjavíkurborg, einnig með sér að móttaka erinda yðar sé reglulega staðfest og þér upplýstir um að mál yðar séu til vinnslu hjá sveitarfélaginu. Viðvíkjandi athugasemdum yðar við að ekki sé brugðist við erindum yðar um nýjan félagsráðgjafa eru þau sama marki brennd og erindi um húsnæðisvanda yðar, þ.e. sveitarfélagið hefur ítrekað upplýst yður um að sú beiðni sé í vinnslu. Af því leiðir að ekki er tilefni til að aðhafast í tilefni þessara athugasemda yðar.

Með vísan til þess, sem fram kemur hér að ofan, bréfs míns til yðar 11. ágúst sl. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugum inni á kvörtun yðar lokið.